Sendiherra Kína 2018

Jin Zhijian Nýr Sendiherra Kína

Kínverski sendiherrann heimsækir fyrrum formann Kím, Arnþór Helgason, vináttusendiherra.

Mánudaginn 29. janúar kom hingað til lands Jin Zhijian nýskipaður sendiherra Kínverska alþýðulýðveldisins hér á landi ásamt eiginkonu sinni He Linyun.

Föstudaginn 2. febrúar sóttu þau heim Arnþór Helgason, vináttusendiherra og eiginkonu hans, Elínu Árnadóttur. Þeir Arnþór og sendiherrann eru gamlir kunningjar, en sendiherrann stundaði nám hér á landi á árunum 1988-91 auk þess sem hann vann við sendiráðið. Urðu því miklir fagnaðarfundir með þeim. Í samræðum þeirra bar ýmislegt á góma. Arnþór hefur verið viðloðandi menningarsamskipti Íslands og Kína í tæplega hálfa öld. Rædd voru samskipti Íslands og Kína frá ýmsum hliðum. Þeir Arnþór og Jin voru sammála um að gagnkvæmir hagsmunir væru í veði á norðurslóðum, enda væru afleiðingar hlýnunar andrúmsloftsins farnar að hafa þar víðtæk áhrif. Sendiherran sagði að það væri allra hagur að þjóðir einbeittu sér í baráttunni við að bjarga jörðinni frá glötun. Þótt Kína væri þróunarríki legðu Kínverjar nú hart að sér við að draga úr mengun á öllum sviðum. Þeir Arnþór voru sammála um mikilvægi gagnkvæmra kynna og sagði Jin Zhijian að sendiráðið myndi styðja við bakið á Kínversk-íslenska menningarfélaginu við að stofna til tengsla á milli íslenskra og kínverskra ungmenna. Arnþór rakti í nokkrum orðum starf Kím á þeim vettvangi, en núverandi formaður ber ungmennasamskipti mjög fyrir brjósti.

Að lokum afhenti sendiherrann þeim hjónum tesett að gjöf.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *