Lög

Lög Kínversk-íslenska menningarfélagsins

1. gr.
Félagið heitir Kínversk-íslenska menningarfélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Tilgangur félagsins er að koma á og halda uppi menningarlegu samstarfi milli Íslands og Kína, og veita fræðslu um menningu, þjóðfélagshætti og vísindi í Kína og stuðla að því að kynna þar íslenska menningu, bókmenntir og listir.

3. gr.
Þessum tilgangi vill félagið ná meðal annars með því:

  • að greiða fyrir samskiptum milli menntastofnana, félaga og einstaklinga í báðum löndum og afla heimilda um stjórnmál, þjóðfélagshætti og menningar- og vísindastarfsemi í Kína;
  • að gangast fyrir fræðslu um Kína með fyrirlestrum, kvikmyndasýningum, öflun bóka og tímarita, myndsýningum, flutningi tónlistar og annarri upplýsingastarfsemi;
  • að koma á framfæri við útvarp, blöð og tímarit gagnkvæmri kynningu á menningu Íslands og Kína og nýjungum á sviði vísinda og lista;
  • að stuðla á hvern annan hátt að vinsamlegu samstarfi Íslendinga og Kínverja.

4. gr.
Félagsaðild er opin öllum einstaklingum, fyrirtækjum og félögum, sem vilja starfa í samræmi við stefnu og tilgang félagsins og greiða árgjald til þess.

5. gr.
Til inngöngu í félagið þarf samþykki stjórnar.

Hvert félag og fyrirtæki sem aðild á að félaginu hefur líkt og hver einstaklingur aðeins eitt atkvæði á fundum félagsins.

6. gr.
Árgjald félagsins skal ákveða á aðalfundi. Heimilt er að veita afsátt af gjaldinu og skulu einkum njóta hans námsmenn, ellilífeyrisþegar og örykjar. Þá er heimilt að veita fjölskyldum afslátt þannig að einungis einn einstaklingur á hverju heimili greiði fullt gjald. Stjórn félagsins skal leggja fram tillögur um slíkan afslátt á aðalfundi.

Árgjald félagsins skal ákveða á aðalfundi.

7. gr.
Félagsaðild má fella niður með ákvörðun stjórnar vanræki einstaklingur, félag eða fyrirtæki í tvö ár eða lengur að greiða félagsgjald. Einnig má víkja manni úr félaginu samkvæmt ákvörðun stjórnarinnar, ef hann gerist brotlegur við stefnu þess og tilgang. Ákvörðun stjórnarinnar verður þó að bera undir almennan félagsfund til samþykktar.

8. gr.
Félagið skal halda aðalfund í október mánuði ár hvert og er hann lögmætur ef boðað er til hans með fjögurra daga fyrirvara svo sannanlegt sé. Á aðalfundi skal kjósa 5 menn í stjórn félagsins. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega. Í varastjórn skulu kosnir þrír menn. Enn fremur skal kjósa tvo endurskoðendur og einn til vara. Svo og skal kjósa í nefndir á vegum félagsins. Kosning fer fram skriflega, ef þess er óskað, að fram komnum uppástungum.

9. gr.
Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Hún hefur á hendi daglegar framkvæmdir félagsins. Heimilt er henni að ráða sér starfsmenn, ef ástæða þykir til. Stjórn félagsins skuldbindur félagið út á við. Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar er á fundi.

10. gr.
Stjórnin kallar saman félagsfund þegar hún telur þess þörf. Skylt er að kalla saman félagsfund ef 25 félagsmenn hið minnsta krefjast þess skriflega og greina ástæður. Til félagsfunda skal boða á sama hátt og til aðalfunda. Fundurinn er lögmætur ef hann er löglega boðaður.

11. gr.
Stjórnin skal leggja fyrir aðalfund til úrskurðar endurskoðaða reikninga félagsins fyrir næsta almanaksár á undan. Hún gefur einnig á aðalfundi skýrslu um störf félagsins.

12. gr.
Samþykktum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi, enda greiði tveir þriðju fundarmanna atkvæði með breytingum. Tillögur um lagabreytingar skulu sendar stjórn félagsins eigi síðar en 20. september.

13. gr.
Lög þessi voru þannig samþykkt á stofnfundi félagsins 20. október 1953 með á orðnum breytingum á aðalfundum 1957, 1975, 1977, 1978, 1982, 1990, 2008, 2010 og 2013.