Miðvikudaginn 7. september sæmdi borgarstjórn Shanghai-borgar 50 erlenda ríkisborgara heiðursmerki hinnar hvítu magnolíu, en magnolían er borgarblóm Shanghai. Þessi viðurkenning er veitt á hverju ári og eru tilnefningar fengnar frá fjölda samtaka svo sem samtökum iðnaðar, verslunar, menntastofnana og utanríkismála. Vináttusamtök Shanghai, sem sjá m.a. um ýmis utanríkissamskipti, tilnefndu að þessu sinni tvo einstaklinga, Samir Tajik, formann Vináttusamtaka Svartfjallalands og Arnþór Helgason, formann Kínversk-íslenska menningarfélagsins. Viðurkenning þessi hefur verið veitt frá árinu 1989 og hefur þeim stofnunum farið fjölgandi sem eiga þátt í þessari viðurkenningu.
Hér má hlusta á viðtal Guðrúnar Gunnarsdóttur við Arnþór Helgason í Mannlega þættinum á Rás eitt 12. september.