Nokkrar úr Kvennakór Háskóla Íslands flytja lagið Austrið.

Aðalfundur 2017

Aðalfundur Kím 17. október 2017
á veitingastaðnum Tian við Grensásveg

64. starfsár Kínversk-Íslenska menningarfélagsins.
Fundarstjóri: Kristján Jónsson og Magnús Björnsson í kosningahluta fundarins.
Fundarritari: Þorgerður Anna Björnsdóttir.
Fundur settur kl.18:10 og fundargestir 32 talsins.

Formaður Kím, Arnþór Helgason, tekur til máls og býður sérstaklega velkominn sendiherra Kínverja á Íslandi; Hr. Zhang Weidong.

Að því loknu minnist hann tveggja góðra Kím-félaga er fallið hafa frá á árinu, þeirra Sigurðar Pálssonar og Húnboga Þorsteinssonar.

Arnþór mælir með Kristjáni Jónssyni sem fundarstjóra, auk Magnúsar Björnssonar til fundarstjórnar er kemur að kosningum í stjórn og Þorgerði Önnu Björnsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt.

Kristján Jónsson að stjórna fundinum, ásamt Magnúsi Björnssyni.
Kristján Jónsson stjórnaði fundinum, ásamt Magnúsi Björnssyni.

Arnþór Helgason, formaður Kím, gerir ársskýrslu Kím skil: 

  • Sýningin Kína og Ísland – samskipti vinaþjóða var opnuð í Þjóðarbókhlöðunni 12. nóvember og stóð til 4. apríl. Afar vel tókst til.Hugmyndir hafa sprottið um að standa fyrir gagnkvæmum bókakynningum og miðla rafbókum, sem er hagkvæmt og vinsælt snið.
  • Einnig var haldin fyrirlestraröð í sambandi við sýninguna er fjallaði um samskipti þjóðanna tveggja auk kynninga á kínverskri menningu. Alls voru fyrirlestrarnir níu talsins og sá síðasti í höndum sendiherrans, Hr. Zhang Weidong.
  • Í desember voru liðin 45 ár síðan tekið var upp stjórnmálasamband á milli Íslands og Kína. Af því tilefni var skipuð sérstök ritnefnd vegna ritunar samskiptasögu þjóðanna. Yfir ritnefndinni er dr. Sverrir Jakobsson og til verksins ráðin Þorgerður Anna Björnsdóttir, starfsmaður Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljós við Háskóla Íslands. Verkefnið hófst formlega þann 1.september 2017. Arnþór þakkar sendiherra Kína sérstaklega fyrir hans þátt í því að tryggja verkefninu styrk frá kínverska utanríkisráðuneytinu.
  • Belti og braut. Dan Zhu fiðluleikari hélt tónleika í Hörpu ásamt undirleikara og hélt fyrirlestur í sambandi við verkefni utanríkisþjónustu Kína sem nefnist Belti og braut.
  • Li Xiaolin, forseti Vináttusamtaka Kína, kom í heimsókn til landsins 4.-6. september.
  • Majiang spilakvöld voru haldin tvisvar.
  • Samskipti við sendiráðið hafa verið mjög góð á árinu.
    Formaður þakkar kærlega fyrir það og tekur fram að góð samskipti við sendiráðið gefi menningarstarfi Kím aðeins aukið vægi.
  • Að lokum þakkar formaður Kím kærlega fyrir traust og samvinnu annarra Kím félaga á starfsferli sínum sem formaður.

    Arnþór Helgason, formaður Kím.
    Arnþór Helgason, formaður Kím.

Þegar formaður hefur lokið máli sínu, gefur fundarstjóri kínverska sendiherranum Zhang Weidong orðið.

Ávarp sendiherra Alþýðulýðveldis Kína, Zhang Weidong

Zhang Weidong, sendiherra Alþýðulýðveldis Kína
Zhang Weidong, sendiherra Alþýðulýðveldis Kína

Sendiherrann þakkar fyrir boðið og góð samskipti sl. þriggja til fjögurra ára. Hann segir marga hafa lagt hönd á plóg í gegnum árin, þess beri að minnast. Jafnframt þakkar hann fyrir vináttuna sem hann hefur öðlast í starfi sínu hérlendis og sendir kveðjur f.h. eiginkonu sinnar Fr. Zhou Saixin, sem er í Kína að vitja veiks föður síns.

Hann ræðir um menningarsamskipti Íslands og Kína og leggur áherslu á að vináttubönd þjóðanna styrkist með vináttu á meðal einstaklinga. Vinátta milli fólks sé mikilvægur hluti tvíhliða samskipta og framlag Kím á þessu sviði beri að virða og viðurkenna.

Hann rekur starfsferil Arnþórs innan Kím í stuttu máli og spyr hvort hann muni það rétt að hann hafi gengið í félagið aðeins 17 ára gamall og fyrst tekið við formennsku 1977, sem og formaður játar. Hann þakkar honum fyrir þriggja til fjögurra áratuga starf innan félagsins og nefnir merkan heiðurstitil sem formaður var sæmdur, vináttusendiherra kínversku þjóðarinnar á Íslandi. Jafnframt þakkar hann Elínu, eiginkonu Arnþórs, fyrir sinn stuðning í gegnum árin.

Sendiherrann segir Kína telja Ísland mikilvægan og góðan vin. Það séu stöðug samskipti á milli Íslands og Kína og pólitískt traust hafi dýpkað. Hann nefnir nýafstaðna ráðstefnuna Arctic Circle, sem Kína hefur tekið þátt í síðan 2013. Fríverslunarsamningur, aukinn viðskipti og aukin ferðamannastraumur Kínverja til Íslands hafi jákvæð áhrif á íslenskan efnahag. Íslendingar séu líka duglegir að heimsækja Kína eins og í farastórn Unnar Guðjónsdóttur.

Því næst segir hann frá því að á morgun hefjist 19. þjóðþing Kommúnistaflokks Kína og þar verði lögð drög að næstu fimm ára áætlun. Þar verða einhver aukin tækifæri til tvíhliða samskipta að finna.

Sendiherrann segir frá því að nú sé starfstímabili hans á Íslandi að ljúka og þetta sé síðasta samverustund hans á aðalfundi Kím. Hann segist vera blessaður að eiga svona marga vini úr ólíkum áttum samfélagsins og þakkar innilega fyrir stuðninginn og þá fjölmörgu daga er samstarfið spannaði. Þetta hafi verið ógleymanlegur tími. Á kínversku er til málsháttur sem segir að sannir vinir gangi í gegnum lífið saman. Þótt starfsdvöl hans á Íslandi ljúki senn muni vináttan endast að eilífu.

Að lokum óskar hann fundargestum öllum alls hins besta.

Ársreikningar Kím

Edda Kristjánsdóttir gjaldkeri segir frá stöðu fjármála Kím eftir almanaksárið 2016 og greinir einnig frá núverandi fjárhagsstöðu Kím 2017.

Hún kynnir greidd félagsgjöld og ýmis útgjöld. Tekjur félagsins umfram gjöld á árinu hafi verið 63.616 krónur. Staða félagsins sem af er komið af árinu 2017 hefur aðeins vænkast.

Allir fundargestir samþykkja skýrslu og reikninga.

Lagabreytingar

Engar tillögur bárust og fellur því þessi liður niður.

Árgjöld

Óbreytt árgjöld: 3.000 kr almennt, og afslættir námsmanna og fjölskylduafsláttur haldast einnig óbreyttir; hálft félagsgjald fyrir námsmenn og 1,5 félagsgjald fyrir hjón.

Kosningar

Skipt er um fundarstjóra og tekur Magnús Björnsson við fundarstjórn.

Kjör stjórnar- og varastjórnar, meðstjórnenda og starfsnefndar Kím.
 
1)     Kjör formanns: Arnþór Helgason stingur upp á Guðrúnu Margréti Þrastardóttur sem nýjum formanni. Engin mótframbjóðandi og er því Guðrún kjörinn formaður Kím.
2)     Varaformaður: Kristján Jónsson er endurkjörinn varaformaður.
3)     Meðstjórnendur: Kjörin eru þau Edda Kristjánsdóttir, Gísli Jökull Gíslason og Guðrún Edda Pálsdóttir.
4)     Varastjórn: Þorgerður Anna Björnsdóttir, Kristján H. Kristjánsson og Hrafn Gunnlaugsson.
5)     Formaður starfsnefndar er kjörinn Gunnar Halldór Gunnarsson og varaformaður starfsnefndar Arnþór Helgason. Einnig voru tilnefnd Þorkell Ólafur Árnason, Brynhildur Magnúsdóttir, Ásgeir Beinteinsson, Gunnar Örvarsson, Katrín Ákadóttir og Hinrik Hólmfríðar – Ólason
6)     Skoðunarmenn reikninga eru kjörnir Magnús Björnsson og Hans Benjamínsson auk Vésteins Ólasonar til vara.

Önnur mál

Gunnar Halldór tekur til máls og segir það ekki létt en skemmtilegt verk að taka við formennsku starfsnefndar með Arnþór Helgason sem varaformann. Hann býður Arnþór velkominn og uppsker fyrir þessa yfirlýsingu hlátur fundargesta.

Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra og fyrrum formaður Kím, kveður sér hljóðs. Hann þakkar Arnþóri frábært starf öll þessi ár og segist mæla fyrir munn allra fundargesta með þessum þökkum og að treysta því að Arnþór haldi samvinnu innan félagsins áfram. Hann þakkar einnig Zhang Weidong fyrir mjög gott samstarf. því næst óskar hann Guðrúnu Margréti innilega til hamingju með nýja titilinn og segist vita að hún muni standa sig vel sem nýr formaður Kím.

Kveðja formanns

Arnþór óskar Guðrúnu Margréti aftur til hamingju. Hann segist feginn að sjá starfi Kím haldið áfram og lýsir yfir stuðningi við nýkjörinn formann. Hann þakkar henni fyrir allt það sem hún hafi kennt honum síðan hún gekk til liðs við félagið 2009 og segist ekki vera farinn úr Kím en leggur áherslu á að nýr formaður muni stjórna með sínum hætti. Hann kallar Guðrúnu til sín og færir henni gagnalykil með safni af gögnum Kím og faðmar hana að sér.

Ávarp nýs formanns

Guðrún Margrét Þrastardóttir
Guðrún Margrét Þrastardóttir

Guðrún þakkar Arnþóri mikið og óeigingjarnt starf og segir gott að fá hann í starfsnefndina sem nú muni blómstra. Hún þakkar Elínu og Arnþóri þá gestrisni sem þau hafa sýnt stjórnarmönnum Kím í gegnum árin og þá miklu og góðu samvinnu, sem þau Arnþór hafa átt, auk ferðalaga til Kína og fleira. Hún segir þau hafa lært margt hvert af öðru og að hún líti á hann sem sinn læriföður. Því næst segir hún sjálfboðastarf ekki sjálfgefið og þakkar innilega félögum Kím fyrir þeirra þátttöku. Að lokum þakkar hún sérstaklega sendiherranum, Zhang Weidong, fyrir gott samstarf og Konfúsíusarstofnun sem einnig hafi reynst mikilvægur samstarfsaðili.

Nýkjörinn formaður þakkar einnig fyrir stuðninginn til framboðs, ekki síst frá Arnþóri Helgasyni. Hún segir þetta ákveðinn áfanga í sögu Kím, þar sem nú taki í fyrsta sinn kona við titli formanns félagsins. Hún talar um kynjajafnrétti og mikilvægi þess að komið sé fram við konur af jafnri virðingu og karla. Þetta hafi þau Arnþór unnið í að bæta í samskiptum við sendinefndir frá Kína og hafi hann verið ötull að gera þeim ljóst að allir séu jafnir við fundarborðið.

Því næst segist hún spennt fyrir starfinu framundan og vill gjarnan heyra hvað félagsmenn Kím vilji sjá og gera á komandi starfsári. Tillögur séu velkomnar. Hún leggur áherslu á frið og segir framtíð í starfi Kím liggja á sviði barna- og unglingastarfs. Það sé mikilvægt að kynna börn þjóðanna og byggja upp vináttu sem stuðlar að friði.

Zhang Weidong, sendiherra, fær að grípa orðið og færir Guðrúnu hamingjuóskir. Hann segir Kím eiga sér bjarta framtíð undir hennar forystu og óskar henni alls hins besta auk þess að lofa henni áframhaldandi stuðningi sendiráðsins. Hann segist munu sakna vina sinna úr Kím og minnir á smæð heimsins í nútímanum og býður fólk velkomið í heimsókn til Beijing. Hann nefnir örlögin og segir frá prófi þar sem hann klikkaði á spurningu um nafn höfuðborgar Íslands. Eftir prófið hafi hann flett því upp og munað nafnið en aldrei órað fyrir því að hann myndi seinna gegna stöðu sendiherra á Íslandi. Tími hans á Íslandi hafi verið honum mikilvægur og samstarf okkar muni halda áfram á ýmsum sviðum, svo sem í viðskiptum. Hann nefnir einnig ritun samskiptasögu Íslands og Kína sem nú er í undirbúningi og segist hlakka til að verða fyrstur til að lesa fyrstu kaflana.

Zhang Weidong óskaði Guðrúnu til hamingju
Zhang Weidong óskaði Guðrúnu til hamingju

Söngur og fyrirlestur

Því næst er fundi slitið og við tekur tónlistaratriði, óvæntur glaðningur til fráfarandi formanns. Margrét Bóasdóttir kórstjóri og nokkrar úr Kvennakór Háskóla Íslands flytja lagið Austrið er rautt við góðar undirtektir gesta.

Nokkrar úr Kvennakór Háskóla Íslands flytja lagið Austrið.
Nokkrar úr Kvennakór Háskóla Íslands flytja lagið Austrið.

Að því loknu er matur borinn á borð og Hinrik Hólmfríðarson- Ólason segir frá í máli og myndum þátttöku sinni í kínversku ræðukeppninni Chinese Bridge, sem haldin er árlega í Kína. Fundargestir njóta borðhaldsins og ræða saman.

Hinrik Hólmfríðarson- Ólason.
Hinrik Hólmfríðarson- Ólason.

Aðalfundur 2017Aðalfundur 2017Aðalfundur 2017Aðalfundur 2017Aðalfundur 2017

Viðhengi –Attachment
PDF Logo

 

Aðalfundur Kím 2017

Remarks by Ambassador Zhang Weidong

 

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *