Þjóðlagasveitin Þula, sem skipuð er ungmennum á aldrinum 15-18 ára, tók þátt í listahátíð barna og ungmenna sem haldin var í borginni Tianjin í Kína dagana 27. – 31. júlí í sumar.
Í þjóðlagasveitinni voru 8 ungmenni og með hópnum voru stjórnandi hópsins, Eydís Franzdóttir, meðstjórnandi Pamela de Sensi Kristbjargardóttir og Edda Kristjánsdóttir, fulltrúi frá Kínversk- íslenska menningarfélaginu.
Hópurinn kom til Tianjin um miðjan dag 26. júlí. Þann sama dag fór fram stuttur viðburður þar sem fáni Íslands var reistur að húni á hátíðarsvæðinu.
Daginn eftir hófst síðan dagskrá og kom hópurinn fram þann dag með um 20 mínútna prógramm. Tókst það vel en mikið var af börnum og unglingum á svæðinu og því mikið fjör.
Sama kvöld var haldin opnunarhátíð með flugeldum og sýningum undir beru lofti. Hópurinn kom þá fram aftur á útisviði með styttra prógramm.
Alls kom hópurinn fram fimm sinnum, tvisvar með um 20 mín. prógramm og þrisvar með styttra prógramm.
Var mikið fjör á svæðinu, mikið tekið af myndum með hinum ýmsu hópum og krakkarnir skiptust á gjöfum.
Farið var í skoðunarferðir, á myndlistasafn, náttúrugripasafn og síðan á svæði sem kallast á ensku „Ancient Culture Street“ en það er svæði sem gert hefur verið upp í gömlum stíl og á að sýna kínverska verslunargötu eins og þær voru fyrir nokkrum hundruðum ára síðan.
Hátíðinni lauk 31. júlí. Þátttakendur voru nokkur hundruð talsins og komu frá um 40 löndum og svæðum innan Kína.
Má segja að glæsilega og rausnarlega hafi verið staðið að þessari listahátíð af hálfu skipuleggjenda. Hópurinn dvaldi á góðu hóteli og allt var frítt fyrir hópinn eftir að tekið var á móti okkur á flugvellinum í Beijing þ. 26. júlí og þar til okkur var skilað heim að hóteldyrum í Beijing þann 1. ágúst.
Hópurinn dvaldi í Beijing í 6 daga. Var farið í Forboðnu borgina, Bei Hai garðinn, verslunargötur, perlu- og silkimarkaði og mikið og margt fleira.
Og að sjálfsögðu var farið á Kínamúrinn.
Boð var haldið í íslenska sendiráðinu í Beijing föstudaginn 3. ágúst þar sem Þula flutti um 20 mín. prógramm.
Haldið var heim á leið þ. 7. ágúst og lent í Keflavík síðdegis eftir vel heppnaða ferð.