Allur heimurinn í Kína
Þorgerður Anna Björnsdóttir
kínverskukennari við Konfúsíusarstofnun
Síðan í æsku hef ég haft mikinn áhuga á tungumálum og menningu heimsins. Veturinn 2009-2010 gafst mér tækifæri að fara til Kína sem skiptinemi frá Háskóla Íslands. Ég fór til gömlu menningarborgarinnar Nanjing í Jiangsu-héraði, þar sem mikill fjöldi skiptinema stundaði nám við Nanjing háskóla. Við vorum þarna saman komin ungt námsfólk frá öllum hinum byggðu álfum heimsins og ég eignaðist fljótt góða vini frá Indlandi, Chile, Kólumbíu, Eistlandi, Úsbekistan, Spáni, Þýskalandi, Póllandi, Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum, Kanada, Suður-Afríku, Japan, Kóreu og Kína. Við æfðum okkur að handskrifa kínversk tákn, lærðum að prútta á mörkuðum og notuðum öll tækifæri til að ferðast saman um Kína í leit að ævintýrum.
Á þjóðhátíðardegi Kínverja, 1. október, er vikufrí í skólum. Við fórum nokkur saman til Sichuan-héraðs sem þekktast er fyrir ljúffenga og bragðsterka matargerð og pandabirnina sem þrífast í bambusskógum fjallanna. Þar lærðum við að segja setninguna: „Bu yao la!“ (Vil ekki sterkt!). Í rútu á leið frá Emei-fjalli sat ég við hliðina á Kínverja sem kominn var yfir áttrætt og við ræddum saman af bestu getu, þrátt fyrir takmarkaða kínversku- og enskukunnáttu. Þetta var vel menntaður maður sem sagði mér að hann væri enn að vinna. Þegar ég undraðist hvers vegna, brosti hann og nuddaði saman fingrunum, hann væri enn að þéna og við góða heilsu. Hann gladdist við að heyra að ég væri við nám í Nanjing-háskóla og sagði að þá værum við skólasystkini, þar sem hann hafði útskrifast frá sama háskóla.
Í Guilin kynntist ég öðrum kínverskum vini sem kenndi mér og Davíð kærastanum mínum að spila lagstúf á lítið „matouqin“, sem hann hafði sjálfur smíðað, en það er mongólskt strengjahljóðfæri. Hann sendi mér seinna bréf í háskólann og sagðist vera búinn að smíða eitt slíkt handa mér en því miður var ég þá komin heim til Íslands.
Eftir því sem kínverskukunnáttan jókst urðu samskipti við heimamenn auðveldari. Langar lestarferðir urðu vettvangur til að bæta kínverskuna, þar sem Kínverjar byrjuðu oft samtölin með því að spyrja forvitnislega hvaðan ég væri. „Bingdao“ svaraði ég, og jók það enn á forvitnina, þar sem nafnið þýðir bókstaflega „íseyjan”. Einnig er eftirminnileg heimsókn í bekk kínverskra nema sem voru að læra íslensku við Beijing háskóla erlendra tungumála og stóðu sig ótrúlega vel.
Í Kína kynntist ég ekki aðeins kínverskri menningu, því þar búa margir frá öðrum Asíulöndum og fékk ég því tækifæri að kynnast m.a. matarmenningu Kóreu, Japan og Víetnam. Ferðalög um Kína og Asíu eru líka kennslustund í mannkynssögu og sögu nýlendustefnunnar sem víða hefur skilið eftir sig pólitíska spennu. Í Shanghai eru falleg gömul hús í evrópskum stíl frá því að Evrópubúar réðu þar svæðum við sína inn- og útflutningsverslun. Í Hong Kong borðaði ég á einum af fjölmörgu indversku veitingastöðunum, arfleifð frá því að Indland og Hong Kong voru breskar nýlendur. Og í Víetnam sá ég baguette og franskan byggingarstíl á hverju horni.
Um vorið heimsóttum við háskólanemarnir heimssýninguna sem haldin var í Shanghai. Hátt í 200 þjóðir áttu sýningarskála í þessu heimsþorpi, þar á meðal Ísland. Í byrjun sumars, skömmu áður en námsdvölinni lauk, var haldin tungumálahátíð í skólanum, þar sem við skiptinemarnir kenndum svolítið í okkar tungumálum og sögðum frá heimalöndum okkar. Þessi stóri og fjölþjóðlegi hópur myndaði einskonar þverskurð af heiminum og það gleður mig ólýsanlega að hafa verið hluti hans. Ég eignaðist þar góða vini sem ég hef heimsótt og margir hafa líka heimsótt mig til Íslands. Eftir námsárið í Kína fannst mér ég hafa kynnst svo ótal mörgu. Ekki aðeins þessu stóra og fjölmenna landi, sem býr yfir svo fjölþættri menningu, heldur fannst mér ég hafa kynnst heiminum betur.