Aðalfundur KÍM 01. nóvember 2023 á veitingastaðnum Tian
70. starfsár Kínversk-Íslenska menningarfélagsins.
Fundarstjóri: G. Jökull Gíslason og Kristján Jónsson í kosningahluta fundarins
Fundur settur kl.18:15 og fundargestir 21 talsins.
Formaður KÍM, Kristján Jónsson, tekur til máls, setur fundinn og býður gesti velkomna.
1. Skýrsla formanns.
Formaður fór yfir starfsemi síðasta árs, og greindi frá því að fyrri formaður KÍM, Þorkell Ólafur Árnason, hefði sagt sig frá störfum vegna slæmrar heilsu og varaformaður þá tekið við. Kristján minnti á að þetta er 70. starfsár KÍM en það var stofnað árið 1953 og að félagið sé elsta starfandi menningarfélagið með tengsl við Kína.
- Stærsti liðurinn í starfi félagsins var fyrirlestraröðin Snarl og spjall um Kína í umsjá Þorgerðar Önnu Björnsdóttur og Kristjáns H. Kristjánssonar í samvinnu við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós. Haldnir voru mánaðarlegir fyrirlestrar um fjölbreytt málefni og var vel sótt.
- KÍM tók þátt í kínverskri nýárshátíð Konfúsíusarstofnunar sem haldin var í Háskóla Íslands þann 4. febrúar 2023.
- Síðasti viðburður KÍM fyrir sumarið var te-athöfn úti í náttúrunni við skátaskálann að Lækjarbotnum. Eins og í fyrra var þetta gert í samstarfi við Qing í Heilsudrekanum.
- Þann 22. október var haldinn afmælisviðburður af tilefni 70. starfsárs KÍM með listasýningu Sigurðar Guðmundssonar í Mengi.
Kristján tilkynnti svo að hann ætlaði að draga sig í hlé frá starfi KÍM en Kristján hefur verið stjórnarmeðlimur síðan 1974.
Við þökkum Kristjáni innilega fyrir framlag sitt til vináttu þjóðanna.
2. Ársreikningar KÍM 2022.
Edda Kristjánsdóttir gjaldkeri kynnti síðan stöðu KÍM og fór yfir útgjöld og tekjur. Félagið er menningarfélag en á nú 559.391 kr. í sínum sjóðum.
Árgjald mun vera óbreytt, 3.500 kr. en 2.500 kr. fyrir námsmenn, ellilífeyrisþega og öryrkja.
Fundarstjóri lagði skýrslu formanns og reikninga gjaldkera fram til samþykkis fundargesta. Var það samþykkt.
3. Kosning stjórnar og endurskoðanda.
Formaður og varaformaður eru kosnir beint, síðan 3 stjórnarmenn og 3 í varastjórn. Engin mótframboð komu og er stjórnin svo skipuð:
Arnar Steinn Þorsteinsson – formaður
Jökull Gíslason – varaformaður
Stjórn: Edda Kristjánsdóttir – Guðrún Edda Pálsdóttir – Ársæll Harðarson
Varastjórn: Hrafn Gunnlaugsson – Kristján H. Kristjánsson – Þorgerður Anna Björnsdóttir
Endurskoðendur reikninga: Magnús Björnsson og Smári Baldursson. Varamaður: Hans Benjamínsson.
Fundinum var þá formlega lokið.
Þorgerður Anna Björnsdóttir flutti erindi um Steinunni Jóhannesdóttur Hayes, sem fyrst íslenskra kvenna lauk læknisprófi. Steinunn hélt til Kína 1902 og starfaði þar sem trúboðslæknir í um 40 ár.
Tveir fulltrúar komu frá kínverska sendiráðinu, frú Yang Wen og herra Su Wenlu.
Yang Wen ávarpaði fundargesti og sagði áhugavert að heyra um Steinunni trúboðslækni og að það sýndi hve langt aftur vinátta á milli þjóðanna teygði sig. Komu þau færandi hendi með rauðvín frá Ningxia-héraði sem haft var með matnum.
Matur var borinn á borð með fjölda sígildra kínverskra rétta.
Ljósmynd náðist af fimm formönnum KÍM; Arnari Steini nýkjörnum, Arnþóri Helgasyni, Kristjáni Jónssyni, Guðrúnu Margréti Þrastardóttur og Ragnari Baldurssyni.