Austurförin yfir Kínverskubrúna
Ísadóra Ísfeld Finnsdóttir og Rósa Birgitta Ísfeld
Mæðgurnar Ísadóra Ísfeld Finnsdóttir og Rósa Birgitta Ísfeld héldu í sína fyrstu Kínareisu nú í október. Ísadóra er nemandi í 10. bekk Laugalækjarskóla og er margt til lista lagt. Hún hefur m.a. lært kínversku frá unga aldri og fór til Tianjin sem fulltrúi Íslands í alþjóðlegu ræðu- og hæfileikakeppnina Kínverskubrúna, sem haldin er árlega í Kína. Þar flutti Ísadóra ræðu og söng á kínversku auk þess að leika á trompet í sýningaratriði sínu. Mæðgurnar munu deila upplifunum sínum af ferðalaginu og þessu fjölmenna ungmennamóti, þar sem keppendur frá öllum heimshornum sýndu listir sínar.
Viðburðurinn er hluti af fyrirlestraröðinni Snarl og spjall um Kína sem Kínversk-íslenska menningarfélagið stendur að í samvinnu við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós, sem býður einnig upp á ókeypis veitingar. Hann verður haldinn þriðjudaginn 12. nóvember 2024 kl.17:30 í stofu VHV-007, kjallara Veraldar, húsi Vigdísar, að Brynjólfsgötu 1, Reykjavík. Næg frí bílastæði eru við bygginguna.
Áður en fyrirlesturinn hefst verður boðið upp á veitingar og geta gestir spjallað saman og notið þeirra en síðan tekur fyrirlesturinn við sem áætlað er að taki um 30- 45 mínútur. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.