Adalfundur 2025

Aðalfundur Kím 2025

Aðalfundur KÍM 23. október 2025
– á veitingastaðnum Tian við Grensásveg

Adalfundur 2025
72. starfsár Kínversk-Íslenska menningarfélagsins.
Fundarstjóri: G. Jökull Gíslason
Fundarritari: Þorgerður Anna Björnsdóttir
Fundur settur kl.18:15 og fundargestir 23 talsins.

Gísli Jökull Gíslason býður sig fram til fundarstjóra og setur fundinn. Hann leggur til að Magnús Björnsson taki við fundarstjórn í kosningahluta fundarins og tilnefnir Þorgerði Önnu Björnsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt.
Fundarstjóri gefur Arnari Steini Þorsteinssyni, fráfarandi formanni KÍM, orðið sem býður gesti hjartanlega velkomna á fundinn.

Skýrsla formanns
Formaður þakkar fyrir samstarfið á liðnu starfsári og greinir frá helstu þáttum þess utan hefðbundinna stjórnarfunda.

● Sendinefnd frá Shanxi-héraði kom til landsins í janúar og fundaði með formanni KÍM ásamt Ársæli Harðarsyni, meðstjórnanda. Málefni tengd ferðaþjónustu voru aðalefni fundarins sem fram fór að mestu á kínversku, enda Arnar Steinn kínverskumælandi, en Ársæll var engu að síður góður liðsauki á fundinn.

● Þann 6. febrúar var haldinn árlegur nýárskvöldverður með Íslensk-kínverska viðskiptaráðinu til að fagna kínversku ári snáksins, sem þá var gengið í garð. Kvöldverðurinn var haldinn á Center Hótel Plaza, Aðalstræti 4. Sendiherra Kína á Íslandi, He Rulong, ávarpaði gesti ásamt Sveini K. Einarssyni deildarstjóra hjá utanríkisráðuneytinu sem sagði frá fjölbreyttri reynslu sinni í Kína. Jakob Frímann hélt uppi stuði með söng og undirleik.

● Þar sem nýárshátíð Konfúsíusarstofnunar í Háskóla Íslands var með smærra sniði en oft áður tók KÍM ekki þátt á henni í þetta sinn.

● Kínversk sendinefnd frá Sichuan átti fund með varaformanni og meðstjórnendum KÍM í september. Undirritað var minnisblað með viljayfirlýsingu (MOU) til samstarfs á sviði menningarsamskipta á milli Sichuan-héraðs og KÍM.

● Fyrirlestraröðin Snarl og spjall um Kína hófst á ný í nóvember þegar mæðgurnar Ísadóra Ísfeld Finnsdóttir og Rósa Ísfeld sögðu frá þátttöku Ísadóru á alþjóðlegu móti Kínverskubrúarinnar í Tianjin, í október 2024. Fleiri spennandi fyrirlestrar voru svo haldnir næstum mánaðarlega fram á vor. Fyrirlestraröðin er samstarfsverkefni KÍM og Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa og er vettvangur til þess að spjalla um málefni tengd Kína.

Ársreikningar KÍM
Eddu Kristjánsdóttur, gjaldkera, er boðið að taka næst til máls og í leiðinni spurð að því hve lengi hún hafi gegnt stöðu gjaldkera félagsins. Hún segir það vera a.m.k. 20 ár og hlýtur lófatak fundargesta fyrir. Edda kynnir fjárhagsstöðu félagsins eftir almanaksárið 2024 og gerir grein fyrir helstu útgjöldum og tekjum þess. Félagið átti við ársuppgjör 599.244 kr. í sínum sjóðum. Reikningar voru endurskoðaðir án athugasemda. Árgjald mun vera óbreytt, 3.500 kr., eitt og hálft gjald fyrir sambýlisfólk/hjón, en 2.500 kr. fyrir námsmenn.

Lagabreytingar
Ársæll Harðarson, meðstjórnandi, greinir frá fyrirhuguðum lagabreytingum á næsta aðalfundi en nefnd skipuð honum, Ólafi Egilssyni fyrrum sendiherra og Kristjáni H.Kristjánssyni, úr varastjórn KÍM, tók að sér að endurskoða lög félagsins. Lögunum var síðast breytt árið 2013 og telja þeir að skerpa mætti á nokkrum atriðum til aukins skýrleika, svo sem um boðun aðalfundar, stjórnarkjör og jafnframt mætti hagræða tímamörkum lagabreytinga.

Kosningar
Magnús Björnsson tekur tímabundið við fundarstjórn. Kjör stjórnar-, meðstjórnenda og varastjórnar KÍM:
1) Kjör formanns: Arnar Steinn Þorsteinsson gefur ekki kost á sér áfram til formennsku en varaformaður félagsins, Gísli Jökull Gíslason, býður sig fram og er hann kjörinn formaður KÍM.
2) Varaformaður: Ársæll Harðarson býður sig fram og er kjörinn varaformaður.
3) Meðstjórnendur: kjörin eru þau Edda Kristjánsdóttir, Guðrún Edda Pálsdóttir og Kristján H. Kristjánsson.
4) Varastjórn: kjörin eru þau Hrafn Gunnlaugsson, Þorgerður Anna Björnsdóttir og Jósteinn Kristjánsson.
5) Skoðunarmenn reikninga eru sem áður Magnús Björnsson og Smári Baldursson auk Hans Benjamínssonar til vara.

Önnur mál
Jökull, nýkjörinn formaður KÍM, tekur til máls og greinir frá áhuga sínum og væntumþykju í garð félagsins. Hann segir frá því að Kína standi honum nærri, því hann eigi dóttur ættleidda frá Kína og hafi fjölskyldan alltaf haldið Kína og kínverskri
menningu á lofti innan heimilisins. Jökull kom fyrst til Kína árið 2007 en Kína hefur mikið breyst frá þeim árum og segja má að drekinn sé vaknaður og kominn á fætur.Tveir fulltrúar kínverska sendiráðsins komu á fundinn, þær Jing Yang og Xu Lu. Þær þökkuðu fyrir boðið og sögðust hafa verið á Íslandi í eitt ár. Þær voru ánægðar með hringborðin sem fær þær til að hugsa heim. Einnig nefndu þær nýafstaðna heimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, til Kína sem þær telja að hafi verið mjög árángursrík. Þær buðu svo gestum að koma á viðburð kínverska sendiráðsins næsta dag í tilefni af Kvennafrídeginum.  Að lokum færðu þær viðstöddum að gjöf kínverskt vín frá Ningxia-héraði.

Ekki voru fleiri mál lögð fram og sleit því formaður fundi. Arnar Steinn tók næstur til máls, sýndi myndir og sagði frá vel heppnaðri ferð sinni sem fararstjóra Nonna Travel með hópi Íslendinga til Kína. Í Kína er svo margt að sjá að dagskráin var ansi þétt en erfitt væri að sleppa nokkru í slíkri ævintýraferð. Arnar Steinn lýsti mikilli ánægju með hraðlestirnar sem rutt hafa sér til rúms í Kína og þykja góður fararkostur.

Matur var borinn fram og gestir nutu úrvals kínverskra rétta og kínversks tes. Líkt og árið áður ákvað stjórn KÍM að bjóða gestum aðalfundar betri kjör með því að láta félagið niðurgreiða kvöldverðinn að hluta og verð á mann því 3.500 kr. í stað 5.500 kr.

Adalfundur 2025
Adalfundur 2025

Adalfundur 2025

Adalfundur 2025

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *