Aðalfundur Kím 22.10.2019

Aðalfundur KÍM 22. október 2019
– á veitingastaðnum Jia Yao í Ármúla 5

66. starfsár Kínversk-íslenska menningarfélagsins.

Fundarstjóri: Kristján Jónsson
Fundarritari: Þorgerður Anna Björnsdóttir
Fundur settur kl.18:10 og fundargestir 24 talsins (Jin sendiherra og Sun Chi aðstoðarkona hans komu í lok fundar).

Formaður KÍM, Þorkell Ó. Árnason, biður G. Jökul Gíslason meðstjórnanda að tala fyrir sína hönd, þar sem hann er raddlítill eftir veikindi.

Jökull mælir með Kristjáni Jónssyni sem fundarstjóra og Þorgerði Önnu Björnsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt.

Jökull Gíslason, meðstjórnandi, gerir ársskýrslu KÍM skil:

Hlutverk félagsins
Jökull lýsir hvernig þátttaka almennings á heimsvísu í félögum og t.d. kosningum hefur minnkað og raunar gjörbreyst síðustu ár og áratugi. Hlutverk KÍM hafi sömuleiðis breyst frá því að vera mjög pólitískt, og beitt sér fyrir upptöku stjórnmálasambands við Kína, yfir í það að einbeita sér að menningarstarfi og vináttutengslum þjóðanna.

Starfsár einkenndist af 70 ára afmæli Alþýðulýðveldis Kína
Félagsmönnum KÍM var á árinu boðið á fjölda viðburða, m.a. stórfenglega nýárssýningu sem kínverska sendiráðið hélt í Gamla bíó. Viðburðir ársins voru eftirtaldir.

Heimsókn formanns til Vináttusamtakanna
Þann 12. nóvember hélt Þorkell, formaður KÍM, til Beijing og fundaði þar með sendiherra Íslands, Gunnari Snorra Gunnarssyni. Þar að auki heimsótti hann höfuðstöðvar Vináttusamtakanna (CPAFFC) og átti fund með Song Jingwu, varaformanni CPAFFC.    

Nýárshátíð sendiráðsins 25. janúar
Hátíðin var haldin í Gamla bíó og tók KÍM þátt í að bjóða yfir 60 listamönnum til landsins. Þar var e.t.v. hápunkturinn í margra augum þegar tónlistarmenn frá Innri-Mongólíu fluttu íslenska lagið Maístjörnuna, á sinn einstaka hátt.

Nýársgleði KÍM og ÍKV
Þann 5. febrúar héldu KÍM og Íslensk-kínverska viðskiptaráðið saman sinn árlega kvöldverð til að halda upp á kínverska nýárið. Var því fagnað á veitingastaðnum Shanghai í Hafnarfirði. Þar var Guðrún Margrét Þrastardóttir gerð að heiðursmeðlimi KÍM, fyrir góð störf í þágu félagsins.

Formanni fæðist dóttir
Þann 31.mars má nefna hápunkt í vináttusambandi Íslands og Kína hjá Þorkeli formanni, en þann dag fæddist þeim Yabei Hu dóttirin Andrea Yangqi Þorkelsdóttir.

Sendinefnd frá CPAFFC
Þann 4. apríl tók KÍM á móti sendinefnd frá Vináttusamtökunum, en þau voru hluti af CIFCA (China International Friendship Cities Association). Móttakan var haldin heima hjá Kristjáni Jónssyni, varaformanni, og buðu hann og Helga Hauksdóttir kona hans upp á veitingar.

Wang Ronghua í heimsókn
Fyrrum sendiherra Kína á Íslandi, Wang Ronghua, heimsótti landið og óskaði eftir því að hitta stjórn KÍM. Boðið var til móttöku heima hjá Hrafni Gunnlaugssyni lau. 15. júní, og auk stjórnarmeðlima komu Arnþór Helgason, vináttusendiherra og Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra Íslands í Kína og samtíða kollegi Wang Ronghua. Wang hafði áhuga á því að kynna sér hvernig borg fær vottun sem bókmenntaborg Unesco, líkt og Reykjavík, og hvað Kína getur lært af því.

Sendinefnd og ljósmyndasýning í Ráðhúsi Reykjavíkur
Þann 4. apríl tók KÍM á móti sendinefnd frá Vináttusamtökunum, en þau voru hluti af CIFCA (China International Friendship Cities Association). Móttakan var haldin heima hjá Kristjáni Jónssyni, varaformanni, og buðu hann og Helga Hauksdóttir kona hans upp á veitingar.

Sendinefnd CIPHL
Þann 23. Sept bauð KÍM og tók á móti sendinefnd frá Central Institute of Party History and Literature of the Communist Party of China (CIPHL). Sendinefndin var á ferð um Norðurlöndin þar sem fundað var með Think tanks. Þau funduðu með hluta af stjórn KÍM, Þorkeli, Þorgerði Önnu, Kristjáni H. og Jökli. Óskað var eftir áliti Íslendinga á Kínverjum og voru umræður fundarins mjög opnar og lifandi, þar sem skoðaðar voru margar hliðar málsins.  

70 ára afmæli Kínverska alþýðulýðveldisins
1. október fagnaði Alþýðulýðveldi Kína 70 árum frá stofnun þess. Á þeim tímamótum var prentað aukablað með Morgunblaðinu þar sem voru fjölmargar greinar um Kína og átti KÍM þar allnokkra greinarhöfunda.
– Arnþór Helgason, vináttusendiherra og fyrrum formaður KÍM um langt skeið
– Guðrún Margrét Þrastardóttir, fyrrum formaður KÍM, sem starfaði í íslenska sendiráðinu í Kína
– Þorkell Ólafur Árnason, formaður KÍM
– Gísli Jökull Gíslason, í stjórn KÍM
– Þorgerður Anna Björnsdóttir, í varastjórn KÍM

Ljósmyndasendinefnd CPA
Þann 11. okt kom til landsins sendinefnd frá China Photographer’s Association og hélt ljósmyndasýningu í Kringlunni í samvinnu við Ljósmyndarafélag Íslands. Sendinefndinni var boðið heim til Hrafns Gunnlaugssonar í skoðunarferð um heimili hans og nærliggjandi hof tileinkað ásnum Frey. Þar voru teknar fjölmargar myndir og skiptust sendinefndin og KÍM á litlum gjöfum, en KÍM færði þeim bækur frá Blaðaljósmyndarafélagi Íslands, auk þess sem Hrafn færði þeim kvikmynd sína Hrafninn flýgur að gjöf.

Snarl og spjall um Kína
Fyrirlestraröð KÍM í samstarfi við Konfúsíusarstofnun hélt áfram á þessu starfsári. Fyrirlestrarnir eru haldnir mánaðarlega í Veröld, húsi Vigdísar, við HÍ, en hlé var gert yfir sumarið. Síðastliðið starfsár voru haldnir níu fyrirlestrar um fjölbreytt efni tengd Kína, s.s. um upplifun af kungfu-skóla í Kína, kínverskt te, þjónustu við kínverska ferðamenn og viðskipti landanna. Fyrirlestrarnir hafa verið vel sóttir, oft með um 30-40 manns, og einnig hefur tekist að skapa vettvang til umræðna, bæði fyrir og eftir fyrirlestrana.  

Þegar Jökull hefur lokið máli sínu, gefur fundarstjóri orðið laust.
Arnþór Helgason, vináttusendiherra, kveður sér hljóðs og talar aðeins um Wang Ronghua og heimsókn hans um sumarið. Hann segir Wang hafa tekið við embætti sendherra á erfiðum tíma, en hann hafi lagt sig mikið fram um að auka samskipti landanna. Hann hafi haft mikinn áhuga á því hvað Kínverjar geti lært af Íslandi og íslenskum stofnunum og hann sé enn mikill áhugamaður um íslensk málefni. Hann segir Wang hafa fundist heimsóknin hjá Hrafni í sumar góð, sérstaklega viðkoman í hofi Freys.

Ársreikningar Kím
Edda Kristjánsdóttir gjaldkeri leggur fram reikninga KÍM eftir almanaksárið 2018 og greinir einnig frá núverandi fjárhagsstöðu KÍM 2019.

Hún kynnir greidd félagsgjöld, en þetta var metfjöldi greiddra félagsgjalda síðustu árin. Hún greinir einnig frá útgjöldum, en þar vegur þyngst kostnaður vegna ferðar þjóðlagahljómsveitarinnar Þulu á listahátíð ungmenna í Tianjin. Tekjur félagsins umfram gjöld á árinu voru 39.973 krónur. Við árslok átti félagið 240.422 krónur í sjóði. Reikningar félagsins voru skoðaðir af skoðunarmönnum án athugasemda.

Skýrsla formanns og reikningar gjaldkera eru samþykkt af fundargestum.

Lagabreytingar
Engar tillögur bárust og fellur því þessi liður niður.

Árgjöld
Fundarstjóri biður gjaldkera að staðfesta árgjald félagsins og afslætti, og segir Edda það vera 3.500 kr. Afslættir námsmanna og fjölskylduafsláttur eru hálft félagsgjald fyrir námsmenn og 1,5 félagsgjald fyrir hjón. Fundarstjóri leggur til að árgjald og afslættir haldist óbreytt og er það samþykkt.

Kosningar
Endurkjörið er í allar stöður KÍM og einnig gengur nýr félagi, Arnar Steinn Þorsteinsson, til liðs við starfsnefndina.

Formaður: Þorkell Ólafur Árnason
Varaformaður: Kristján Jónsson
Meðstjórnendur: Guðrún Edda Pálsdóttir, Gísli Jökull Gíslason og Edda Kristjánsdóttir.
Varastjórn: Hrafn Gunnlaugsson, Kristján H. Kristjánsson og  Þorgerður Anna Björnsdóttir

Starfsnefnd skipa Brynhildur Magnúsdóttir formaður og Arnar Steinn Þorsteinsson.  

Skoðunarmenn reikninga eru sem áður Magnús Björnsson og Hans Benjamínsson auk Vésteins Ólasonar til vara (ath staðfesta).

Önnur mál
Arnþór Helgason segir frá umleitunum við Vináttusamtökin árið 2004, þegar sendinefnd KÍM hélt til Kína, m.a. til Jinan þar sem kynnt athyglisverð starfsemi sem fólst í menntun kínverskra hjúkrunarfræðinga til starfa á Vesturlöndum. KÍM kynnti þetta fyrir landlækni sem sýndi því þá takmarkaðan áhuga. Arnþór veltir fyrir sér, í ljósi mikils skort á hjúkrunarfræðingum hérlendis, hvort ekki megi athuga hvort starfsemin sé enn í gangi og hvort fá megi kínverska hjúkrunarfræðinga hingað til starfa, sem hafi e.t.v. þegar starfsreynslu frá Norðurlöndunum eða Evrópu. Það gæti greitt úr ýmsum hnökrum innan íslenska heilbrigðiskerfisins.

Hrafn Gunnlaugsson reifar hugmyndir um að fá kínverskan meistarakokk til að kenna Íslendingum að elda eða hugsanlega að fá kínverskan nuddkennara til landsins með námskeið.

Aðrir nefna að á höfuðborgarsvæðinu megi finna kínverska nuddara, bæði í Hamraborg og í Heilsudrekanum í Skeifunni, en Hrafn leggur áherslu á að fá spennandi kennara, sem sé vanur kennslu, til landsins. Það myndi líka vekja athygli á félaginu. Hann segir nudd ekki finnast í íslenskri menningu en sé stór og ómissandi partur af kínverskri menningu.

Fundarstjóri leggur til að málið verið sett til umfjöllunar hjá stjórn, til að skoða hvort finna megi réttan aðila í þetta.

Markús Guðmundsson leggur fram vangaveltu hvort kannski mætti heldur fá taiji-kennara, sem gæti verið gagnlegra almenningi og er þeirri tillögu einnig vel tekið.
 

Fundarstjóri slítur formlegum fundi og býður velkomna Signýju Gunnarsdóttur, silkibónda frá Snæfellsnesi, sem heldur erindi um silkiormarækt á Íslandi.

Erindi Signýjar silkibónda
Signý segist fyrst hafa fjallað um ræktun silkiorma hérlendis í BA-ritgerð sinni við Listaháskólann og síðan ákveðið að prófa það sjálf. Þetta hefur ekki verið gert áður á Íslandi (né í Skandinavíu svo vitað sé) og hefur hún nú fengist við þetta í eitt og hálft ár. Hún sýnir myndir af ferli silkiormsins frá eggi til púpu og svo fiðrildis og myndbönd af silkiormunum sem henni hefur tekist að rækta og nýta til silkiframleiðslu. Að lokum fjallar hún um nýtingu silkis og silkipróteina í ýmsum tilgangi, s.s. fyrir húðvörur og rannsóknir á nýtingu í líftækni s.s. til þess að 3D prenta einskonar millistykki í mannslíkamann, eins og æðar eða nef, sem svo líkaminn klæði eigin vefum að nokkrum tíma liðnum. Silki virðist þeim eiginleikum gætt að líkaminn hafni því ekki sem aðskotahlut auk þess sem það brotnar náttúrulega niður innan líkamans á nokkrum mánuðum.

Matur er borinn fram og gestir njóta úrvals kínverskra rétta, skála og spjalla saman. Þegar gestir hafa að mestu klárað máltíðina er sendiherra Kína, JIN Zhijian, boðið að taka til máls.

Ávarp sendiherra Alþýðulýðveldis Kína
Jin ávarpar fundargesti á íslensku, blaðalaust. Hann þakkar fyrir boðið og segir ánægjulegt að hitta félaga KÍM á ný, tíminn líði fljótt og hann man vel eftir fundi síðasta árs, þegar Þorkell var kjörinn formaður félagsins. Ýmislegt hefur gerst á árinu, m.a. vorhátíð með þátttöku forsetahjónanna og afmæli Alþýðulýðveldis Kína þann 1. okt. Hann lýsir ánægju með greinarnar sem bárust frá KÍM af því tilefni, að deila sögum af Kína, og segir framlag KÍM merkilegt og hann vilji nota tækifærið til að segja hversu þakklátur hann sé.

Undanfarið hafi kínverska sendiráðið gert ýmislegt til að þróa samskipti og er með hugmyndir til að efla þau áfram milli landanna. Aukin verðmæti í viðskiptum nemi nú 7 milljónum USD, það séu mikil vöruviðskipti og sífellt fleiri kínverskir ferðamenn komi til landsins. Mögulega nái fjöldi kínverskra ferðamanna yfir 100 þúsund á þessu ári, miðað við 12% aukningu undanfarna átta mánuði. Kínverska sendiráðið vinnur að beinu flugi á milli Íslands og Kína, og hann telji 80% möguleika á því að það takist að koma því á innan tíðar. Þetta sé því mikilvægur tímapunktur í samskiptum landanna. Hann óskar Þorkeli til hamingju með árið og segir kínverska sendiráðið reiðubúið að starfa áfram með KÍM.

Á þeim 70 árum sem liðin eru frá stofnun Alþýðulýðveldisins er Kína orðin ein af áhrifamestu þjóðum heims. 1949 voru örfáar þjóðir sem stofnuðu stjórmálasamband við Kína, en nú séu það 180 lönd sem eiga stjórnmálasambandi við það. Kína er orðið að næststærsta fjárhagslega styrktaraðila Sameinuðu þjóðanna og leggi jafnframt til mikinn fjölda friðargæsluliða. Kína er orðið virkara í alþjóðamálum en áður var og nú má segja að þátttaka Kínverja í mörgum málum sé ómissandi. “Við leggjum ríka áherslu á frið”, segir Jin, og segir engan áhuga á því að senda hermenn til Íslands, bara ferðamenn. Áhugi þeirra felist ekki í hernaðarlegum yfirráðum hér heldur samskiptum og vináttu á milli landanna. Hann segir forseta Kína, Xi Jinping, tala um verkefnið Belti og braut (B og B), og að hann hafi sjálfur notað hvert tækifæri til að ræða B og B við íslenska ráðamenn. Hann telur B og B geta veitt tækifæri til að efla hag almennings beggja landa, við uppbyggingu, í sambandi við loftslagsbreytingar og ýmis fleiri mál. Ef Ísland og Kína eru sammála um að stofna vettvang til að nýta B og B á grundvelli Fríverslunarsamningsins geti verið ýmis mikilvæg verkefni í framtíðinni. Við höfum notið ýmissa hagsmuna út frá Fríverslunarsamningnum og hver veit hvað hægt væri að þróa næstu 5-10 árin. Hann telur KÍM geta deilt hugmyndum um hugsanlega hagsmuni af B og B með íslenskum ráðamönnum. Hann segist trúa því að þegar tímabili hans sem sendiherra lýkur gætu samskiptin á milli landanna verið enn betri. Þið hafið eignast kínverska vini sem halda ræðu á íslensku. Sendiherrann segir þetta vera þriðja viðburðinn sem hann sæki í dag, og það hafi hvarflað að honum að tala bara ensku eins og annar kollegi hans, en hann telji e.t.v. best að opna fyrir spurningar ef fundargestir hafi einhverjar spurningar sem ræða megi.

Guðrún Margrét spyr fyrst og bendir á að það vanti upplýsingar um B og B á netinu, hvort ekki séu einhverjir punktar aðgengilegir?

Jin svarar að hann hafi fengið ábendingar um þetta og segist nýlega hafa skrifað grein þar sem hann fari yfir átta möguleg samstarfsverkefni sem B og B gæti nýst til, svo sem að beint flug geti hafist fyrr undir hatti B og B. Íslensk stjórnvöld hafa svarað á þann hátt að mörg samstarfsverkefni séu á milli Íslands og Kína, en verkefni B og B bíða skoðunar. Sendiherrann segist kannski geta unnið betur að þessu í framtíðinni.  

Önnur fyrirspurn varðar mögulega aukningu á inn- og útflutningi á milli landanna og álit sendiherrans á breyttum siglingarleiðum og möguleika Íslands til að setja á fót umskipunarhöfn fyrir norðursiglingar frá Kína. Sendiherrann svarar því að útreikningar bendi til að siglingar frá Qingdao til Rússlands og áfram til Amsterdam muni spara 40% af siglingartíma og 30% af kostnaði í framtíðinni. Með breyttu loftslagi verði hugsanlega hægt að sigla norðurleiðina til vesturlanda 9 mánuði á ári. Vandamálið okkar sé stærð á mörkuðum á Íslandi, sem er of lítil. Mörg kínversk fyrirtæki telja Amsterdam o.þ.h. heppilegri stað. Kínverska sendiráðið hefur unnið að því að auka áhuga á viðskiptum við Ísland. Hann hélt t.d. fyrirlestur í síðustu viku þar sem kom fram áhugi á að selja íslenskar vörur í netverslun í Kína, s.s. íslenskar húðvörur, íslenskt vatn o.fl. Það gæti orðið mesta aukning á sölu per land hjá Íslandi. Hann segist vona að ný siglingarleið verði möguleg eftir 5-10 ár. Ef skipin fara nýja siglingarleið er best að umskipa eftir norðurhluta leiðarinnar, í stað þess að fara á sérútbúnum skipum alla leið. Ísland gæti verið mögulegur kostur í sambandi við það.   

Að lokum þakkar hann fyrir sig og skálar við fundargesti.
Þorkell formaður og Kristján varaformaður og fundarstjóri, þakka sömuleiðis Jin og fundargestum fyrir komuna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *