Skýrsla stjórnar Kínversk-íslenska menningarfélagsins 2014-15
Flutt á aðalfundi félagsins á veitingastaðnum Tian
9. nóvember 2015
Stjórn Kínversk-íslenska menningarfélagsins var endurkjörin á aðalfundi 13. Október 2014. Kjörin voru Arnþór Helgason, Kristján Jónsson, Edda Kristjánsdóttir, Kristín Mjöll Jakobsdóttir og Guðrún Margrét Þrastardóttir. Í varastjórn voru kosin Gísli Jökull Gíslason, Hrafn Gunnlaugsson og Þorgerður Anna Björnsdóttir.
Haldnir voru 6 stjórnarfundir á árinu, ýmist á heimili formanns eða í Bókasafni Seltjarnarness. Eins konar aukafundur var haldinn á heimili varaformanns. Starfsnefnd var oftast nær boðuð á fundi stjórnar og varastjórnar. Formaður hennar var kosinn Smári Baldursson. Nokkuð var misjafnt hverjir sóttu fundi starfsnefndar.
Starf félagsins mótaðist mjög af því að sumarið 2014 var gerður samningur við menningardeild Vináttusamtaka kínversku þjóðarinnar við erlend ríki um þátttöku íslenskra ungmenna í listahátíð æskufólks í Tianjin árið 2015. Var Guðrún Margrét Þrastardóttir tengiliður vegna þessa verkefnis.
Stjórnin fól auk Guðrúnar, Smára Baldurssyni, Kristínu Mjöll Jakobsdóttur, Þorgerði Önnu Björnsdóttur, Gunnari Örvarssyni og Gísla Jökli Gíslasyni að annast framkvæmd málsins. Tölvupóstur var sendur í alla unglinga- og framhaldsskóla landsins og auglýst eftir þátttakendum. Þrjár umsóknir bárust, en ein þeirra var tekin aftur. Stóðu því eftir umsóknir frá Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði um að farið yrði með leikritið Unglinginn á hátíðina. Leikendur voru Arnór Björnsson og Óli Gunnar Gunnarsson auk leikstjórans, Ásmundar Gunnarssonar. Auk þess barst umsókn frá Trio Borealis, en það skipa þrjár stúlkur, Lilja Cardew, Laufey Lin og Júnía Lin Jónsdætur. Stjórnandi þeirra var Lin Wei… Fluttu þær tónlist fyrir píanó, selló og fiðlu – trio élé giaque no. 1 eftir Rachmaninoff og Primavera portena eftir Piazzolla. Daníel Smárason var fenginn til þess að kvikmynda ferð hópsins.
Sótt var um styrki til ýmissa fyrirtækja. Lyfjafyrirtækið Alvogen veitti félaginu 500.00 kr. Styrk til ferðarinnar og er sá stuðningur þakkaður.
Eftir nokkra athugun og bréfaskriftir var ákveðið að báðir hóparnir færu á hátíðina. Var boðið til mótttöku í kínverska sendiráðinu 6. Júní síðastliðinn þar sem þátttakendur fluttu atriði sín.
Hópurinn hélt utan 22. Júlí og kom aftur hingað til lands 10 dögum síðar. Er skemmst frá því að segja að framlag Íslendinga vakti mikla athygli. Trio Borealis þótti vera á heims mælikvarða vegna gæða tónlistarflutningsins og ungu Hafnfirðingarnir slógu hreinlega í gegn með einstæðum leik sínum. Má segja að þeir hafi komið, séð og sigrað. Fararstjórar hópsins voru þau Guðrún og Smári, en að öllum ólöstuðum báru þau hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd þessa máls.
Tianjin-nefndin starfaði mjög sjálfstætt og án afskipta stjórnarinnar. Er hún gott dæmi um það sem gerist innan félaga þegar áhugi er fyrir hendi og verðug verkefni, sem hægt er að takast á við.
Stjórn og varastjórn hafa rætt þetta mál fram og aftur. Niðurstaðan varð sú að settur var á stofn hópur sem skilaði tillögum um virkara starf í Kím þar sem félagsmenn gætu tekið til hendinni. Nefnd voru atriði eins og ljósmyndakvöld, matreiðslunámskeið, spila- og leikjanámskeið, þar sem kínversk spil og leikir verði á dagskrá, tónlistar- og ljóðakvöld, en Unnur Guðjónsdóttir hefur boðið fram húsnæði o.s.frv. Verður nánar hugað að þessu á næstunni.
Aðstoðarráðherra menningarmála í Kína, Ding Wei, kom hingað til lands í opinbera heimsókn ásamt fylgdarliði í október 2014. Óskaði hann eftir fundi með stjórn Kím 23. Þess mánaðar. Voru rædd almenn samskipti og hlutverk samtaka eins og KÍM.
Þrjár sendinefndi sóttu félagið heim á starfsárinu.
Dagana 5.-8. Desember var stödd hér á landi nefnd frá Samtökum ljósmyndara í Kína. Hafði hún óskað eftir fyrirgreiðslu félagsins vegna hingaðkomu sinnar. Heimsóknin var stytt um einn dag án vitundar Kím fyrr en á síðustu stigum og leiddi það til þess að ekkert varð úr fundi með íslenskum ljósmyndurum og nefndinni, eins og fyrirhugað var, þar sem nefndarmenn komu hingað síðdegis á föstudegi. Sá formaður Kím ástæðu til að kvarta undan þessu við menningarfulltrúa Kínverska sendiráðsins og benda á að sendinefndir sem hingað kæmu og óskuðu eftir fyrirgreiðslu félagsins þyrftu að sýna einhvern lit á menningarlegum áhuga. Tók fulltrúinn undir þessa skoðun og hófust í framhaldinu nokkrar bréfaskriftir milli formanns Kím og framkvæmdastjóra kínversku samtakanna. Niðurstaðan varð sú að Kím bauð til kvöldverðar á veitingastaðnum Tian föstudagskvöldið 5. Desember. Voru viðstaddir nokkrir fulltrúar stjórnar og starfsnefndar auk nokkurra ljósmyndara sem hafa getið sér góðan orðstír hér á landi og erlendis. Hafa nú verið tekin upp formleg samskipti á milli íslenskra og kínverskra ljósmyndara og bendir flest til að Íslendingar taki þátt í ljósmyndasýningum í Kína á næsta ári.
Dagana 1.-4. Febrúar dvaldi hér á landi nefnd frá Vináttusamtökum kínversku þjóðarinnar við erlend ríki undir forystu Zhang Ruoning, framkvæmdastjóra samtakanna. Hafði nefndin óskað eftir aðstoð félagsins við að skipuleggja fundi með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarstjórna,, Ástu R. Jóhannesdóttur, fyrrum forseta Alþingis, Bæjarstjórn Reykjanesbæjar auk skoðunarferða í Hellisheiðarvirkjun og Bláa lónið. Leiðsögumenn nefndarinnar voru þeir Smári Baldursson og Arnþór Helgason. Nefndarmenn voru á ferð um Norður-Evrópu til þess að ræða sameiginleg hagsmunamál sveitarstjórna og kynna sér um leið starfsemi nokkurra menningarfélaga.
Fundirnir voru einkar ánægjulegir, sérstaklega sá sem haldinn var í Reykjanesbæ. Bæjarstjórinn og aðstoðarmenn hans skýrðu umbúðalaust frá þeim vanda sem sveitarfélagið á við að stríða. Aðalerindið við Ástu R. Jóhannesdóttur var að bjóða henni til Kína sem fyrrum forseta Alþingis, en hún hafði ekki getað þegið boð samtakanna á meðan hún gegndi embættinu. Héldu þau hjónin til Kína í septembermánuði og áttu þar ánægjulega dvöl.
Nefndarmenn hittu stjórn og varastjórn Kím í boði á heimili Kristjáns Jónssonar, varaformanns og Helgu Hauksdóttur. Áður en gengið var til kvöldverðar var haldinn formlegur fundur þar sem rædd voru ýmis málefni sem snerta samstarf samtakanna, þar á meðal samskipti listamanna, ferðina til Gianjin o.fl.
Í framhaldi þessarar heimsóknar var Herði Áskelssyni, orgelleikara og kórstjóra boðið að halda tónleika í Xi‘an í haust, en boðið barst með of skömmum fyrirvara. Vonir standa til að Hörður geti farið til Kína til tónleikahalds við annað tækifæri.
Í annarri viku ágústmánaðar sótti síðan nefnd frá Huangpu-hverfi í Shanghai félagið heim, en hún var á ferð um Norður-Evrópu að kynna sér viðhald og varðveislu gamalla húsa. Var haldinn fundur í Árbæjarsafni mánudaginn 10. Ágúst með Magnúsi Skúlasyni, arkitekt og formanni húsfriðunarnefndar. Auk hans voru viðstaddir starfsmenn Árbæjarsafns. Spurðu nefndarmenn margs og voru mjög áhugasamir um hvað eina. Fyrr um morguninn höfðu þeir farið um miðborg Reykjavíkur og litið á markverðar byggingar. Höfðu þeir til hliðsjónar grein eftir Zhang Weidong, sendiherra, en leyfi hans fékkst fyrir því að senda þeim greinina sem hafði þá enn ekki birst á prenti.
Þeir Arnþór og Kristján H. Kristjánsson skipulögðu heimsóknina og voru nefndarmönnum innan handar.
Samskipti við Kínverska sendiráðið hafa verið mikil. Má nefna m.a. aðstoð við þýðingar blaðagreinar á íslensku. Efnt var til kvöldverðarfundar um þýðingar á milli íslensku og kínversku, en tilfinnanlegur skortur er á fólki af báðum þjóðum sem hefur það gott vald á málunum að það geti þýtt beint úr öðru á hitt. Torveldar það ýmis samskipti. Sem dæmi má nefna að örfáir eru færir um að þýða bókmenntaverk úr hvoru málinu og eru til að mynda flest bókmenntaverk þýdd úr öðru tungumáli. Að sögn einstaklinga sem til þekkja sér þess víða stað. Má þar nefna fornbókmenntirnar, en þar er ýmislegt sem þurft hefði nánari skoðunar við. Íslendingasögurnar voru þýddar úr dönsku og sænsku. Nú hefur enn verið hafist handa við að þýða Sjálfstætt fólk og er það þriðja þýðing verksins. Verkið er þýtt úr ensku, en að mati þess er þýðir, er ýmislegt vanþýtt í síðustu útgáfu.
Þá hefur kínverski sendiherrann, Zhang Weidong, lagt til að rituð verði samskiptasaga Íslands og Kína og verði hún tilbúin fyrir 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna árið 2021. Hefur stjórn Kím samþykkt að beita sér fyrir þessu verki hér á landi. Haft hefur verið samband við Sverri Jakobsson, prófessor og forstöðumann sagnfræðiskorar við Háskóla Íslands auk Guðna Th. Jóhannessonar, formanns Sögufélagsins, en félagið hefur nokkra reynslu af slíkri sagnaritun. Í fyrstu tillögum er gert ráð fyrir að Sögufélagið hafi umsjón með verkinu auk KÍM og verði einnig ÍKV boðin aðild að verkinu. Ritnefnd verði skipuð fulltrúum áður nefndra þriggja aðila.
Ljóst er að um verður að ræða viðamikið verk sem þarfnast samstarfs sagnfræðinga í báðum löndunum.
Heimildir eru um samskipti Íslendinga og Kínverja þegar á ofanverðri 18. Öld og einhver munu þau hafa verið á 19. Öldinni. Þegar um 1900 munu þau hafa farið vaxandi og eru nú orðin margþætt.
Föstudaginn 28. Ágúst var efnt til málstofu um lok seinni heimsstyrjaldarinnar í Kína Var hún haldin í sendiráði Kínverska alþýðulýðveldisins á Íslandi. Sendiherra Kína, Zhang Weidong, flutti aðalerindi málstofunnar. Auk hans tóku til máls fulltrúar KÍM, ÍKV, Konfúsíusarstofnunar og Félags Kínverja á Íslandi. Fulltrúi Kím í þessum hópi var Arnþór Helgason.
Þá flutti Gísli Jökull Gíslason afar greinargott yfirlit um gang mála í seinni heimsstyrjöldinni og sýnd var kínversk heimildarmynd, sem fjallaði um þá arfleifð sem styrjöldin skildi eftir sig.
Síðastliðið sumar baðst Gunnar Örvarsson undan umsjón með vefsíðu Kím, en hann hafði sinnt henni um nokkurra ára skeið. Gunnar sá m.a. um endurbyggingu síðunnar. Stjórn félagsins fór þess á leit við Kristján H. Kristjánsson að hann tæki við umsjón síðunnar og hófst hann þegar handa. Var síðan endurgerð og nær fullbúin um mánaðamótin september/október og hefur mælst afar vel fyrir. Síðan hafa verið gerðar úrbætur á henni svo að flestum eða öllum kröfum um aðgengi er nú fullnægt. Síðan hentar bæði venjulegum tölvum, snjallsímum og spjaldtölvum.
Þá skal þess að lokum getið að föstudaginn 19. Desember síðastliðinn var Emil Bóassyni afhent heiðursskjal í tilefni þess að aðalfundur KÍm hafði samþykkt árið 2013 að gera hann að heiðursfélaga ásamt Ólafi Egilssyni og Unni Guðjónsdóttur. Emil var um árabil eins konar ólaunaður framkvæmdastjóri félagsins og formaður 1988-1991.
Stjórn félagsins ákvað á fundi sínum 6. Október síðastliðinn að leggja til við aðalfund félagsins að stofnuð verð sérstök ráðgjafanefnd stjórnar og sitji í henni fyrrverandi formenn félagsins. Þeir eru Kristján L. Guðlaugsson, sem var formaður 1975-77, Emil Bóasson 1988-91, Ragnar Baldursson, 1991-1995 og Ólafur Egilsson 2006-2009. Hafa þeir allir samþykkt að taka sæti í nefndinni. Slík tilhögun tíðkast víða og hefur þótt gefast vel. Verður tillagan lögð fram undir liðnum önnur mál.
Fyrir hönd stjórnar félagsins þakka ég gott samstarf við félagsmenn. Aldrei hafa jafnmargir einstaklingar komið að starfi þess og á síðasta ári og er það vel. Hins vegar er það nokkurt umhugsunarefni að félögum hefur fækkað nokkuð. Félagið er þó ennþá á meðal fjölmennustu menningar- og vináttufélaga sem eiga samskipti við kínversku vináttusamtökin. Vonandi leiðir viðleitni stjórnar og starfsnefndar til þess að laða fólk að félaginu og efla starfsemi þess.
Seltjarnarnesi, 9. Nóvember 2015,
Arnþór Helgason