Nýársdag á ári apans bar upp á mánudaginn 8. Febrúar. Af því tilefni efndu Kínversk-íslenska menningarfélagið og Íslensk-kínverska verslunarráðið til nýárshátíðar á veitingastaðnum Tian, Grensásvegi 12 í Reykjavík. Á boðstólnum var 8 rétta matseðill, hinar bestu kræsingar. Hófinu stýrðu Ársæll Harðarson, formaður ÍKV og Arnþór Helgason, formaður Kím.
Ræðumenn voru tveir. Hafliði Sævarsson, verkefnastjóri hjá Háskóla Íslands, hélt erindi um hrunið á hlutabréfamörkuðum í Kína og Halldór Zhang Xinyu flutti stutt ávarp, en hann stundar nú nám við Háskóla Íslands.
Erindin féllu í góðan jarðveg hjá veislugestum og var flytjendum klappað lof í lófa.
Hafliði Sævarsson – hrunið á kínverskum hlutabréfamörkuðum
Góðir gestir
Ef ég sný mér nú að viðfangsefni fyrirlestrarins, hlutabréfamarkaðinum í Kína, þá hafa fréttir af honum undanfarin misseri verið allt annað en jákvæðar. Hann hefur fallið um 20% síðan í desember. Úti í hinum stóra heimi er jafnan talað um “Markað bjarnarins” eða “Bjarnamarkað” þegar hlutabréfamarkaðir falla um 20% á skömmum tíma.
Þetta er í þriðja skiptið á skömmum tíma sem kauphöllin í Sjanghæ fellur um 20%. Það gerðist áður frá 12. júní til 1. júlí og síðan frá 17. ágúst til 25. ágúst á síðasta ári.
Það er því hægt að tala um meiriháttar hrun á síðustu 7 mánuðum.
Markaðurinn náði hæstu hæðum í júní á síðast ári en hefur nú fallið um 43.9% síðan þá.
Í sögulegu samhengi náði hann hæst þann 12. október 2005 en síðan þá hefur hann fallið um 51%.
Það er sama hvernig á málin er litið – andrúmsloftið í kauphöllinni í Sjanghæ er álíka þungt og vel mengað haustkvöld í Peking eftir að næstum helmingur verðmæta þar hefur þurrkast út á hálfu ári.
Ef við höfum einnig í huga hrunið sem varð þann 27. febrúar 2007, er ljóst að sveiflurnar á kínverska hlutabréfamarkaðinum eru svakalegar.
En hvaða áhrif hefur þetta á efnahagsþróun í Kína?
Þegar rætt er um mikilvægi hlutabréfamarkaða í markaðshagkerfum er oft minnst á að þau þjóni sem vettvangur fyrir fyrirtæki til að ná í fjármagn sem nota má í frekari vöxt.
Ef það væru engir hlutabréfamarkaðir yrðu fyrirtæki að fá fjárfestingafé lánað í banka og yrðu þar með háð vöxtum og geðþótta banka um það hverjir fá lán og hverjir ekki.
Kínverski hlutabréfamarkaðurinn er ekki frábrugðin stóru kauphöllunum í New York, London og Frankfurt hvað þetta varðar. Þar eru mörg stöndug fyrirtæki skráð.
Kínverski hlutabréfamarkaðurinn er þó frábrugðin systurstofnunum sínum annars staðar á margan hátt.
Þar eru tvö einkenni sem bera hæst.
Fyrra einkennið er það að áhrif og ákvörðunarvald stjórnvalda í Peking er meira en gengur og gerist í kauphöllum annars staðar. Þrjár ástæður helstar má nefna í því sambandi.
Í fyrsta lagi eru mörg kínversk ríkisfyrirtæki skráð að hluta á markaðinn og má þar m.a. nefna orkufyrirtækin PetroChina og Sinopec sem eru bæði á meðal 5 stærstu fyrirtækja heims – China Mobile, China Telecom, ríkisbankana fjóra o.s.frv.
Í öðru lagi setur ríkisstjórnin í Peking strangar reglur m.a. um það hver og hver ekki megi kaupa hlutabréf.
Í þriðja lagi þá reyna stjórnvöld í Peking að stjórna verði á bréfum með beinum inngripum, m.a. með því að kaupa bréf eða setja tímabundnar reglur um kaup og sölu á bréfum.
Hitt einkennið sem sýnir að hlutabréfamarkaðinn í Kína er öðruvísi en kauphallir annars staðar er að þátttaða hins almenna borgara er þar miklu meiri.
Í raun er markaðurinn litríkari og fjárfestahópurinn mun skrautlegri en víðast gengur og gerist. Það er ekki óálgengt að eldri borgarar séu að versla fyrir sig, börnin sín og barnabörnin hjá litlum hlutabréfamiðlunum út um allt land en þó sérstaklega í Sjanghæ og Guangzhou.
Þessir miðlarar eru oft í kuldalegum sölum sem minna helst á óþægilega biðstofu hjá tannlækni sem kann bara að draga úr jaxla.
Vegna þess að Arnþór Helgason formaður KÍM vildi að ég setti þessar tölur í samhengi og hvernig þær snertu venjulegt fólk þá fann ég nokkrar tölur og gaf mér nokkrar forsendur til að útskýra málið. Bið ég ykkur því nú að hafa athyglina í lagi til að fylgjast með deilingum og margföldunum í eftirfarandi reikningsdæmi.
Svissneski bankinn Credit Suisse hefur haldið því fram að 80% allra heimila í Kína hafi fjárfest í hlutabréfum og að hlutur hlutabréfa sé að jafnaði 30% af heildarsparifé þeirra kínversku heimila sem fjárfesta.
Reynum að setja tölur Credit Suisse í samhengi. Ef við gefum okkur að deila megi 1,3 milljarði kínverja með fjórum til að fá út fjölda kínverskra fjölskyldna, þá eru 325 miljónir heimili í Kína.
Ef 80% þeirra eru með 30% af sparifé sínu í hlutabréfum þá eru það 260 milljónir fjölskyldna.
Gefum okkur það hóflega mat að allar þessar fjölskyldur hafi átt eina milljón íslenskra króna í sparifé í júní og voru með 300.000 í hlutabréfum
Þýðir að 43.9% fallið síðan í júní hefur þurrkað út um 130.000 krónur af sparifé hverrar fjölskyldu eða samtals 30 milljarða íslenskra króna.
Það er um þriðjungur af tapinu sem orðið hefur í Kauphöllum í Kína síðastliðna sex mánuði.
Þetta eru allt mjög hóflegar tölur og ljóst að stórt hlutfall Kínverja hefur tapað um fjórðungi af sínu sparifé.
Hlutverk stjórnvalda
Helstu ástæðurnar fyrir hruninu í þetta skipti eru frekar augljósar.
Hæst hefur á hagvexti undanfarin ár og var hann 6.9% á síðasta ári sem er töluvert lægra en tveggja stafa tölurnar sem menn hafa vanist undanfarna áratugi.
Kínversk stjórvöld hafa spáð 6.5% vexti í ár. Samhugur er meðal Kínafræðinga um að lægri hagvöxtur í kringum 6% sé fullkomlega eðlileg afleiðing þess að kínverska hagkerfið sé orðið það stórt að ómögulegt sé að það vaxi jafnhratt hér eftir. Hagkvæmni stærðarinnar sé náð á mörgum sviðum.
Þá hefur orðrómur um stefnu stjórnvalda gagnvart gengi júansins og dælingu hvata-fjármögnunar inn í hagkerfið haft neikvæð áhrif á fjárfesta.
Gengi kínverska júansins hefur verið að lækka. Á hálfu ári hefur gengi júansins gagnvart Bandaríkjadal farið úr 6.1 í 6.6. sem er tæplega 5% breyting. Gagnvart íslensku krónunni hefur kínverska júanið farið úr 22.5 krónum í mars í fyrra niður í 19 krónur. Það er 18% breyting.
Kína er með stærsta gjaldeyrisvaraforða heims. Hann er svo stór að aldrei áður í mannkynssögunni hefur nokkurt land átt viðlíka birgðir. Nú um stundir er hann 3.23 trilljónir Bandaríkjadala. Ein trilljón á ensku er þúsund milljarðar. Þetta er svo há tala að það er ómögulegt að setja hana í samhengi við nokkuð annað. Eina sem við getum sagt er að þetta séu næstum óendanlega ótrúlega ofboðslega margir dollarar.
En það sem er áhugavert við hreyfingar á gjaldeyrisvaraforða Kína er að hann hefur lækkað um 490 milljarða síðustu sex mánuði og í janúarmánuði einvörðungu féll hann um 100 milljarða dala. Það er 13% lækkun á 6 mánuðum.
Ímyndum okkur nú að Kínverski seðlabankinn mundi halda áfram að nota varaforðann á sama hátt og að sama leyti til að halda gengi kínverska júansins uppi og stemma stigu við útflæði fjármagns úr landinu. Afleiðingarnar væru að hann mundi þurrkast upp á fjórum árum.
Kínversk stjórnvöld hafa gripið til annarra ráða til að reyna að stjórna hlutabréfamarkaðinum. Bankaeftirlitið þar í landi kynnti til sögunnar svokallaðan neyðarhemil eða það sem nefnt hefur verið circuit breaker á ensku.
Þeir virka þannig að ef verð á ákveðnum bréfum fellur um 5% á einum degi, stöðvaðist verslun með þau sjálfkrafa í 15 mínútur.
En þessir neyðarhemlar snerust upp í andhverfu sína og í staðinn fyrir að stöðva fallið á bréfunum ýttu þeir undir frekara fall. Þann 7. janúar fóru þeir af stað. Eftir að losað var um neyðarhemilinn féllu mörg hlutabréf um önnur 7%. Lokuðu stjórnvöld þá markaðinum alveg.
Þetta er ekki í fyrsta skipti í þessu hruni sem viðbrögð stjórnvalda hafa hellt olíu á eldinn.
Í kjölfar efnahagskreppunnar 2008 dældu kínversk stjórnvöld fjármagni inn í hagkerfið, að mestu í gegnum ríkisbankana til ríkisfyrirtækja og mannvirkjagerðar. Á sama tíma var nauðsynlegum endurbótum á samkeppnismarkaði með lánsfé ekki hrundið af stað. Því er talið að mikið af því fé sem lánað hefur verið muni aldrei skila sér til baka. Hefur talan 22% verið nefnd í því sambandi.
Í upphafi síðasta árs hvöttu stjórnvöld einkafjárfesta til að kaupa hlutabréf í Kauphöllum í herferð sem ætlað var að koma meira einkafjármagni af stað í hagkerfinu. Þetta leiddi til bólu sem sprakk með fyrrnefndum afleiðingum í júní.
Í fyrstu sökuðu stjórnvöld óprúttna aðila um að dreifa kjaftasögum og skipuðu ríkisbönkum of fyrirtækjum að halda áfram að fjárfesta. En hrunið hélt áfram og nú er næstum hálfur hlutabréfamarkaðurinn og 15% gjaldeyrisvaraforðans horfin.
Horfurnar fram á við
Ljóst er að árið 2016 verður ár mikilla sviptinga á fjármálamörkuðum í Kína. Því ber að fagna að hagvöxtur í Kína er að jafnast út í kringum 5 til 6%.
Hvað varðar hlutabréfamarkaðinn og þróun hans út árið er vera að hafa í huga að þegar kauphöllin í Sjanghæ hrundi árið 2007 féll hún um 71%.
Ef hún fellur jafnmikið í þessari dýfu er markaðurinn bara hálfnaður á niðurleið sinni.
Munurinn á árinu 2007 og 2016 er sá að nú er Kína næst stærsta hagkerfi heims og forystukind hvað varðar hagvöxt á heimskringlunni.
Ef markaðssveiflur verða miklar í Kína þetta árið er ljóst að þeirra verður vart út um allan heim.
T.d. má búast við að eftirspurn eftir hrávöru eins og súráli muni falla á sama tíma og framboð eykst af áli eftir mikla fjárfestingu í álgeiranum á undanförnum árum. Bensínverð er sögulega lágt nú þegar og því er spáð að það muni halda áfram að lækka. Þá mun fallandi júan hafa áhrif á ferðamannastrauminn frá Kína.
Því miður þá hafa tilraunir kínverskra stjórnvalda til að verða við vandanum ekki reynst vel. Það hvílir því mikil ábyrgð á herðum sérfræðinganna í fjármálaráðuneytinu og seðlabankanum í Peking.
Ég ætla að ljúka þessum fyrirlestri með tilvitnun í aðstoðar-prófessor við HSBC viðskiptaskólann við Pekingháskóla, Christopher Balding. Ég hef leyft mér að heimfæra tilvitnunina yfir á íslensku. Þegar hann var spurður um næstu viðbrögð efnahagsráðgjafa stjórnarinnar í Peking sagði hann:
“Þeir eru eins og rollur á vegi um miðja nótt. Þegar þær birtast í ljósunum frá bílnum, þá vita þeir ekki neitt hvað þeir eiga að gera.”
Halldór zhang Xinyu – Óður til Íslands
Kæra fólk,
Fyrst og fremst, gleðilegt ár! Ég heiti Zhang Xinyu og tók upp nafnið Halldór eftir Halldóri Laxness. Ég er íslenskunemi við Háskóla Íslands, og er þess heiðurs aðnjótandi að fá að flytja þessa stuttu ræðu.
Ég kom hingað á vegum Stofnunar Árna Magnússonar í ágúst í fyrra. Ég man að ég var býsna hress í fluginu frá Frankfurt til Keflavíkur því að þetta var í fyrsta skipti sem ég var að koma til Íslands og á leiðinni ímyndaði ég mér hvernig Ísland (eiginlega) væri.
Ísland er að sjálfsögðu framandi og auðvitað líka heillandi. Það er gætt öllum nútíma þægindum og skrauti, eða þannig. Þegar ég smakkaði hrútspunga án þess að vita hvað þeir voru og sagði „ljómandi gott“, þá fannst mér það virkilega framandi. Þegar ég fór á djammið með vinum mínum og sá fólk sem drakk sig í hel á Laugaveginum, það var líka framandi. Þegar ég kynntist Gísla-Eiríki og Helga eða Búkollu í þjóðsögunum, það fannst mér framandi. Og ég er hérna í dag að halda upp á kínversku áramótin með ykkur vinir, sem er líka framandi. Ég get aldrei sagt, Já, grunaði ekki Gvend!
Maður er manns gaman. Ég þakka KÍM og Arnþóri kærlega fyrir að bjóða okkur í þessa veislu. Ég er einnig innilega þakklátur fyrir hjálpina frá góðum Íslendingum liðið ár. Að lokum óskum við Kínverjar ykkur alls góðs og farsældar á nýrri vegferð. Ég elska þetta land, eins og það sem Jónas Hallgrímson sagði,
Sá eg ei fyrr svo fagran jarðargróða,
fénaður dreifir sér um græna haga,
við bleikan akur rósin blikar rjóða.
Hér vil eg una ævi minnar daga alla.
Takk fyrir.