Netviðskipti í Kína
Innsýn frá AliExpress og Zenni optical.
Erindið flytur Gunnar Óskarsson sem er lektor við Háskóla Íslands og kennari í alþjóðamarkassetningu, alþjóðaviðskiptum, stjórnun nýsköpunar, markaðssetningu á netinu og rafrænum viðskiptum.
AliExpress er í eigu kínversku samstæðunnar Alibaba, sem er að baki stórum hluta póstverslunar frá Kína. Þar er hægt að panta fatnað, raftæki, skótau, íþróttavörur, veiðivarning, varahluti og margvíslegar vörur aðrar. Hjá Zenni optical er hægt að panta sérsmíðuð gleraugu eftir receptinu þínu.
Fyrirlesturinn verður haldinn fimmtudaginn 17. maí kl. 18:00 í hinu glæsilega Kínasafni Unnar að Njálsgötu 33B, 101 Reykjavík. Safnið opnar kl. 18:00 með súpu og spjalli. Um 18:30 hefst síðan fyrirlesturinn sem miðað er við að taki u.þ.b. 30-40 mínútur. Aðgangseyrir er 1000 krónur og er aðeins tekið við greiðslu með seðlum, ekki debet- eða kreditkortum. Ásamt súpu er brauð, kremkex og te í boði. Vegna þess að mikið er af brotthættum og verðmætum munum í safninu er miðað við 12 ára aldurstakmark.
Netviðskipti við Kína hafa aukist umtalsvert á síðustu árum, en þar gætir m.a. áhrifa vegna fríverslunarsamningsins við Kína sem tók gildi 1. júlí 2014 og þá féllu niður tollar á 96 prósentum vara sem koma þaðan. Einnig hefur þekking neytenda á netviðskiptum almennt aukist og umtalsverð þróun í tækni og viðmóti haft áhrif. Gunnar nefnir sem dæmi að nemendur hans í Háskólanum nýti netið í fatakaupum. Engu að síður er þekking á kaupum á vörum frá þessum aðilum að vissu leyti takmörkuð og því mikilvægt að neytendur öðlist frekari innsýn í viðskiptahætti til að geta tekið afstöðu til þess hvort þeir vilji nýta sér netviðskipti við Kína og með hvaða hætti. Stundum kemur fyrir að gæði varningsins eru ekki þau sem búist hafði verið við og svo geti komið upp aðrir hnökrar. Honum finnst fólk tiltölulega afslappað gagnvart þessu og að fólk leiti til dæmis í auknum mæli til saumastofa til að láta laga til föt sem ekki hafi passað alveg. Slíkt er oft ódýrara og þægilegra en að standa í að skila og endursenda.
Þessi fyrirlestur er síðasti viðburður KÍM skv. dagskrá undir heitinu: ,,Það ku vera fallegt í Kína”. Verið er að búa til dagskrá fyrir næsta haust.