Snarl Og Spjall Um Jarðfræði Kína

Snarl og spjall um jarðfræði Kína
Brynhildur Magnúsdóttir jarðfræðingur

Fimmtudaginn 19. September 2018 hélt Brynhildur Magnúsdóttir fyrirlestur um jarðfræði Kína í Veröld, húsi Vigdísar, en áður fengu gestir veitingar og spjölluðu saman. Þessir mánaðarlegir viðburðir  eru samstarfsverkefni Kínversk-íslenska menningarfélagsins og Konfúsíusarstofnuninnar Norðurljósa, sem býður upp á ókeypis veitingar. Spjall

Brynhildur er með M.sc gráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands og starfar sem jarðfræðikennari við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. Brynhildur hefur einnig lokið B.A.-gráðu í Kínverskum fræðum og skrifaði BA ritgerð um “orku og umhverfismál í Kína”. Sem hluta af náminu í Kínverskum fræðum stundaði Brynhildur kínverskunám í eitt ár við Ningbo háskóla í Zhejiang héraði í Kína. Tímann í Kína notaði Brynhildur einnig til ferðalaga og heimsótti hún m.a. tvo jarðfræðigarða, Yandangshan jarðfræðigarðinn í Zhejiang héraði og Zhangjiajie jarðfræðigarðinn í Hunan héraði. Við heimkomu til íslands gafst henni tækifæri til að gera einstaklingsverkefni til 10 eininga og er afurðin af því verki ritgerðin “Jarðfræði Kína – Jarðfræði og jarðfræðigarðar” en þar er leitast við að koma saman einföldu en heildstæðu yfirliti um jarðfræði og jarðsögu þessa mikla ríkis. Í ritgerðinni er einnig fjallað um 7 af þeim 241 jarðfræðigörðum sem finnast í Kína. Þessi fyrirlestur byggir á þessari ritgerð, sem hægt er að lesa sem pdf-skjal með því að smella á forsíðuna fyrir neðan eða tengilinn.
RitgerðRitgerð – Jarðfræði og jarðfræðigarðar í Kína

Í fyrirlestrinum byrjaði Brynhildur á að lýsa almennu landslagi og veðurfarsbeltum. Landslag er hálendast og þurrast inn til landsins á Tíbet hásléttunni, en verður almennt láglendara og rakara til sjávar, sérstaklega til suð austurs en úr þeirri átt eru aðal úrkomuáttirnar. Berggrunnur Kína sem sést á yfirborði er um 70% setlög (mest sjávarset) sem liggja ofan á fornri meginlandsskorpu sem er úr graníti, og gægist þessi gamli berggrunnur upp hingað og þangað um landið. Berggrunnurinn hefur einnig orðið fyrir alls kyns tektónískum áhrifum í gegnum tíðina og er því mikið um ýmsa brot- og veikleikafleti og einnig er þar að finna ýmsar setlægðir sem geta innihaldið miklar náttúruauðlindir, samanber Tarim setlægðina sem inniheldur miklar olíulindir. Jarðskjálftar eru tíðir í landinu vegan hinna mörgu brotflata og hafa nokkrir mannskæðustu jarðskjálftar sögunnar orðið í Kína. Í fyrirlestrinum talaði Brynhildur um stórmerkilegan 2000 ára gamlan jarðskjálftamæli sem var endurgerður eftir skriflegum heimildum árið 2005 og hann virkar til að segja til um að jarðskjálfti hafi orðið í ákveðna átt frá mælinum, ekki er hægt að mæla styrk skjálftans eða fjarlægð, en þetta var nóg til að keisararnir til forna gátu sent björgunarlið í rétta átt. Einhverja eldvirkni er að finna í Kína, en 10 – 15 virk eldfjöll eru í Kína, en eldvirkni er ekki fyrirferðarmikil í kínverskri jarðfræði. Í ljósi langs aldurs jarðlaga í Kína kemur ekki á óvart að gríðarlegan fjölda steingervinga frá nánast öllum jarðsöguskeiðum finnist í landinu. Að öllum öðrum fundarstöðum ólöstuðum eru merkilegustu steingervingana að finna í Liaoning í norð-austur hluta landsins. Þar hefur fundist gríðarlegur fjöldi af steingervingum frá miðlífsöld sem eru ótrúlega vel varðveittar. Lífríkið á svæðinu hefur reglulega grafist í ösku frá nálægum eldfjöllum. Risaeðlusteingervingarnir frá svæðinu hafa aukið mjög þekkingu vísindasamfélagsins á þessari útdauðu dýrategund.
Erindi

241 jarðfræðigarður er í Kína, og fer þeim fjölgandi. Þessir garðar eru almennt vel sóttir af heimamönnum og erlendum ferðamönnum. Yfirleitt kostar eithvað lítilræði inn í þá 1000-2000 krónur, en allur aðbúnaður er til fyrirmyndar. Göngustígar eru vandaðir og er vel við haldið, góð aðstaða er víða til að snæða nesti, hvílast og njóta útsýnis og aðgengi að salernum er gott og er án aukakostnaðar. Einnig eru þessir garðar mjög snyrtilegir þar sem ruslatunnur finnast á ólíklegustu stöðum og her hreinsunarfólks vinnur stöðugt að því að sópa og tína upp rusl. Upplýsingaskilti eru vönduð og eru víða á nokkrum tungumálum, kínversku, japönsku og ensku, og sumstaðar á fleiri tungumálum. Skýringamyndir eru skýrar og greinargóðar og alltaf nýlegar og óveðraðar. Gestirnir geta notið þess að virða fyrir sér hin ýmsu undur jarðfræðinar og mikið er gert úr því að benda gestum á hvernig sé hægt að lesa hinar ýmsu kynjamyndir úr klettunum, og jafnvel hvernig sé hægt að lesa eithvað annað út úr klettamyndunum eftir að skyggja tekur, þetta er kannski ekki svo ólíkt áhuga íslendinga á svipuðum hlutum þar sem við sjáum andlit og tröll og hitt og þetta út úr okkar klettamyndunum.

Í fyrirlestrinum fjallaði Brynhildur um nokkra jarðfræðigarða og ber þá helst að nefna Danxiashan jarðfræðigarðinn í Guangdong héraði sem státar af fallegu klettalandslagi sem er myndað í sjávarsetlög (sand og möl) frá krítartímabilinu. Zhangye Danxia jarðfræðigarðin í Gansu þar sem er að finna mjög litrík sjávarsetlög sem hafa orðið mjög litrík (rauð, græn, gul og fjólublá o.f.l.) vegna efnahvarfa snefilefna við grunnvatn eftir að setlögin risu úr sæ. Síðan fjallaði Brynhildur um Yandangshan jarðfræðigarðin í Zhejiang héraði þar sem má sjá litfögur rhyolítfjöll (eins og finnast í Landmannalaugum) og hægt er að skoða inniviði eldfjalls sem var virkt á Krítartímabilinu. Síðasti jarðfræðigarðurinn sem var tekin fyrir að þessu sinni var Zhangjiajie jarðfræðigarðurinn í Hunan héraði. Hér hefur stórfenglegt klettalandslag myndast í sjávarsetlög sem hafa myndast á yfir 400 milljónum ára. Í þessum jarðfræðigarði er að finna magnaða kalksteinshella með öllu tilheyrandi, yfir 3000 sandsteinssúlur sem sumar hverjar eru ansi langar og mjóar auk ýmissa snarbrattra fjalla með glerbrúm yfir hyldýpið. Í Zhangjiajie er einnig að finna sérstætt dýra og plöntulíf. Ýmsa steingervinga er einnig að finna í garðinum, auk plantna sem hafa vaxið þarna óbreyttar um milljónir ára.

Danxiashan jarðfræðigarðinn í Guangdong
Danxiashan jarðfræðigarðinn í Guangdong
Zhangjiajie jarðfræðigarðurinn í Hunan
Zhangjiajie jarðfræðigarðurinn í Hunan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *