Skýrsla formanns og stjórnar Kínversk-íslenska menningarfélagsins fyrir starfsárið 2017-2018
Stjórn Kínversk-íslenska menningarfélagsins var kjörin á aðalfundi 17. október 2017. Formaður er Guðrún Margrét Þrastardóttir og varaformaður Kristján Jónsson. Meðstjórnendur eru Edda Kristjánsdóttir, gjaldkeri félagsins, Gísli Jökull Gíslason og Guðrún Edda Pálsdóttir, ritari. Í varastjórn eru Kristján H. Kristjánsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þorgerður Anna Björnsdóttir. Í starfsnefnd voru kjörnir, Gunnar Halldór Gunnarsson formaður, Arnþór Helgason varaformaður, Þorkell Ólafur Árnason, Brynhildur Magnúsdóttir, Gunnar Örvarsson, Katrín Ákadóttir og Hinrik Hólmfríðar-og Ólason.
Haldnir voru sex stjórnarfundir á árinu ásamt formanni starfsnefndar en þar sem stjórnin hefur unnið saman lengi og hefur á að skipa öflugu fólki tókst að afgreiða fjölmörg mál með tölvupóst og síma að vopni – stjórnin starfaði ákaflega vel saman og allir með áherslur og vinnuferla á hreinu.
Á stjórnarfundi 22. febrúar 2018 var lagt til að Guðrún Edda færi úr ritarastöðu í meðstjórnanda þar sem starf hennar gerir henni erfitt fyrir að mæta á stjórnarfundi og að Gísli Jökull Gíslason yrði gerður að ritara – var það samþykkt.
Formaður og Edda Kristjánsdóttir héldu nokkur starfskvöld vegna Tianjin verkefnisins en á þeim fundum voru fylltar út umsóknir til Landsvirkjunar, Valitor og Rannís þar sem leitast var við að sækja um styrki vegna ungmennastarfs KÍM – því miður var öllum styrktarbeiðnum hafnað.
65. starfsár KÍM byrjaði á fullkomnu kerfishruni sem varð hjá hýsingar-þjónustufyrirtækinu 1984.is sem hýsir heimasíðu KÍM og netfang. Tókst eftir þó nokkuð langan tíma að bjarga heimasíðu KÍM og tölvupósti en eitthvað vantaði samt uppá það sem komið var á vefinn. Vefþjónar 1984.is hafa verið í lagi síðan.
Sendiráð Kína á Íslandi – samskipti
Þann 8. nóvember 2017 var stjórn boðið í sendiráð Kína á Íslandi til þess að kveðja góðan vin, ZHANG Weidong sendiherra, sem var hér í þrjú ár. Mikil eftirsjá var að honum en þann 13. febrúar 2018 afhenti nýr sendiherra Kína gagnvart Íslandi trúnaðarbréf sitt til forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, en sá sendiherra, JIN Zhijian hefur ekki reynst síðri í öllu samstarfi við KÍM enda mikill Íslandsvinur og vel mæltur á íslensku. Þann 14. febrúar var stjórn boðið í kínverska sendiráðið til þess að hitta sendiherrann og fagna nýju ári hundsins. JIN sendiherra hefur reynst félaginu ákaflega vel og t.a.m. bauð hann stjórninni að halda tónleika í kínverska sendiráðinu og reiða fram veitingar þegar félagið kynnti ungmenni þau sem fóru á vegum KÍM á listahátíð í Tianjin-borg sem er reyndar fæðingarborg sendiherrans. Er stjórnin þakklát sendiráðinu fyrir alla aðstoð og fyrir að sinna þessu mikilvæga samstarfi auk þess sem við þökkum fyrir öll boð á tónleika, fundi og tækifæri sem við fengum til að hitta Annie WU, jafningja Warren Buffett.
Nýársgleði Kínversk-íslenska menningarfélagsins og Íslensk-Kínverska viðskiptaráðsins
Þann 16. febrúar tóku KÍM og ÍKV höndum saman af tilefni kínversku áramótanna og var haldin nýársgleði á veitingastaðnum Fönix þar sem ári hundsins var fagnað. Var góð mæting beggja félaga og var nýr sendiherra Kína enn frekar kynntur fyrir þeim félagsmönnum sem mættu. Fór Helgi Steinar Gunnlaugsson, nýr félagsmaður KÍM, með uppistand en Helgi Steinar er uppistandari, framkvæmdastjóri fyrirtækisins Kínversk ráðgjöf og bjó um árabil í Kína. Helgi Steinar sló í gegn en hann hefur náð þvílíkum tökum á kínverskunni að þeir Kínverjar sem sátu gleðskapinn áttu vart til orð.
Nýársgleði Konfúsíusarstofnunar
Þann 24. febrúar stóð Konfúsíusarstofnunin Norðurljós fyrir kínverskri nýárshátíð í Háskóla Íslands og bauð til hátíðar. KÍM gafst kostur á því að vera með kynningarborð sem nýtt var til hins ítrasta. Auk kynningarefnis á okkar starfsemi voru félagsmenn til taks ef fólk vildi kynna sér félagið og sett var upp Mahjong-borð en spilamennska félagsmanna dró að sér fólk. Er Magnúsi Björnssyni og starfsmönnum Konfúsíusarstofnunar sérstaklega þakkað fyrir samstarfið og góð samskipti.
Það ku vera fallegt í Kína – snarl og spjall um Kína
Í tilefni 65 ára afmælis KÍM stóð Kínversk-íslenska menningarfélagið fyrir fyrirlestraröð sem ber yfirskriftina „Það ku vera fallegt í Kína – snarl og spjall um Kína“. Um er að ræða mánaðarlega viðburði þar sem fólk sem hefur áhuga á Kína getur hist og spjallað og hlustað á fjölbreytta fyrirlestra. Fyrri hluta ársins voru viðburðirnir haldnir í Kínasafni Unnar og var fyrsti viðburðurinn haldinn í febrúar þar sem Unnur bauð heim í Nýársgleði. Í mars var Gísli Jökull Gíslason rannsóknarlögreglumaður með fyrirlestur um Kína og seinni heimstyrjöldina, í apríl fjallaði Þorgerður Anna Björnsdóttir starfsmaður Konfúsíusarstofnunar um kínverskukennslu barna og í maí var Gunnar Óskarsson, lektor við Háskóla Íslands með fyrirlestur um netviðskipti í Kína. Gert var hlé yfir sumartímann en hafist handa aftur í september, þá í samstarfi við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós. Í september hélt Brynhildur Magnúsdóttir, jarðfræðingur fyrirlestur um jarðfræði í Kína en á morgun heldur Joanna Kraciuk, nemi í kínverskum fræðum og tölvunarfræði við Háskóla Íslands fyrirlestur um upplifun af Wugulun Kungfu-skóla í Henan. Lok fyrirlestrarraðarinnar verður í nóvember þegar Halldór Xinyu Zhang, þýðandi og meistaranemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands fjallar um bókmenntir og þýðingar. Er öllum þakkað samstarfið.
Matreiðslunámskeið í samstarfi við Fönix veitingahús
KÍM lét langþráðan draum rætast um að standa fyrir matreiðslunámskeiði fyrir félagsmenn. Gengið var frá samstarfi við Fönix veitingahús sem sá sér fært að hýsa og halda einfalt námskeið. Tvær dagsetningar voru settar í apríl og biðlistar mynduðust. Félagsmenn skemmtu sér konunglega við matargerð og nutu ljúffengs afrakstursins og samverunnar. Það eru áreiðanlega einhverjir sem búa vel að þessari þekkingu í dag.
Heimsókn varaforseta kínversku Vináttusamtakanna
Vináttusamtökin CPAFFC, Chinese People‘s Association for Friendship with Foreign Countries, sendu hingað til lands varaforseta samtakanna, SONG Jingwu og fjögurra manna sendinefnd en stofnunin er mjög mikilvægur hlekkur í Utanríkisráðuneyti Kínverja og stendur fyrir miklum fjölda verkefna sem tengjast samskiptum við aðrar þjóðir. Eru það CPAFFC sem hafa m.a. staðið fyrir því að Tianjin borg bjóði íslenskum ungmennum á listahátíð í Kína á þriggja ára fresti. Stjórn KÍM gaf út boðsbréf vegna heimsóknarinnar og bauð SONG og sendinefnd hans til vel heppnaðs vinnukvöldverðar þar sem farið var yfir menningarmálin og vilja til frekara samstarfs.
Átti sendinefndin þá fund með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga daginn eftir auk þess sem þau sátu fundi í kínverska sendiráðinu.
Ferð ungmenna á listahátíð í Tianjin
Formanni barst boð frá Tianjin Cathay Future Culture & Art Foundation um þátttöku ungmenna á listahátíð í Tianjin-borg sumarið 2018. Yfirskrift hátíðarinnar var Friður, vinátta og framtíð. Tianjin listahátíðin er sérstakt verkefni haldið á þriggja ára fresti með virkri þátttöku ungmenna á aldrinum 8-18 ára en hátíðin skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn er sá möguleiki að senda inn teikningu í myndlistasamkeppni og vera valinn til að eiga mynd í bók hátíðarinnar, seinni hlutinn snýr að því að senda hóp ungmenna á listahátíðina. Stjórnin útbjó auglýsingu sem send var til alla grunnskóla og framhaldsskóla landsins. Þegar frestur var útrunninn var einhuga ákvörðun um að gefa þjóðlagasveitinni Þulu kost á því að taka þátt í hátíðinni enda einstaklega efnileg ungmenni þar á ferð. Mikill tími sumars fór í undirbúningsvinnu, vegabréfsáritanir og skipulag auk þess sem kínverska sendiráðið lánaði KÍM hátíðarsal sendiráðsins til afnota og lagði til veitingar – til þess að gefa ungmennunum færi á að sýna félagsmönnum og öðrum velunnurum sýnishorn af því sem þau lögðu síðar fram til hátíðarinnar. Listahátíðin í Tianjin var mjög vel sótt og var sómi að Þulu. Þakkar stjórn KÍM Þulu fyrir framlag sitt og sendiráðinu fyrir stuðninginn. Þetta stóra verkefni teygði sig frá janúar til ágúst og fáum við að hlýða á framsögn Eydísar Franzdóttir, stjórnanda hljómsveitarinnar, og félaga úr Þulu hér á eftir.
Ritun samskiptasögu Íslands og Kína
Þann 1. október 2017 hófst formlega ritun samskiptasögu Íslands og Kína en verkefni þetta hefur verið í vinnslu frá því árið 2016. Sérstök ritnefnd var sett á laggirnar og er formaður nefndarinnar Sverrir Jakobsson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Auk hans eru í nefndinni Arnþór Helgason og Kristján Jónsson frá KÍM og Ársæll Harðarson frá ÍKV. Þá sitja fulltrúar sendiráðs Kína einnig í nefndinni en kínverska sendiráðið hefur lagt fram fjármuni til styrktar verkefninu. Þorgerður Anna Björnsdóttir var ráðin til verksins enda talin hæfust þeirra einstaklinga sem komu til greina. Stefnt er að útgáfu bókarinnar árið 2021, á 50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína.
Verkefnið skiptist í þrjá hluta; menningarlegu tengslin, stjórnmálatengslin og viðskiptatengslin. Þorgerður Anna hefur unnið mikla rannsókn og viðað að sér gnótt heimilda auk þess sem hún hefur tekið mörg verulega áhugaverð viðtöl vegna bókarinnar. Mörg púsl eru að raðast saman og áhugaverðar tengingar leynast víða sem gerir verkefnið spennandi og bókina áhugaverða.
Starfsnefndin
Starfsnefnd fundaði tvisvar á heimili formanns nefndarinnar, Gunnars Halldórs Gunnarssonar, í janúar og í júní. Auk þessara formlegu funda ræddu meðlimir starfsnefndar saman óformlega eftir þörfum.
Formaður stýrði fundum og Arnþór Helgason ritaði fundargerðir.
Í upphafi funda var farið yfir starfsemi félagsins og þau verkefni sem væru á döfinni. Miklar umræður sköpuðust um hin ýmsu mál, sérstaklega um Tianjin-verkefnið, vinabæjartengsl, spilakvöld, fyrirlestra í tilefni 65 ára afmælis félagsins o.fl. Var í því sambandi vísað til fundargerða stjórnar. Lagt var áherslu á að félagsmenn þurfi að leggja þessum málum lið, þar á meðal með því að útvega styrki.
Rætt var ítarlega um verkefni sem starfsnefndin getur tekið að sér. Í því samhengi var ákveðið að leggja áherslu á vinabæjartengsl og mahjong-spilakvöld.
Vinarbæjartengsl
Gunnar Halldór kannaði hvernig vinabæjatengslum væri háttað milli íslenskra og kínverskra bæjarfélaga en kom að tómum kofunum hjá Sambandi sveitarfélaga. Vitað er um tengsl milli Hafnarfjarðar og Baoding, Reykjanesbæjar og sennilega Shenyang, Grindavíkur og Changsha, Kópavogs og Wuhan auk þess sem Akureyri hefur sent nefnd til Shanghai til þess að kynna sér vistvæn íbúðarhverfi og Reykjavík hefur samskipti við Beijing sem höfuðborg.
Ákveðið var að Arnþór og Katrín skoðuðu þessi mál nánar og að Arnþór hefði samband við kínversku vináttusamtökin þegar ljóst verður hverjir sitja í sveitarstjórnum Hafnarfjarðar, Kópavogs, Fjarðarbyggðar og Reykjanesbæjar, en þessi sveitarfélög hafa tengsl við Kína.
Arnþór og Katrín fóru í heimsókn til Sambands íslenskra sveitarfélaga 7. Mars.
Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, greindi frá sveitarstjórnarkosningum framundan og sagðist mundi hvetja þau sveitarfélög, sem hafa samskipti við Kína að rækta þessi tengsl. Í máli hans kom jafnframt fram að hann hefur flutt erindi á vegum Sambands kínverskra sveitarstjórna og hefur verið boðin þátttaka í ýmsum ráðstefnum sem snerta sveitarstjórnarmál.
Niðurstaðan af þessari vinnu er að það sé verðugt verkefni fyrir starfsnefndina að vinna áfram í því að styrkja vinarbæjartengsl milli íslenskra og kínverskra bæjarfélaga.
Mahjong spilakvöld
Félagsmenn höfðu þreifað sig áfram með Mahjong spiladag í Iðnó, með spilakvöldi hjá formanni og aftur með spilakvöldi sem haldið var í kínverska sendiráðinu. Í framhaldinu ákvað stjórnin að hlúa að þessu verkefni og tók starfsnefndin það að sér.
Gunnar Halldór kom á samstarfi við Spilavini en þeir sáu félaginu fyrir stað og kennslu en félagið sjálft á fimm ný spil til brúks. Starfsnefndin sá svo um spilakvöld í mars, apríl og maí og þóttu þau takast vel. Ákveðið var að stefna áfram að mánaðarlegum Mahjong-kvöldum í haust í samstarfi við Samtök Kínverja á Íslandi o.fl.
Önnur mál
*Félaginu barst boð 13. desember frá China Photographers Association um að ljósmyndarar tæku þátt í China 17th International Photographic Art Exhibition. Erindið var áframsent á helstu Ljósmyndarafélög á Íslandi en ekkert hefur frést hvort boðinu var tekið.
*Þá er rétt að geta þess að félaginu barst beiðni frá kínverska sendiráðinu um að gefa út boðsbréf vegna sendinefndar WANG Yajun, vararáðherra Alþjóðadeildar CPC. Var orðið við þeirri ósk og var félagsmönnum í kjölfarið boðið að koma á fund með Wang og taka þátt í pallborðsumræðum um Belti og braut. Góð mæting var á pallborðsumræðurnar en sökum of langra formlegra orðaskipta náðist aldrei að byrja pallborðsumræðurnar sem var miður fyrir félagsmenn KÍM og vonbrigði fyrir marga sem höfðu hlakkað til að læra meira um hið sérkínverska verkefni Belti og braut.
* Stjórn KÍM vill minnast þeirra félaga sem létust á árinu með þakklæti í huga og upplýsir jafnframt að sjö nýjir aðilar gengu í félagið á því starfsári sem er að líða.
Að lokum
Eins og flestum er kunnugt um ákvað ég að gefa ekki kost á mér áfram sem formaður KÍM né í stjórn enda búin að sinna stjórnarstörfum fyrir félagið í tíu ár samfleytt, síðasta árið sem formaður. Ég hef verið hugmyndarík og lagt mig fram um að vinna vel fyrir félagið, leysa öll þau mál sem komið hafa upp og vona ég að félagið hafi haft gæfu af. Ég þakka fyrir mig og þakka nýjum formanni kærlega fyrir að taka áskorun minni um að bjóða sig fram og óska ég honum til hamingju. Ég mun draga mig fullkomlega í hlé nema hann vilji aðstoð. Það er ósk mín að ykkur gangi vel en félagið er nú 65 ára og elsta starfandi menningarfélag gagnvart Kína – við erum ári eldri en kínversku vináttusamtökin sem eru 64 ára um þessar mundir. Geri aðrir betur. En það er mín von að félagið fái að blómstra undir stjórn reynslu, þekkingar og nýrra hugmynda. Stjórnin sem hefur verið kosin áfram hér í dag er öflug, býr yfir þekkingu og reynslu, hún hlustar, býr til og framkvæmir.
Sem formaður lagði ég upp úr því á árinu að við einbeittum okkur að félögum KÍM, að finna út hvað þeir vilja sjá okkur gera og einbeita okkur að mannlegu samstarfi. Það er von mín að Mahjong spilakvöldin, matreiðslunámskeiðin og fyrirlestrarröðin hafi speglað það. Það er mannlegi þátturinn sem gerir félag að félagi og menning sem stuðlar að friði og einingu milli fólks. Mikið og gott félagsstarf krefst reynslu en jafnframt endurnýjunar og vona ég að félagið beri gæfu til þess að taka inn nýja félaga í stjórn og starfsnefndir, ungt fólk sem hefur drauma og þrár til að vinna fyrir menningartengslin.
Ég óska félaginu, formanni og stjórn farsældar.
Guðrún Margrét Þrastardóttir