Aðalfundur KÍM 10. október 2018
– á veitingastaðnum Tian við Grensásveg
65. starfsár Kínversk-Íslenska menningarfélagsins.
Fundarstjóri: Kristján Jónsson og Smári Baldursson í kosningahluta fundarins
Fundarritari: Þorgerður Anna Björnsdóttir.
Fundur settur kl.18:08 og fundargestir 18 talsins.
Formaður Kím, Guðrún Margrét Þrastardóttir, tekur til máls, setur fundinn og býður gesti velkomna.
Guðrún mælir með Kristjáni Jónssyni sem fundarstjóra, auk Smára Baldurssyni til fundarstjórnar er kemur að kosningum í stjórn og Þorgerði Önnu Björnsdóttur sem fundarritara. Er það samþykkt.
Guðrún Margrét Þrastardóttir, fráfarandi formaður Kím, gerir ársskýrslu Kím skil (hér í styttu máli):
- Samskipti við sendiráð Kína á Íslandi
Þann 8. nóvember 2017 kvaddi stjórn KÍM góðan vin í kínverska sendiráðinu, ZHANG Weidong sendiherra. Hinn 13. febrúar 2018 tók nýr sendiherra Kína gagnvart Íslandi til starfa en sá sendiherra, JIN Zhijian hefur ekki reynst síðri í öllu samstarfi við KÍM. - Nýársgleði KÍM og ÍKV
Þann 16. febrúar tóku KÍM og ÍKV höndum saman af tilefni kínversku áramótanna og var haldin nýársgleði á veitingastaðnum Fönix þar sem ári hundsins var fagnað með hinum nýja sendiherra Kína. Fór Helgi Steinar Gunnlaugsson, nýr félagsmaður KÍM, með uppistand og var vel tekið.
- Nýárshátíð í Háskóla Íslands
Þann 24. febrúar stóð Konfúsíusarstofnun Norðurljós fyrir kínverskri nýárshátíð í Háskóla Íslands og bauð til hátíðar. KÍM tók þátt í hátíðinni og var með kynningarborð þar sem gestum var kynnt starfsemi félagsins.
- Það ku vera fallegt í Kína – snarl og spjall um Kína
Í tilefni 65 ára afmælis KÍM stóð félagið fyrir fyrirlestraröð sem ber yfirskriftina „Það ku vera fallegt í Kína – snarl og spjall um Kína“. Um er að ræða mánaðarlega viðburði þar sem fólk getur hist og spjallað og hlustað á fjölbreytta fyrirlestra tengdum Kína. Fyrri hluta ársins voru viðburðirnir haldnir í Kínasafni Unnar, hlé var svo gert yfir sumartímann en hafist handa aftur í september, þá í samstarfi við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós innan veggja Háskóla Íslands. Standa viðburðirnir yfir fram í nóvember. Er öllum þakkað samstarfið. - Matreiðslunámskeið á veitingahúsinu Fönix
KÍM stóð fyrir matreiðslunámskeiði í kínverskri matargerð. Gengið var frá samstarfi við Fönix veitingahús sem sá sér fært að hýsa og halda einfalt námskeið. Var dagsnámskeið haldið tvisvar í apríl, þar sem þátttakendur skemmtu sér konunglega við matargerð og nutu svo ljúffengs afrakstursins. - Heimsókn varaforseta kínversku Vináttusamtakanna
Vináttusamtökin CPAFFC, Chinese People‘s Association for Friendship with Foreign Countries, sendu til landsins varaforseta samtakanna, SONG Jingwu og fjögurra manna sendinefnd. Stjórnin gaf út boðsbréf vegna heimsóknarinnar og bauð SONG og sendinefnd hans til vel heppnaðs vinnukvöldverðar þar sem farið var yfir menningarmálin og vilja til frekara samstarfs. - Ferð ungmenna á listahátíð í Tianjin
Formanni barst boð um þátttöku á listahátíð í Tianjin-borg sumarið 2018. Yfirskrift hátíðarinnar var Friður, vinátta og framtíð. Tianjin listahátíðin er sérstakt verkefni haldið á þriggja ára fresti með virkri þátttöku ungmenna á aldrinum 8-18 ára. Stjórnin útbjó auglýsingu sem send var í alla grunnskóla og framhaldsskóla landsins og var Þjóðlagasveitin Þula valin til þátttöku enda efnileg ungmenni þar á ferð. Listahátíðin í Tianjin var mjög vel sótt og sómi að Þulu. Þakkar stjórn KÍM Þulu fyrir framlag sitt og sendiráðinu fyrir stuðning við verkefnið. - Ritun samskiptasögu Íslands og Kína
Þann 1. október 2017 hófst formlega ritun samskiptasögu Íslands og Kína en verkefni þetta hefur verið í vinnslu frá því árið 2016. Sérstök ritnefnd var sett á laggirnar og er formaður nefndarinnar Sverrir Jakobsson, sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands. Auk hans eru í nefndinni Arnþór Helgason og Kristján Jónsson frá KÍM og Ársæll Harðarson frá ÍKV. Þorgerður Anna Björnsdóttir var ráðin til verksins og stefnt er að útgáfu bókarinnar árið 2021, á 50 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Kína. - Starfsnefndin
Starfsnefnd undir formennsku, Gunnars Halldórs Gunnarssonar, ákvað að leggja áherslu á vinabæjartengsl og mahjong-spilakvöld. Vinabæjartengsl eru til staðar á milli nokkurra sveitarfélaga en liggja niðri og niðurstaðan við eftirgrennslan sú að verðugt verkefni sé að styrkja þessi tengsl á milli íslenskra og kínverskra bæjarfélaga. Fyrir Mahjong-spilakvöldin var komið á samstarfi við Spilavini en þeir sáu félaginu fyrir stað og kennslu en félagið sjálft á fimm ný spil til brúks. Haldin voru spilakvöld í mars, apríl og maí og þóttu þau takast vel. - Annað
Félaginu barst boð frá China Photographers Association um að ljósmyndarar tækju þátt í China 17th International Photographic Art Exhibition. Erindið var áframsent á helstu Ljósmyndarafélög á Íslandi en ekkert hefur frést hvort boðinu var tekið.Þá er rétt að geta þess að félaginu barst beiðni frá kínverska sendiráðinu um að gefa út boðsbréf vegna sendinefndar WANG Yajun, vararáðherra Alþjóðadeildar CPC. Var orðið við þeirri ósk og var félagsmönnum í kjölfarið boðið að koma á fund með Wang um verkefni kínverskra yfivaralda Belti og braut.Stjórn KÍM vill minnast þeirra félaga sem létust á árinu með þakklæti í huga og upplýsir jafnfram að sjö nýjir aðilar gengu í félagið á því starfsári sem er að líða.
Þegar formaður hefur lokið máli sínu, gefur fundarstjóri orðið laust. Stjórn KÍM færir Guðrúnu blómavönd og kort með þökkum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins síðastliðin áratug, síðasta árið sem formaður félagsins og fyrst kvenna til að gegna þeirri stöðu.
Ársreikningar Kím
Edda Kristjánsdóttir gjaldkeri leggur fram reikninga KÍM eftir almanaksárið 2017 og greinir einnig frá núverandi fjárhagsstöðu KÍM 2018.
Hún kynnir greidd félagsgjöld og ýmis útgjöld. Tekjur félagsins umfram gjöld á árinu hafi verið 17,911 krónur og slapp því vel fyrir horn. Félagið er fjárhagslega stöðugt.
Fundarstjóri leggur skýrslu formanns og reikninga gjaldkera fram til samþykkis fundargesta. Er það samþykkt.
Lagabreytingar
Engar tillögur bárust og fellur því þessi liður niður.
Árgjöld
Fundarstjóri leggur fram tillögu um breytingu á almennu árgjaldi félagsins úr 3.000 kr í 3.500 kr og er það samþykkt einróma. Afslættir námsmanna og fjölskylduafsláttur haldast óbreyttir; hálft félagsgjald fyrir námsmenn og 1,5 félagsgjald fyrir hjón.
Kosningar
Skipt er um fundarstjóra og tekur Smári Baldursson við fundarstjórn.
Kjör stjórnar- og varastjórnar, meðstjórnenda og starfsnefndar Kím
1. Kjör formanns: Guðrún Margréti Þrastardóttur gefur ekki kost á sér áfram til formennsku en mælir með Þorkeli Ólafi Árnasyni sem nýjum formanni. Engin mótframbjóðandi og er því Þorkell kjörinn formaður KÍM.
2. Varaformaður: Kristján Jónsson er endurkjörinn varaformaður.
3. Meðstjórnendur: Kjörin eru þau Guðrún Edda Pálsdóttir, Gísli Jökull Gíslason og Edda Kristjánsdóttir.
4. Varastjórn: Hrafn Gunnlaugsson, Kristján H. Kristjánsson og Þorgerður Anna Björnsdóttir
5. Starfsnefnd skipa Brynhildur Magnúsdóttir formaður og Gunnar Halldór Gunnarsson varaformaður, auk fleiri félagsmanna. Aðrir áhugasamir félagsmenn eru líka hvattir til að ganga til liðs við starfsnefndina.
6. Skoðunarmenn reikninga eru sem áður Magnús Björnsson og Hans Benjamínsson auk Vésteins Ólasonar til vara.
Önnur mál – kveðja formanns og ávarp nýs formanns
Guðrún Margrét, fráfarandi formaður, tekur til máls og flytur fundargestum stutt kveðjuávarp. Eftir tíu ára samstarf í stjórn félagsins þakkar hún kærlega fyrir sig og þakkar nýkjörnum formanni fyrir að taka áskorun sinni um framboð til formennsku KÍM jafnframt sem hún óskar honum til hamingju. Hún segist ætla að draga sig í hlé en að honum sé að sjálfsögðu velkomið að leita til hennar óski hann þess. Nú sé félagið orðið 65 ára, elsta menningarfélag starfandi gagnvart Kína og ári eldri en kínversku vináttusamtökin sjálf. Hún vonar að félagið fái áfram að blómstra undir stjórn reynslu, þekkingar og nýrra hugmynda og segir nýkosna stjórn bæði klára og öfluga. Hún kveðst sem formaður síðastliðið ár hafa viljað beina sjónum að félögum KÍM, hverju þeir vilji að félagið sinni, og mannlegu samstarfi. Það sé von hennar að viðburðir félagsins á árinu endurspegli þessar áherslur. Það er mannlegi þátturinn sem gerir félag að félagi og menning sem stuðlar að friði og einingu milli fólks. Mikið og gott félagsstarf krefjist reynslu en jafnframt endurnýjunar og hún voni að félagið beri gæfu til þess að taka inn nýja félaga í stjórn og starfsnefndir, ungt fólk sem hefur drauma og þrár til að vinna fyrir menningartengslin.
Að lokum óskar Guðrún félaginu, formanni og stjórn farsældar.
Kristján fundarstjóri slítur formlegum fundi og býður Eydísi Franzdóttur ásamt nokkrum af ungmennum þjóðlagasveitarinnar Þulu velkomin og undirbúa þau sig til að flytja stutt atriði.
Kristján óskar nýkjörnum formanni KÍM, Þorkeli Ólafi Árnasyni, innilega til hamingju með kjörið og býður hinum nýja formanni að segja nokkur orð óski hann þess.
Þorkell tekur til máls og þakkar fundargestum kærlega fyrir stuðningsyfirlýsinguna og segjist vilja sýna það í starfi að hann sé traustsins verður. Hann nefnir að hann hafi á sínum tíma tekið námskeið í leiðtogafræði við Copenhagen Business School og þar hafi meðal annars verið rætt hvað einkenni góðan leiðtoga. Lýsingin á góðum leiðtoga sé raunar einhver sem gerir öðrum kleift að sinna því sem þeir vilja gera og hjálpi til við úrlausn áskorana. Þetta sé gjarnan kallað þjónustuleiðtogi og það sé vilji hans og stefna að reynast félaginu slíkur.
Ferðafrásögn og tónlistaratriði
Fimm af átta meðlimum þjóðlagasveitarinnar Þulu flytja fundargestum frásögn af ferð sinni til Kína og þátttöku á alþjóðlegu listahátíðinni í Tianjin. Þau sýna myndir úr ferðinni og segja frá upplifun sinni af hátíðinni, staðina sem þau heimsóttu og hvað var þeim framandi. Til dæmis vöktu þrír rauðhærðir meðlimir hljómsveitarinnar mikla athygli Kínverja hvert sem þau fóru og þau sáu mjög óhefðbundinn götumat á Wangfujing-stræti í Beijing. Að frásögninni lokinni stilltu þau saman strengi og léku þrjú lög fyrir áheyrendur, gestum til mikillar ánægju. Sérstaklega sáttur var Hrafn Gunnlaugsson í varastjórn KÍM eftir flutning þeirra á lagi um krumma.
Ávarp sendiherra Alþýðulýðveldis Kína
Sendiherrann, JIN Zhijian, tekur til máls á íslensku og þakkar kærlega fyrir boðið. Það gleðji hann alltaf að taka þátt í samkomum Kínversk-íslenska menningarfélagsins. Hann segjist vilja nota tækifærið til að þakka Guðrúnu Margréti fyrir störf hennar og framlag til KÍM en þau hafi mikið rætt hvernig efla megi samskipti Íslands og Kína. Hann minnist þess hve það gladdi hann að heyra af Tianjin-verkefninu, en það sé hans heimaborg, og frábært að sjá hversu vel gekk með ferð íslenska hópsins á listahátíðina. KÍM segir hann eitt mikilvægasta batteríið til þess að bæta áfram samskipti landanna. Í ár sé félagið 65 ára og eigi sér langa sögu um samskipti og vináttu á milli Kína og Íslands. Hann segir samskiptin vera mjög góð og það slíkum árangri hefði ekki verið náð án KÍM, félagið sé vel metið.
Hann var ungur við nám og síðar störf í kínverska sendiráðinu á Íslandi á árunum 1985-1991 og tók þá þátt í viðburðum KÍM. Núna er Kína að breytast mikið. Raunar hafa miklar breytingar orðið þar síðastliðin 40 ár, frá því að Kína opnaði dyrnar. Mikið hefur verið um gagnkvæmar heimsóknir háttsettra ráðamanna á milli landanna hafa stuðlað að auknum samskiptum og viðskipti jafnframt aukist mikið. Samstarfsverkefni þjóðanna eru fjölmörg, svo sem á sviði jarðvarma og loftslagsbreytinga. Verkefnið Belti og braut sé einnig mikilvægt tækifæri til að bæta enn viðskipti á ýmsum sviðum, svo sem í nýsköpun, uppbyggingu innviða og fleira. Hann segist vona að við getum fengið beint flug á milli landanna, til að auðvelda ferðalög. Að lokum segir hann þau hjá kínverska sendiráðinu tilbúin til þess að aðstoða KÍM og óskar Þorkeli til hamingju. Hann trúi að í samvinnu við stjórn KÍM muni félagið áfram vinna frábært starf.
Að lokum lyftir hann glasi og skálar við fundargesti. Matur er borinn fram og gestir njóta úrvals kínverskra rétta.