Kínverji fjallar um íslenskar bókmenntir
Halldór Xinyu Zhang
Halldór Xinyu Zhang, þýðandi og meistaranemi í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands fjallar um þýðingar en hann þýddi meðal annars bækurnar Hundadaga og Riddara hringstigans eftir Einar Má Guðmundsson á kínversku og hlaut þýðing hans á Hundadögum bókmenntaverðlaun í Kína. Halldór hefur einnig þýtt bókina Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur og nýlega kom út smásagnasafn sem hefur að geyma þýðingar hans á sex smásögum eftir Svövu Jakobsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Braga Ólafsson, Gyrði Elíasson, Jón Kalmann Stefánsson og Kristínu Eiríksdóttur.
Þessi viðburður er á vegum Kínversk-íslenska menningarfélagsins og Konfúsíusarstofnuninnar Norðurljósa, sem býður einnig upp á ókeypis veitingar. Hann verður haldinn fimmtudaginn 15. nóvember kl. 17:30 – í stofu VHV-007, sem er í kjallara Veraldar, húsi Vigdísar, að Brynjólfsgötu 1, Reykjavík. Næg frí bílastæði eru við bygginguna. Fyrst geta gestir spjallað saman og fengið sér veitingar en síðan er fyrirlesturinn sem miðað er við að taki um 30-40 mínútur.
One thought on “Kínverji Fjallar Um íslenskar Bókmenntir”