Halldór í Morgunblaðinu

öflugur Bókaþýðandi

Öflugur bókaþýðandi
Kínverji kallar sig Halldór í höfuðið á nóbelsskáldinu

Halldór í Morgunblaðinu
Fræðimaður Halldór Xinyu Zhang hefur verið iðinn við að þýða íslenskar bókmenntir á kínversku. Morgunblaðið/Eggert

Halldór Xinyu Zhang hefur verið iðinn við að þýða íslenskar bókmenntir á kínversku. Fyrsta þýðing hans kom út í Kína 2017, fyrir skömmu bættust tvær bækur í safnið, fjórar eru væntanlegar síðar á þessu ári og fleiri eru í farvatninu.

Meðan nóttin líður eftir Fríðu Sigurðardóttur og smásagnasafn með sögum eftir Svövu Jakobsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Braga Ólafsson, Gyrði Elíasson, Jón Kalman Stefánsson og Kristínu Eiríksdóttur komu út í þýðingu Halldórs í Kína í desember. Smásagnasafnið birtist í virtu kínversku bókmenntatímariti, Heimsbókmenntum, og var gefið út í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins. Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson var fyrsta bókin sem kom út í þýðingu Halldórs. „Ég þýddi hana vegna þess að hún var tilnefnd til kínversku bókmenntaverðlaunanna sem besta erlenda skáldsaga 21. aldar og var síðan útnefnd til verðlaunanna 2016,“ segir hann. Riddarar hringstigans eftir sama höfund, Ástin fiskanna eftir Steinunni Sigurðardóttur, Stormfuglar eftir Einar Kárason og Undantekningin eftir Auði Övu Ólafsdóttur eru væntanlegar á kínversku í haust. „Ég er búinn að þýða Riddara hringstigans og Stormfugla svo ég á bara tvær bækur eftir í ár,“ segir hann léttur á brún.

Íslenskunámið tilviljun

Halldór hóf íslenskunám í Peking og hélt því áfram við Háskóla Íslands 2015, þegar hann fékk styrk frá Árnastofnun og menntamálaráðuneytinu til að læra íslensku sem annað tungumál. Síðan 2017 hefur hann stundað meistaranám í íslenskum bókmenntum við HÍ. „Ég hef gaman af bókmenntum og þýðingum,“ segir hann lítillátur. Bætir við að hann hafi ákveðið að kalla sig Halldór til þess að einfalda framburð Íslendinga á nafni sínu. „Halldór er auðvitað líka nafn eins stærsta skálds Íslands, já, þannig er ég svolítið bókmenntasnobb,“ segir hann kíminn.

Spurður hvers vegna hann hafi ákveðið að læra íslensku segist hann ekki vita það. „Ég hef ekki enn áttað mig á því. Ég hef oft verið spurður þessarar spurningar en hef aldrei getað svarað henni. Þetta var algjör tilviljun. Í fyrstu valdi ég sænsku sem háskólafag. Ekki varð úr því námi og íslenska var málið, en ég vissi ekkert um þessi tungumál.“

Næsta verkefni fyrir utan það sem áður hefur verið nefnt er þátttaka í viðamiklu þýðingaverkefni. Halldór segir að stefnt sé að því að þýða 50 til 70 skáldsögur frá Norðurlöndum á kínversku og hann hafi hug á því að þýða um tíu íslenskar bækur á næstu fimm til sex árum. „Ástin fiskanna, Meðan nóttin líður og Riddarar hringstigans eru hluti þessarar ritraðar, en síðan langar mig til þess að þýða nokkur módernísk verk eftir höfunda eins og Thor Vilhjálmsson og Svövu Jakobsdóttur, höfunda sem Kínverjar hafa ekki kynnst vel.“

Viðtalið er birt með leyfi Morgunblaðsins

Steinþór Guðbjartsson
steinthor@mbl.is

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *