Geir

Konfúsíanismi í Kína Samtímans

Afturganga, endurfæðing eða dauður bókstafur?
Geir Sigurðsson, PhD.

Eftir að hafa verið menningarlegur grundvöllur kínverska keisaraveldisins nær óslitið í yfir 2000 ár átti konfúsíanismi sér fáa málsvara í Kína á fyrstu áratugum 20. aldar. Honum var hafnað af allflestum menntamönnum sem einni meginorsök hnignunar Kínaveldis gagnvart evrópsku nýlenduveldunum á 17.-19. öld og fulltrúa óafturkræfrar og óæskilegrar fortíðar. En áður en 20. öldin var öll tóku bæði menntamenn og sósíalísk yfirvöld aftur til við að hampa konfúsíanisma sem ákjósanlegri heimspeki til að leiða kínverskt samfélag inn í hina 21. Hvernig stóð á þessum róttæku umskiptum í garð hugmyndafræði sem kommúnistar kenndu jafnan við spillingu og afturhald? Hver er staða konfúsíanisma í Kína samtímans og hvers kyns hlutverki skyldu kínversk yfirvöld gera ráð fyrir að hann muni gegna í framtíðinni?
Geir

Geir Sigurðsson er prófessor í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands og doktor í heimspeki frá Hawaii-háskóla. Í rannsóknum sínum hefur hann öðru fremur einblínt á kínverskar heimspekistefnur, einkum á konfúsíanisma, jafnt í fornöld sem nútíð. Auk fjölda greina um heimspekileg efni er hann höfundur bókarinnar Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation sem kom út hjá State University of New York Press árið 2015 og var verðlaunuð sem ein besta bók ársins um menntamál hjá bandarísku samtökunum Society of Professors of Education og þýðandi Hernaðarlistar Meistara Sun (Sunzi bingfa 孫子兵法) sem er væntanleg til útgáfu hjá Háskólaútgáfunni og Stofnun Vigdísar  Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Þessi viðburður er á vegum Kínversk-íslenska menningarfélagsins og Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa, sem býður einnig upp á ókeypis veitingar. Hann verður haldinn fimmtudaginn 12. desember kl.17:30 í stofu VHV-007, sem er í kjallara Veraldar, húsi Vigdísar, að Brynjólfsgötu 1, Reykjavík.  Næg frí bílastæði eru við bygginguna.
Verold

Áður en fyrirlesturinn hefst verður boðið upp á veitingar og geta gestir spjallað saman og notið þeirra en síðan tekur fyrirlesturinn við sem áætlað er að taki um 45 mínútur. 

Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *