Kína og málefni norðurslóða
Egill Þór Níelsson
Áhugi Kína á málefnum norðurslóða hefur stóraukist á undanförnum árum. Egill Þór Níelsson var við Heimskautastofnun Kína síðastliðin átta ár og fylgdist með þróun mála frá fyrstu hendi. Í erindi sínu greinir hann frá þátttöku sinni í leiðangri ísbrjótsins Snædrekans frá Kína til Íslands í gegnum N-Íshafið sumarið 2012, stofnun og starfsemi kínversk-norrænu norðurslóðamiðstöðvarinnar frá 2013 og setur þá reynslu í víðara samhengi við þátttöku Kína á norðurslóðum í vísindalegu samstarfi og alþjóðaviðskiptum með tilliti til breyttrar heimsmyndar.
Egill Þór Níelsson er sérfræðingur á alþjóðasviði Rannís og vinnur að doktorsverkefni um samskipti Kína og Norðurlandanna um málefni norðurslóða við Háskóla Íslands og Lapplandsháskóla.
Þessi viðburður er á vegum Kínversk-íslenska menningarfélagsins og Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa, sem býður einnig upp á ókeypis veitingar. Hann verður haldinn fimmtudaginn 14. nóvember kl.17:30 í stofu VHV-007, sem er í kjallara Veraldar, húsi Vigdísar, að Brynjólfsgötu 1, Reykjavík. Næg frí bílastæði eru við bygginguna.
Áður en fyrirlesturinn hefst verður boðið upp á veitingar og geta gestir spjallað saman og notið þeirra en síðan tekur fyrirlesturinn við sem áætlað er að taki um 45 mínútur.
Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir.