Kína er eilífðar unnusta mín
Arnþór Helgason
Kínversk-íslenska menningarfélagið var stofnað haustið 1953. Árið áður hélt íslensk sendinefnd til Kína, en boð þar um hafði borist hingað til lands. Í nefndinni voru m.a. Jóhannes úr Kötlum og Þórbergur Þórðarson, fulltrúi Esperantista.
Dr. Jakob Benediktsson var kjörinn formaður og gegndi hann formennsku til ársins 1975.
Félagið hófst þegar handa og tók á móti kínversku listafólki á 6. áratugnum. Má þar nefna Peking-óperuna sem kom hingað 1955 og vakti fádæma hrifningu. Félagið skipulagði nokkrar ferðir til Kína í boði þarlendra samtaka. Vegna kalda stríðsins voru stjórnvöld hér á landi ekki ætíð fús að veita opinberum starfsmönnum leyfi til að taka þátt í þessum sendinefndum.
Kím leitaði eftir því að Íslendingar tækju upp stjórnmálasamband við Kínverska alþýðulýðveldið, en ekkert varð úr því fyrr en 1971 og hafa samskiptin síðan vaxið óðfluga.
Þó skal þess getið að Gylfi Þ. Gíslason, þáverandi menntamálaráðherra, fór til Kína árið 1964 ásamt eiginkonu sinni, en forseti Vináttusamtaka kínversku þjóðarinnar við erlend ríki bauð honum að heimsækja sig þegar hann var hér á landi með Pekingóperunni árið 1956.
Nokkuð dró úr starfsemi Kím á 7. áratug síðustu aldar og verða ekki orsakirnar raktar hér.
Þau tíðindi urðu sumarið 1966 að Ríkisútvarpinu var boðið að senda fréttamann til Kína að fylgjast með upphafi menningarbyltingarinnar. Varð Stefán Jónsson fyrir valinu. Þótti þetta tíðindum sæta, enda var Ríkisútvarpið eini norræni fréttamiðillinn sem var þá með fréttaritara í landinu.
Stefán sendi fjölda fréttapistla frá Beijing og fleiri stöðum og vöktu þeir mikla athygli.
Eftir heimkomu Stefáns var haldinn fundur í Tjarnarbúð í Reykjavík þar sem fjallað var um ferðina. Þá heyrðist þessi auglýsing á öldum ljósvakans:
“Munið fundinn í Tjarnarbúð í kvöld. Kím.” Ég hafði orð á því við móður mína að Kím væri fallegt nafn á félagi garðyrkjumanna.
Um svipað leyti heyrði ég útvarpssendingar á ensku frá kínverska alþjóðaútvarpinu, Radio Peking. Hreyfst ég af byltingartónlistinni og því sem lýst var. Lagið Austrið er rautt hefur fylgt mér síðan.
Ég gekk í félagið haustið 1969, en það lá þá að mestu í dvala vegna anna formannsins. Um svipað leyti hafði ég komist upp á lag með að panta kínverskar hljómplötur og dreifði ég þeim til vina og kunningja. Síðar var ég beðinn að sjá um áskriftir Íslendinga að kínverskum tímaritum og voru áskrifendur hvergi fleiri en á Íslandi miðað við fólksfjölda.
Árið 1971 fóru nokkrir Íslendingar í kynnisferðir til Kína á eigin vegum. Þar á meðal voru hjónin Guðmundur Steinsson, rithöfundur og eiginkona hans, Kristbjörg Kjeld. Voru þau í boði vináttusamtakanna og kynntu sér einkum lista- og leikhúslíf, sem var þá enn í dróma menningarbyltingarinnar.
Þann 11. desember 1971 tóku Ísland og Kína upp stjórnmálasamband og var þá langþráðum áfanga náð.
Nokkru síðar var blásið til fundar í Kím og greindu þau Guðmundur Steinsson og Kristbjörg Kjeld frá ferðalagi sínu.
Eftir að sendiráð Kína var stofnað í Reykjavík vorið 1972 gerðust hlutirnir hratt. Vegna áhuga míns á kínverskum málefnum hafði ég fljótlega samband við Lin Hua, sem veitti því forstöðu og hittumst við. Varð það upphaf gagnkvæmrar vináttu á meðan báðir lifðu.
Um þetta leyti voru talsverðar sviptingar hér á landi og voru nokkrir smáflokkar stofnaðir sem aðhylltust kenningar Maos formanns.
Vorið 1974 var haldinn aðalfundur félagsins og kjörin ný stjórn. Kom þá undirritaður inn í stjórnina auk Kristjáns Guðlaugssonar og Kristjáns Jónssonar, núverandi varaformanns.
Árið eftir var enn kjörið í stjórn Kím. Varð þá Kristján guðlaugsson formaður, en Jakob Benediktsson féllst á að gegna stöðu varaformanns. Jakob lét af því embætti Árið 1993 enda hafði hann þjónað félaginu í 40 ár. Var hann kjörinn heiðursformaður þess.
Árið 1977 urðu enn formannsskipti er Kristján Guðlaugsson sagði af sér. Undirritaður var þá kjörinn formaður félagsins og gegndi því starfi með nokkrum hléum fram til ársins 2017. Auk undirritaðs voru Emil Bóasson, Ragnar Baldursson, Ólafur Egilsson og Guðrún Margrét Þrastardóttir formenn þess. Núverandi formaður er Þorkell Ólafur Árnason.
Viðamesta verkefnið sem félagið hefur tekið að sér var heimsókn listfimleikaflokks frá Tianjin. Chen tung, sendiherra Kína á Íslandi, greindi greinarhöfundi frá því í janúar 1975 að 90 manna hópur listfimleikafólks yrði á ferð um Evrópu þá um haustið. Þetta varð til þess að leitað var liðsinnis sendiherrans um að fá hópinn til Íslands og kom hann haustið 1975.
Haldnar voru nokkrar sýningar í Laugardalshöllinni og sáu þær um 13.000 manns. Nánari upplýsingar um þennan atburð er að finna á síðunni https://kim.is.
Félagið hefur fengist við margvísleg verkefni.
Fjöldi fólks úr öllum stéttum hefur farið til Kína á vegum þess í boði Vináttusamtaka kínversku þjóðarinnar við erlend ríki. Þá stóð félagið fyrir almennum ferðum til landsins í samstarfi við íslenskar og kínverskar ferðaskrifstofur á árunum 1977-2004.
Hingað til lands hafa komið allmargar sendinefndir frá Vináttusamtökunum og fleiri aðilum. Þar á meðal eru ýmsir listamenn sem glöddu þjóðina með list sinni – einkum tónlist. Á meðal þeirra er eiginkona Xi Jinping, Peng Liyyuan, söngkona.
Þá hefur félagið staðið fyrir námskeiðum í kínverskri matargerðarlist og ráðstefnum um kínversk málefni.
Árið 1994 fór hópur listamanna á vegum félagsins til Kína og var þá fyrsta íslenska málverkasýningin opnuð í Beijing. Átti , Emil Bóasson hlut að því ásamt eiginkonu sinni, Wang Chao Bóasson og Ragnari Baldurssyni, þáverandi formanni.
Á undanförnum árum hefur félagið beitt sér fyrir samskiptum íslenskra og kínverskra ungmenna og er þess vænst að þau skili góðum árangri.
Í lögum Kím er kveðið á um að félagið taki ekki afstöðu til pólitískra mála. Félagið lifði því af hinar miklu sviptingar menningarbyltingarinnar og er nú elsta menningarfélagið sem á samskipti við Kínversku vináttusamtökin.
Ég hef átt ófáar ferðir til Kína í erindum félagsins. Tilgangurinn hefur iðulega verið menningarlegs eðlis.
Í fyrstu ferð minni átti ég þess kost ásamt Páli bróður mínum að færa rauða krossinum í Kína þakklæti fyrir aðstoð sem samtökin veittu Vestmannaeyingum í eldgosinu 1973. Var mér einnig boðið að flytja þakkarávarp í Radio Peking.
Við ritun þessarar greinar þyrlast minningarnar um hugann. Enginn fer ósnortinn frá samskiptum við kínversku þjóðarinna sem er eilífðar unnusta mín.
Höfundur er vináttusendiherra.