Í stórkostlegu landslagi í Zhangjiajie þjóðgarðinum.

Jarðfræðingur Með Kínadellu

Jarðfræðingur með kínadellu
Brynhildur Magnúsdóttir

Árið 2013 ákvað ég að setjast aftur á skólabekk eftir margra ára hlé, en ég hafði áður lokið M.Sc gráðu í Jarðfræði, og hóf nám í kínverskum fræðum við Háskóla Íslands. Ég hafði nú ekki miklar væntingar um mikin námsárangur þegar ég hóf námið, en vonaðist til að ég myndi öðlast grundvallarskilning á tungumálinu, þannig að maður gæti bjargað sér úti á götu. Námið reyndist síðan bráðskemmtilegt, þó það hafi verið mjög erfitt að byrja að læra kínverskuna, og ákvað að ég útskrifast með B.a gráðu úr þessu námi, en til þess að ná því verða nemendur að dvelja eitt námsár í Kína í ströngu tungumálanámi. Ég valdi að fara til Ningbo háskóla, sem er í Zhejiang héraði í Kína, rétt fyrir sunnan Shanghai, en Ningbo háskóli er samstarfsháskóli Háskóla Íslands.

Eftir mikin undirbúning og skriffinsku mætti ég til Ningbo í lok ágúst 2015. Ég hafði ákveðið að búa ekki í heimavistinni í skólanum, heldur að búa úti í bæ, þannig að ég kæmist betur í snertingu við daglegt líf heimamanna. Til að byrja með fékk ég að búa í íbúð vinkonu minnar. Íbúðin var staðsett á 6 hæð í íbúðahverfi með mjög skemmtilegum görðum inn á milli húsanna, með lækjum, brúm og trjálundum. Íbúðin var mjög sambærileg og svipaðar íbúðir á íslandi, og komst ég að raun um það að líf millistéttarfólks í kínverskum borgum er mjög svipað lífi millistéttarfólks á Íslandi, launin eru ágæt, fólk býr í 100 – 150 m2 snyrtilegum íbúðum sem eru vel hannaðar með góðu eldhúsi (kínverjar leggja mikið upp úr matseld á heimilum), ásamt góðri salernis og baðaðstöðu, og ekki síst góðri nettengingu. Það eina sem er verulega frábrugðið er að húsin eru ekki kynnt upp á veturnar, svo menn eiga góð og hlý vetrarföt til að nota innandyra yfir köldustu mánuðina. Daglegt líf fólks er svipað og á íslandi, menn vakna, fara í vinnuna og sinna síðan ýmsum áhguamálum eftir vinnu með vinum og fjölskyldu.

Húsagarðurinn í íbúðakjarnanum og nánasta umhverfi.
Húsagarðurinn í íbúðakjarnanum og nánasta umhverfi.

Kínverjar mikla áherslu á að eyða tíma með vinum og fjölskyldu, helst úti í náttúrunni og það er algengt að vinahópar hittist oft og fari í gönguferðir eða í lautarferðir eftir vinnu. Í nágrenni borgarinnar, og jafnvel innan hennar er að finna gríðarmörg vinsæl útivistarsvæði þar sem hægt er að ganga, hlaupa eða hjóla sér til heilsubóta og víða er að finna borð og stóla og jafnvel grill, og fólk kemur með nesti og allskyns spil og unir sér vel heilu og hálfu dagana og oft langt fram á kvöld. Kínverjar eru upp til hópa mjög almennilegt fólk sem hefur gaman af hitta ólíkt fólk, og allstaðar sem maður kom voru allir af vilja gerðir til að aðstoða og spjalla.

Eitt af fjölmörgum útivistarsvæðum í Ningbo.
Eitt af fjölmörgum útivistarsvæðum í Ningbo.

Fyrstu dagarnir fóru í það að kynna sér umhverfið og samgöngurnar, hvað leið væri best að fara í skólann og læra hvernig ætti að versla inn fyrir heimilið. Ég fjárfesti í forláta rafmagnsvespu í daglega snattið og ég nýtti hana vel í að kanna nágrennið en þar var mikin fjölda alskyns verslana og veitingastaða að finna og 3 stóra stórmarkaði. Einnig voru í kringum svæðið sem ég bjó í nokkur eldri þorp sem var gaman að heimsækja og kynnast fábrotnari vistarverum almennings, en kínversk yfirvöld eru að leggja mikla áherslu á að fólk flytji úr þessum fábrotnari eldri vistarverum í nýju blokkirnar með húsagörðunum, svo þessum þorpum fer óðum fækkandi.

Eldri íbúðakjarni og nútímalegar íbúðablokkir í baksýn.
Eldri íbúðakjarni og nútímalegar íbúðablokkir í baksýn.

Tveir af stórmörkuðum voru mjög kínverskir og virkuðu mjög framandi á mann, en sá þriðji var TESCO. Þó að TESCO væri mjög vestræn miðað við hina tvo markaðina var vöruúrvalið gríðarlegt og mjög mikið af framandi vörum. Þar var hægt að kaupa hráar kjúklingalappir eftir vigt, mikið úrval er af fersku fiskmeti og kjötmeti og núðlu, snakk og tófúrekkarnir eru verulega stórir. Mér fannst líka mjög athyglisvert að skoða eggjadeildina, en Kínverjar eru mjög mikið fyrir að borða allskonar egg. Bæði fersk hænuegg og gæsaregg ásamt eggjum ýmissa annarra fugla, en þeir eru líka mikið fyrir alskonar pækluð, reykt, súrsuð og mikið krydduð egg, eggjadeildin samanstóð því af 3 stórum röðum af kælirekkum með yfirnáttúrulegu úrvali. Grænmetis og ávaxtadeildin var síðan mjög vegleg og þar var ýmislegt að finna sem maður hafði ekki hugmynd um að væri yfirhöfuð til, og var mjög gaman að smakka sig áfram þar. Hins vegar var mjög lítið um mjólk og mjólkurvörur, einn lítill kælirekki með ostum, smjöri og mjólk og rjóma var ekki að finna neinstaðar. Hafandi verið húsmóðir á Íslandi í tæp 30 ár fannst mér mjög gaman að rölta um TESCO og kynna mér vöruúrvalið, enda var ég farin að kinka kolli til margra starfsmannanna eftir stuttan tíma. Þegar á leið fór ég að hætta mér meira inn í hina markaðina og kynna mér töluvert meira framandi vöruúrval.

Úrvalið af harðfiski, ferskum kjúklingalöppum og eggjum í TESCO.
Úrvalið af harðfiski, ferskum kjúklingalöppum og eggjum í TESCO.

Skólaárinu er skipt upp í tvær annir, sú fyrri byrjar um miðjan september og stendur fram í byrjun janúar, síðan kemur mánaðar frí í kringum Kínversku áramótin og síðan byrjar seinni önnin í byrjun mars og stendur fram í miðjan júní, lokapróf eru síðan haldin í lok hverrar annar. Á sama tíma vorum við nokkur frá íslandi í skiptinámi í Ningbo sem höfðum verið samferða í náminu heima. Þegar skólinn byrjaði vorum við send í örstutt skyndipróf til að athuga kínverskukunnáttuna svo hægt væri að raða mönnum í rétta bekki eftir getu. Við lentum flest í sama bekknum. Í bekknum okkar var auk íslendingana fólk frá öllun heimshornum, nokkrir frá Afríku, Mexíkó og öðrum Asíuríkjum, Þar á meðal ein Búddanunna frá Japan og 5-6 virðulegar húsmæður á mínum aldri frá suður Kóreu. Kennslan var mun hraðari og strangari en hér heima og það tók smá tíma að koma sér í gírinn. Við upplifðum það flest að þó við hefðum lært kínversku í 2 ár hér heima, þá sátum við opinmynnt í tímum fyrstu 1-2 vikurnar og skildum ekki orð af því sem kennarinn sagði, en eftir það fór maður að ná betri tökum á þessu og eftir nokkrar vikur vorum við komin á ágætis skrið. Kennt var alla daga frá kl 9:30 og stóð frameftir degi með klukkutíma í hádegishlé.

Nemendur í Ningbo háskóla í hádegishléi.
Nemendur í Ningbo háskóla í hádegishléi.

Kennararnir töluðu eingöngu kínversku og við vorum látin lesa, hlusta og tala alla daga og fengum síðan heimaverkefni fyrir hvern dag. Miðað var við að við lærðum um 40 – 50 ný orð á viku, eða nýjar merkingar og samsetningar á orðum sem við höfðum áður lært og reglulega voru haldin svokölluð tingxie 听写, þar sem kennarinn las upp einhver af þeim nýju orðum sem við höfðum lært þá vikuna og áttum við að skrifa þau villulaust upp á staðnum með kínversku letri, það gekk svona og svona, en allt slapp þetta til. Það er eins með skólann og íbúðarhúsin að þau eru ekki kynt upp a veturna og Það var dálítið napurt að sitja á skólabekk í nokkra klukkutíma í umhverfishita sem er um 5-7 gráður og maður var orðin ansi loppin í lok dags, verst var þó að ná aldrei almennilegum hita í kroppin í um 2-3 mánuði því allar vistarverur voru kaldar.

Hópurinn sem náði munnlega prófinu eftir fyrstu önnina, allir vel dúðaðir innivið, en íslendingarnir áberandi minnst dúðaðir  Þarna sést líka í loftkælinguna sem átti að blása köldu á sumrin, og heitu á veturna, en þessar græjur voru yfirleitt einhverra hluta vegna alltaf bilaðar.
Hópurinn sem náði munnlega prófinu eftir fyrstu önnina, allir vel dúðaðir innivið, en íslendingarnir áberandi minnst dúðaðir Þarna sést líka í loftkælinguna sem átti að blása köldu á sumrin, og heitu á veturna, en þessar græjur voru yfirleitt einhverra hluta vegna alltaf bilaðar.

Tímann í Kína notaði ég einnig til ferðalaga, ég fór í nokkurra daga „kosningaferðalag“ til Beijing til að geta kosið í forsetakosningunum 2015, og var það auðsótt mál að fá frí úr skólanum til að fara að kjósa. Einnig var skotist í helgarferðir til staða í nágrennin Ningbo, eins og til Nanjing borgar, og í Yandangshan jarðfræðigarðinn, þar sem skoða má innviði útdauðs eldfjalls frá tímum risaeðlanna.

Sýnt frá leik Íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í metróinu í Beijing.
Sýnt frá leik Íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í metróinu í Beijing.
Inniviðir eldfjalls og rhíolít (líparít) í Yandangshan jarðfræðigarðinum.
Inniviðir eldfjalls og rhíolít (líparít) í Yandangshan jarðfræðigarðinum.
Kókflaska dulbúin sem kínverskur lampi í Nangjing.
Kókflaska dulbúin sem kínverskur lampi í Nangjing.

Í vorfríinu kom fjölskyldan í heimsókn og við byrjuðum á að skoða Shanghæ og Ningbo vel og vandlega og héldum síðan í suðurátt og fórum í sólarlandaferð til Hainan eyju og skoðuðum okkur um í Guangxi Zhuang sjálfstjórnarhéraði, en sonur minn sem er ættleiddur frá Kína er einmitt frá því héraði.

Útsýnið úr hraðlest
Útsýnið úr hraðlest
Sólstrandarlíf á Hainan eyju, allir kappklæddir.
Sólstrandarlíf á Hainan eyju, allir kappklæddir.
Gríðarstórt tré í miðborg Nanning, höfuðborgar Guangxi Zhuang sjálfstjórnarhéraðsins.
Gríðarstórt tré í miðborg Nanning, höfuðborgar Guangxi Zhuang sjálfstjórnarhéraðsins.

Siðasta ferðalagið var farið eftir að skólanum lauk í júní 2016 og var sú ferð til Hunan héraðs þar sem komið var við í Changsha borg, hinum stórkostlega Zhangjiajie þjóðgarði og í hinni ævafornu borg Fenghuang sem byggð er af Miao þjóðarbrotinu.

Í stórkostlegu landslagi í Zhangjiajie þjóðgarðinum.
Í stórkostlegu landslagi í Zhangjiajie þjóðgarðinum.
Fenghuang, ævaforn borg í Hunan héraði.
Fenghuang, ævaforn borg í Hunan héraði.

Þetta ár sem skiptinemi í Kína var mjög skemmtileg og fróðleg lífsreynsla, og opnaði augu manns fyrir að þátt fyrir mjög mismunandi menningarheima, er fólk í grunninn allstaðar eins.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *