Listfimleikaflokkur Frá Tianjin á íslandi

Eftir að Kínverska alþýðulýðveldið  heimti sæti sitt hjá Sameinuðu þjóðunum og þeim ríkjum fjölgaði sem tóku upp stjórnmálasamband við landið tóku Kínverjar að senda margs konar íþrótta- og listahópa til Vesturlanda. Kím hafði tekið á móti tónlistarhópi Uighura frá Xinjiang árið 1954 og Peking-óperunni árið eftir í samvinnu við Þjóðleikhúsið

WP_TIANTSIN_PLAKAT

Í janúar 1975 greindi Chen Tung, fyrsti sendiherra Kínverja á Íslandi, frá því að Tianjin-listfimleikahópurinn yrði á sýningarferðalagi um Evrópu þá um haustið. Var skorað á hann að beita sér fyrir komu hópsins hingað til lands. Um vorið varð ljóst að af því gæti orðið.

Stjórn Kím skipaði þá Arnþór Helgason og Kristján Jónsson í undirbúningsnefnd. Síðar kom til liðs við þá Kristján Guðlaugsson, formaður Kím 1975-77.  Nefndin var einhuga um að Laugardalshöllin væri eina húsið sem gæti hýst slíka sýningu og hófust því þreifingar við Íþróttabandalag Reykjavíkur. Þeim lauk svo að Laugardalshöllin fékkst til afnota gegn því að um samstarf Kím og ÍBR yrði að ræða. Undirbúningur hófst af fullum krafti í júlímánuði og stóð fram á síðustu stund. Kristján Jónsson  bar hitann og þungann af undirbúningi og framkvæmd fyrir hönd Kím.

Þarna var um að ræða langviðamesta verkefni sem Kím hafði tekist á hendur. Alls voru meðlimir listfimleikahópsins á níundatug talsins og átti Kím og samstarfsaðili að standa  straum af dvalarkostnaði að öllu leyti  meðan á Íslandsdvöl stóð en blint var rennt í sjó um áhuga íslendinga á að líta þennan forna og nýja galdur sem þessir frábæru kínversku listamenn höfðu fram að færa.

Skemmst er frá því að segja , að eftir fyrstu sýningu, þar sem aðsókn var fremur dræm  en fögnuður þeim mun meiri hjá áhorfendum , varð ljóst að þessi list og menningarviðburður hafði unnið áhuga almennings og var nánast um sigurför að ræða eftir það. Fréttamiðlar tóku hressilega við sér auk þess sem prent- og ljósvakamiðlar fjölluðum um atburðinn sem fyrstu frétt . Færri komust að en vildu og sýningarnar sem áttu að verða fjórar, urðu fimm og uppselt á allar, nema þá fyrstu .

Listfimleikahópurinn kom hingað til lands fimmtudaginn 16. Október árið 1975 og var hér í viku. Alls sáu sýningarnar um 13.000  manns og var dágóður hagnaður sem varð  mikil lyftistöng fyrir Kím.

Hópnum var boðið að Bessastöðum þar sem forsetahjónin, frú Halldóra Ingólfsdóttir og Kristján Eldjárn tóku á móti þeim af sínum alkunna höfðingsskap. Kínverskir sjónvarpsmenn voru með í för og birtust myndir af móttökunni í kínverskum sjónvarpsstöðvum.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *