Framandi Veröld

Edda Kristjánsdóttir

Ég hélt til Kína til náms haustið 1978. Fyrsta árið stundaði ég nám í kínversku. Kennslan var mjög stíf en árangursrík þannig að eftir fyrsta árið gat ég bjargað mér nokkuð vel á kínversku. Eftir þetta fyrsta ár fluttist ég yfir í Beijingháskólann og hóf nám í heimspekideild sem tók fjögur ár. Kunnáttan í kínverskunni sem ég hafði aflað mér á fyrsta árinu dugði þó skammt í kennslustundum til að byrja með þar sem umræðuefnin og orðaforðinn var allt annar. Þetta hafðist þó samt allt saman með miklum uppflettingum í orðabókum.

Keppnislið heimspekideildar á íþróttamóti í Beijingháskólanum 1979.
Keppnislið heimspekideildar á íþróttamóti í Beijingháskólanum 1979.

Ég vissi lítið um hvað ég var að fara út í og reyndi því bara að taka því sem að höndum bar og finnst alltaf að ég hafi lært miklu meira af því að vera i Kína og kynnast lífinu þar og fólkinu heldur en í hinu eiginlega námi í skólanum. Samgangur milli heimamanna og útlendinga var undir smásjá en þó var hægt að hafa manneskjuleg samskipti við Kínverja ef ekki var farið út fyrir ákveðinn ramma sem stundum gat verið þokukenndur. Samskipti kynjanna voru einnig mjög formleg og þegar fólk fór að draga sig saman  þurfti að fara mjög leynt með það, annars gat hættan verið sú að yfirvöld notuðu tækifærið til að senda nýja parið til afskekktari staða (2 fyrir 1)  þar sem yfirvöld vildu fjölga Han kínverjum og menntuðu fólki.  Yfirvöld reyndu einnig að koma jákvæðum og upplífgandi skilaboðum til almennings og víða voru hátalarar úti við og send voru út skilaboð og tónlist frá því snemma á morgnana og fram á kvöld.

Boðhlaupssveit kvenna heimspekideildar á íþróttamóti 1979.
Boðhlaupssveit kvenna heimspekideildar á íþróttamóti 1979.

Upplifun mín af því að koma til Kína, rétt eftir að Mao formaður féll frá, var að koma inn í algjörlega nýja og framandi veröld. Á þeim tíma var Kína allt öðruvísi en það er í dag og gjörólíkt öllum vestrænum samfélögum. Að sumu leyti var þetta eins og að vera komin nokkra áratugi aftur í tímann. Allir voru í svipuðum fatnaði, eða svokölluðu Mao- fötum, bæði konur og karlar og lítið var um fatabúðir, hins vegar var hægt að fara í svokallaðar „Friendship“búðir þar sem kaupa mátti ýmislegt og þar á meðal ýmis fataefni og láta síðan sauma á sig föt, margir erlendu nemanna gerðu það og urðu í framhaldinu nokkuð lúnknir í fatahönnun. Vöruúrval í verslunum var einnig  mjög fábrotið og þess utan þurfti skömmtunarseðla fyrir sumar matvörur, eins og t.d hveiti. Hentugast og ódýrast var að snæða í skólamötuneytinu.

Mér hefur alltaf fundist þessi mynd mjög krúttleg – gamla konan á myndinni er með bundna fætur eins og enn mátti sjá á sumum eldri konum á þeim tíma.
Mér hefur alltaf fundist þessi mynd mjög krúttleg – gamla konan á myndinni er með bundna fætur eins og enn mátti sjá á sumum eldri konum á þeim tíma.

Flestir kínverjar höfðu lítið á milli handanna á þessum árum og voru sumir mjög fátækir og bjuggu í lélegum húsakynnum. Algengustu byggingarformin í Norður-Kína eru svokölluð hutong sem eru sambyggð hús með ferköntuðum sameiginlegum garði í miðjunni og þar bjó stórfjölskyldan. Í fátækari hutongum voru moldargólf, eða einföld hellulögð gólf algeng og fólk bjó almennt frekar þröngt. Beijingborg byggðist upp af þessum hutongum, sem voru misríkmannlegir, og inn á milli hutongana voru garðar þar sem ræktað var ýmislegt matarkyns. Í heimavistinni í Beijingháskólanum bjuggu erlendir nemendur ekki svo illa, eða um 1-2 í hverju herbergi, en algengt var að kínversku nemendurnir byggju 6 saman í litlu herbergi þar sem ekkert pláss var fyrir annað en kojurnar. Á þessum árum voru hús oft illa upplýst, enda verið að spara rafmagnið, og algengt að sjá nemendur lesa fyrir próf undir ljósastaurum á götum úti. Veturnir í Beijing geta verið kaldir og naprir og það var lítið um upphitun, almenningur og nemendur reyndu þó að ylja sér við eldavélar og gashitara en það dugði skammt, var það skrýtin upplifun að sitja í skólastofu, dúðuð frá toppi til táar með vettlinga og reyna að taka glósur. Ef ég kvartaði um kulda, t.d. í húsum þá var svarið yfirleitt – já en þú ert frá Íslandi, þú hlýtur að vera vön þessu.

Forboðna borgin
Forboðna borgin

Mannlífið var frekar dauflegt síðdegis og á kvöldin á veturna. Eftir myrkur tæmdust göturnar svo gott sem og var það skrýtin tilfinning að hjóla um galtómar og illa lýstar götur í draugalegri milljónaborginni. En á sumrin var borgin mun líflegri og mun fleira fólk á ferli eftir vinnu. Aðal samgöngutæki almennings á þessum tíma voru reiðhjól, en verið var að taka fyrstu neðanjarðarlestina í Beijing í gagnið á þessum árum.

Ég notaði tímann á Kínaárunum einnig til ferðalaga, en í Kína eru áhugaverðir staðir við hvert fótmál. Ef ætlunin var að ferðast út fyrir Beijing þurfti að sækja um sérstakt leyfi, en það var yfirleitt auðsótt. Ég heimsótti Yunnanhérað, Taifjallið, Suzhouborg og Wuxi og að ógleymdri Guilínborg en umhverfið þar er eitt það sérkennilegasta og fallegasta sem ég hef séð.  

Ferðirnar innan Kína voru farnar með ævafornum kolaknúnum járnbrautarlestum sem liðuðust skröltandi milli landshluta, Fólk var almennt ekki að leggja mikið í ferðalög á þessum tíma, nema erindið væri brýnt, og margir voru yfirhlaðnir af allskyns pinklum og pjönkum og allflestir vel nestaðir. Kínverjarnir ferðuðust yfirleitt í svokölluðum hörðum sætum, sem voru ódýrust og hírðust á járnbekkjum í yfirfullum klefum í kannski 1-2 sólarhringa, en ég var yfirleitt í svefnrými með tiltölulega mjúkum rúmum í 4 manna klefum. Það gerðist síðan oft í lengri ferðum að einhver farþegi safnaði kjarki og fór að ræða við mig á ensku, það voru ekki margir á ferðinni sem kunnu ensku, svo það var um að gera að nota tækifærið.

Margir af þeim sem ég hitti og talaði við, bæði á ferðalögum og í Beijing, vissu að Ísland væri til og það væri í Norður-Evrópu. Allir héldu náttúrulega að það væri ofboðslega kalt á Íslandi og voru vantrúaðir á að veturinn í Beijing væri jafnkaldur og á Íslandi.

Ég hef komið nokkrum sinnum til Kína eftir að ég lauk námi árið 1983. Fór fyrst árið 1987 en þá var ekki að sjá miklar breytingar á þjóðlífinu frá því áður. Síðan hef ég farið í ferðir til Kína árin 1996, 2006, 2011, 2014 og 2018.

Breytingarnar í Kína frá 1987 eru ótrúlegar. Beijingborg, þar sem ég bjó í 5 ár, hefur breyst svo mikið að ég þekki mig ekki lengur. Það eru helst svæðin í kringum Tiananmentorg og Wangfujingstræti sem ég get áttað mig nokkurn veginn á. Fólkið er líka orðið mun frjálslegra í fasi og framkomu við útlendinga, og mun fleiri eru farnir að tala ensku. Ég hef á ferðum mínum til Kína farið til ýmissa stórborga og virðast þær flestar gjörbreyttar eins og t.d. Beijing og Shanghai, að koma þangað getur virkað á mann eins og ferð inn í framtíðina. Önnur svæði, eins og t.d. Tíbet sem ég heimsótti árið 2006 eru minna breytt og minna enn þó nokkuð á gamla Kína.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *