Á kínamúrnum. Haldið upp á fimmtugsafmæli mitt í Kína 2017

Gaman í Kína

Gaman í Kína
Guðrún Margrét Þrastardóttir

Guðrún Margrét Þrastardóttir hóf störf í Sendiráði Íslands í Beijing árið 1999, og bjó í borginni í 3 ár.

Ég  var einstæð móðir og flutti með Þröst son minn til Beijing en við höfðum aldrei komið til Kína áður og hafði ég alls ekki leitt hugann að því að búa þar. Þröstur fékk skólavist í góðum alþjóðlegum skóla, þar sem hann naut sín daglega en hann ferðaðist þangað með skólabíl.

Í heimsókn í skóla Þrastar, Western Academy of Beijing árið 2014 – Þröstur með aðalkennara sínum
Í heimsókn í skóla Þrastar, Western Academy of Beijing árið 2014 – Þröstur með aðalkennara sínum

Upplifun mín af Kína var að það væri gaman, yndislegt og öruggt að búa í Beijing, allar samgöngur væru til fyrirmyndar þó að umferðin væri þung og umferðamenningin skrautleg, þar sem kínverjar voru vanir því að búa sér til sitt eigið pláss í umferðinni – umferðamerkingar voru álitnar leiðbeinandi frekar en eitthvað sem ætti að fara eftir. Ég fékk ökuréttindi í Kína og eftir 3ja mánaða búsetu var ég komin á minn eigin bíl og fór allra minna ferða akandi, Ég hafði þá lært af leigubílstjórum að til þess að komast út í umferðina, þyrfti að mjaka sér rólega inn án þess að ná augnsambandi við þann sem svínað var á.  Ég gleymi ekki morgninum þegar ég vissi að ég elskaði að búa í Kína. Þá hafði ég verið um 8 mánuði í borginni og var á leið til vinnu. Allt í einu sveigði umferðin mjúklega til hliðar meðan kínverskur maður um áttrætt, hjólaði á móti umferðinni á miðri götu, í Mao fötum, með hringlaga gleraugu, stráhatt og apa á stýrinu. Enginn kippti sér sérstaklega upp við þetta heldur hliðruðu bara til í umferðinni.  

Mikið hefur verið rætt um mengun í Beijing og eitthvað er til í því, þótt ég sé ekki alltaf sátt við fréttaflutninginn hér á vesturlöndum þar sem sömu myndinar eru sýndar aftur og aftur. Þetta var alls ekki svona slæmt á þeim árum sem ég bjó þar og þegar ég var í Beijing 2014, 2016 og 2017 þá kom mengun varla við sögu. Kínverjar hafa nefnilega spýtt verulega í og eru að vinna ötullega í orkuskiptum, með því að þróa græna tækni og fjárfesta í raforkuvinnslubúnaði sem notar endurnýjanlegar eða lágkolefnis orkulindir, svo sem sól, vind, fallorku vatns og kjarnorku. Reynt er að draga úr kolakyndingu eins og kostur er.

Mér finnst kínverjar almennt vera vingjarnlegir, hjálpsamir, glaðlegir og skemmtilega beinskeyttir. Það er því ekki óvanalegt að heyra kínverja koma með hreinskilnar athugasemdir varðandi útlit, holdafar eða einkalíf viðkomandi, en þetta er þó alls ekki illa meint, heldur bara talað um staðreyndir, rétt eins og einhver væri ljóshærður eða dökkhærður, en þessi hreinskilni kínverja virkar samt oft stuðandi á vesturlandabúa. Auðvitað er þetta bara menningarmunur og honum ber að fagna.

Til þess að ráða við heimilislífið réð ég svokallaða „frænku“ eða Ayi. Mín Ayi var alveg stórkostlegur karakter og einn sá besti kokkur sem ég hef kynnst á ævinni. Ayi byrjaði yfirleitt vinnudaginn um tvöleytið þegar hún keypti í matinn og sótti soninn í skólabílinn. Hún sá um eldamennsku og þrif en á þeim árum voru mánaðarlaun hennar 16,000 íslenskar. Hún breytti lífi mínu þessi yndislega vinkona og tók okkur að sér, en þegar ég kom til Kína var ég þessi týpíska íslenska kona sem vann of mikið, strögglaði milli mánaðarmóta auk þess sem ég var týnd í tímahraki og samviskubiti. Einstæðar mæður voru ekki algengar í Kína á þessum árum en við mættum aldrei fordómum. Ég lærði það af Ayi að við erum öll eins í grunninn, við viljum allt það besta fyrir börnin okkar, fjölskylduna og okkur sjálf.

Við mæðginin á kínamúrnum.
Við mæðginin á kínamúrnum 2017.

Ein besta saga sonar míns var þegar við vorum nýflutt til Kína. Ég fór beint til vinnu en sonurinn naut þess að ferðast um Beijing með Ayi á bensínhjóli. Þau voru að koma úr slíkum leiðangri þegar hann hringir í mig í vinnuna og segir mér að hún hafi keypt fyrir hann gæludýr, þrjá litla fiska. Við þrjú eyddum svo kvöldinu í það að nefna fiskana og gefa þeim að borða en þeir fengu að gista í stórum potti, og hafði ég hafði lofað að kaupa fiskabúr strax daginn eftir. Næsta dag hringir Þröstur í vinnuna hágrátandi og kom ekki upp orði. Ég rauk heim og sá að Ayi hafði hreint ekki verið að gefa honum gæludýr, heldur að kaupa í matinn. Þarna lágu þeir, allir þrír, nýsteiktir tilbúnir í kvöldmat.

Ég fór fljótlega að spila blak eftir að ég kom til Beijing. Þetta var blandaður hópur, konur og karlar, vesturlandabúar og asíubúar. Ótrúlega sérstakur og skemmtilegur vinahópur, vinir sem fóru oft í stuttar helgarferðir saman. Við æfðum saman tvisvar í viku og eftir æfingar á sunnudögum fórum við alltaf út að borða á eftir. Síðan lendi ég í því að dyrabjöllunni er hringt hjá mér eftir kvöldmat. Úti stóðu tvær konur, ein úr kanadíska sendiráðinu og hin Beijingbúi, sem spurðu hvort ég væri ekki örugglega Gudrun from Iceland. Þær voru komnar til að bjóða mér að spila Íshokkí með nýstofnuðu liði. Ég reyndi með veikum mætti að sannfæra þær um að ég hefði aðeins stigið á skauta sem barn í litlu þorpi á Íslandi en þær hlustuðu ekki, svo ég lét reyna á spilamennskuna með skemmtilegum árangri. Auk þessara vinahópa þá kynntist ég vel öðrum foreldrum úr skóla Þrastar og naut félagsskapar af öðru sendiráðsfólki í borginni. Allt þetta fólk og góð upplifun af búsetu í Kína gerði þessi ár ein þau bestu sem ég hef upplifað fyrr og síðar.

Á kínamúrnum. Haldið upp á fimmtugsafmæli mitt í Kína 2017
Á kínamúrnum. Haldið upp á fimmtugsafmæli mitt í Kína 2017 með Hjálmari Skarphéðinssyni, Þresti Thorarensen og Elínu Ólafsdóttur.

Ég hef lengi viljað vinna með menningarmun því fólk óttast oft það sem það þekkir ekki. Ég nefndi á fundi við ráðamenn í Kína árið 2014 að mig langaði að kynna íslensk börn og unglinga fyrir kínverskri menningu. Nokkrum dögum síðar kom boðsbréf þar sem mér var boðið að koma með börn og unglinga á listahátíð í Tianjin í Kína árið 2015. Ég var í stjórn Kínversk-íslenska menningarfélagsins í 10 ár, síðasta árið sem formaður, svo það lá beinast við að keyra verkefnið í gengum KÍM. Við fórum með fyrsta hópinn út sumarið 2015 og næsta hóp 2018 en Listahátíðin er haldin á þriggja ára fresti í Tianjin, nú þegar hafa nær 20 unglingar haft kost á því að kynnast kínverskri menningu í gengum jafningja sína en um 40 þjóðir sækja hátíðina heim. Ég er sannfærð um það að þessir unglingar eru ríkari í dag vegna þessarar reynslu.

Það hefur oft farið fyrir brjóstið á mér hversu sterkar neikvæðar skoðanir fólk hefur á Kína, þá sérstaklega þeir sem hafa ekki komið þangað eða búið meðal þeirra. Íslendingar eru gjarnir á að vilja leiðbeina og gefa ráð til kínverja um það hvernig þeir eiga að hafa og gera hlutina, en skilja ekki á nokkurn hátt stærðarmun landanna, eða hafa skilning á því hvernig er að stýra svo miklum mannfjölda. Eg hef því oft spurt fólk “hvernig myndir þú bregðast við ef tæplega 1,500 milljónir manna stæði á Austurvelli að mótmæla og annar eins fjöldi mótmælti einhverju ákveðnu málefni á kommentakerfinu” Getur einhver svarað því ? Einhverra hluta vegna er sjaldan rætt um það sem vel er gert og framúrskarandi, m.a. sá árangur kínverja að hefja nokkuð hundruð milljónir manna upp úr fátækt á aðeins 30 árum – það eru fáir sem leika það eftir og finnst mér það eftirtektarvert.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *