Skýrsla Kím 2015-16

Skýrsla um starf Kínversk-íslenska menningarfélagsins
starfsárið 2015-16

Stjórn KÍM var kjörin á aðalfundi félagsins sem haldinn var á veitingastaðnum Tian í Reykjavík 9. nóvember 2015. Stjórnarfundir voru 7 á starfsárinu.

Sú ánægjulega breyting varð á starfi félagsins að efnt var til nokkurra funda auk kennslu í majiong-spilinu.

Fundir og aðrir viðburðir
Mánudaginn 16. nóvember flutti danski sagnfræðingurinn, Peter Harmsen, afar athyglisverðan fyrirlestur um Kína og seinni heimsstyrjöldina á vegum Konfúsíusarstofnunarinnar Norðurljósa  og Kím. Fyrst var haldinn hádegisfyrirlestur, en um kvöldið var efnt til fyrirlestrar á Café Meskí. Það varð fremur umræðufundur en fyrirlestur þar sem áheyrendur voru fáir.

Sunnudaginn 17. apríl var efnt til Majiong-kennslu í Iðnó, en fengin voru nokkur spil að láni hjá Kínverjum sem búsettir eru hérlendis. Mæltist kennslan vel fyrir og verður væntanlega efnt til fleiri námskeiða. Starfsnefnd félagsins undir forystu Magali B. Mouy gekkst fyrir því að keypt voru hingað nokkur spilaborð og er því félagið búið undir frekari aðgerðir.

Miðvikudaginn 1. júní hélt Ragnar Baldursson, staðgengill íslenska sendiherrans í Beijing, afar fróðlegt og skemmtilegt erindi í Kínasafni Unnar um lok menningarbyltingarinnar og arfleifð Maos formanns. Fyrirlesturinn var síðar endurtekinn á vegum Konfúsíusarstofnunar og var salurinn þéttskipaður. Ragnar rakti þar efni bókar sinnar 1976 sem gefin var út á vegum Penguin-útgáfunnar og hefur hlotið góða dóma. Þar að auki fór hann yfir aðdraganda byltingarinnar og setti fram ýmsar tilgátur um orsakir og afleiðingar ýmissa atburða sem settu mark sitt á kínverska byltingarsögu.

Tianjin-nefndin
Stjórn KÍM hefur skipað svokallaða Tianjin nefnd sem er afrakstur ferðar á vegum KÍM til Tianjin með unglinga á listahátíð sumarið 2015.

Guðrún Margrét Þrastardóttir er formaður þessarar nefndar en í nefndinni eru Magali Mouy, Gunnar Halldór Gunnarsson, Smári Baldursson og Katrín Ákadóttir.

Tilgangur nefndarinnar er að koma á tengslum milli barna og unglinga beggja landa og stuðla þannig að menningarsamskiptum og koma á góðum tengslum sem hafa það að markmiði að eyða ótta við hið ókunna og skapa vináttu sem leiðir til friðar manna á millum.

Nefndin hefur verið í þeirri vinnu að setja sér markmið og finna leiðir til að útfæra menningarsamskiptin. Mikill kostnaður, skipulagning og ábyrgð fylgir því að bjóða kínverskum börnum og unglingum til Íslands og hafa tómir sjóðir KÍM þvælst fyrir nefndinni en KÍM er fyrst og fremst menningarfélag og því ekki rekið í hagnaðarskyni. Einu tekjurnar fást með innheimtu félagsgjalda svo að nefndin er að skoða tvo kosti;

Annar kosturinn er að koma á ferðum þar sem kínversk börn koma í fylgd foreldra sinna og greiða fyrir dvöl sína hér og er þetta fyrirkomulag orðið nokkuð þekkt milli Kínverja og annarra landa. Skilyrðið fyrir slíku fyrirkomulagi er það að börnin verða að vera í íslenskum skóla í viku og eru svo aðra viku að skoða landið með foreldrum sínum. Með þessu fyrirkomulagi þyrfti að koma á föstu samstarfi við skóla á landinu og einnig að virkja félagsmenn í KÍM til þess að rétta hjálparhönd.

Hinn kosturinn er að bjóða hópi 15-18 ára unglinga til Íslands með fullri samvinnu við félagsmenn í KÍM hvað varðar gistingu, akstur, skipulag, eftirlit eða allt sem til fellur þegar ábyrgðin er að fullu hjá KÍM. Þessi uppsetning býður upp á fjárútlát hjá KÍM og hjá félagsmönnum persónulega. Markmiðið er að fá kínverska unglinga til Íslands í 7-10 daga með formerkjum listahátíðar og hefur nefndin verið að skoða samstarf við Reykjavíkurborg hvað varðar að sýna atriði á menningarnótt eða á einhverri slíkri hátíð. Þá kæmu unglingarnir til með að sýna atriði, kynnast öðrum unglingum og fara síðan í ferð með KÍM félagsmönnum um Ísland.

Tianjin nefndin stendur nú frammi fyrir því að ákveða leiðina, útfærslur og möguleika við að koma á því samstarfi sem hér var nefnt. Vanda þarf til verka til að koma á varanlegu, metnaðar- og ábyrgðarfullu skiptiprógrammi og er öllum ljóst að ekki verður farið lengra nema að tryggja aðkomu félagsmanna KÍM að samstarfinu.

Heimsóknir
Stjórn KÍM hefur verið boðið að hitta að máli ýmsar nefndir sem hafa komið hingað í kynnisferðir frá Kína. Má þar nefna nefnd frá stofnun Kínverska kommúnistaflokksins sem vinnur að auknum skilningi á milli þjóða, nefnd um málefni Tíbets og sendinefnd frá samtökum kínverskra listamanna. Voru þar flestir tónlistarmenn. Hrafn Gunnlaugsson tók á móti nefndarmönnum og KÍM-félögum á heimili sínu 20. Júní og var þar mikil gleði. Árangur fundarins er m.a. sá að þungarokkshljómsveitin Svarti pardusinn hefur sýnt áhuga á að koma fram á Secret Solstice-hátíðinni í Reykjavík á næsta ári.

Þá má nefna fulltrúa frá kínverskum brúðuleikhúsum sem sóttu Ísland heim og hittu m.a. fulltrúa Þjóðleikhússins að máli. Var það afar athyglisverður fundur og vænta menn mikils af þeim tengslum.

45 ára stjórnmálatengsl.
Þann 8. desember nk. verða 45 ár liðin frá því að Ísland og Kínverska alþýðulýðveldið tóku upp stjórnmálasamband. Hefur ýmislegt verið gert til það minnast þeirra tímamóta.

  • Í júní stóð kínverska sendiráðið fyrir tónleikum og ljósmyndasýningu í Hörpu í samvinnu við KÍM, Bandalag íslenskra listamanna o.fl.
  • Ákveðið hefur verið að efna til samkeppni um ljósmyndir frá Kína og Íslandi. Að baki keppninnar stendur Norðurlandadeild Dagblaðs alþýðunnar auk 365 miðla, Morgunblaðsins og KÍM. Hlutverk félagsins verður einkum að vekja athygli á keppninni. Þegar er byrjað að kalla eftir myndum frá Kínverjum sem hafa sótt Ísland heim og í byrjun næsta árs verður kallað eftir myndum Íslendinga frá Kína. Skilafrestur verður til 30. apríl.
  • Þá verður efnt til sýningar í Þjóðarbókhlöðunni á bókum sem hafa verið þýddar úr íslensku á kínversku og kínverskum bókum sem þýddar hafa verið á íslensku. Sitthvað fleira verður þar til sýnis. Reynt verður að gera menningarsamskiptunum sem best skil eftir því sem gögn leyfa. Stjórn félagsins sendi félagsmönnum beiðni um gögn úr fórum þeirra en einungis bárust svör frá einum einstaklingi.

Ritun samskiptasögu Íslands og Kína
Eins og greint var frá í síðustu ársskýrslu var skipuð nefnd til að undirbúa ritun sögunnar. Fulltrúi félagsins í nefndinni er Kristján Jónsson og Arnþór Helgason varamaður hans. Þá situr Ársæll Harðarson í nefndinni fyrir hönd ÍKV og kínverska sendiráðið hefur einnig skipað fulltrúa. Formaður nefndarinnar er Sverrir Jakobsson, prófessor, en hann er skipaður af Sögufélaginu.

Nefndin hefur haldið þrjá fundi. Þá áttu íslensku fulltrúarnir fund með menningarfulltrúa Utanríkisráðuneytisins 28. Júní síðastliðinn og reynt var að ná fundi mennta- og menningarmálaráðherra. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir hefur hvorki rekið né gengið.

Zhang Weidong, sendiherra, hefur útvegað tæpar tvær milljónir til verksins og verður því sjálfsagt hægt að hefjast handa í lok þessa árs eða á hinu næsta. Íslendingar þurfa því að ákveða og þá m.a. stjórnvöld, með hvaða hætti þau vilja koma að málinu. Gert er ráð fyrir að leita til íslenskra fyrirtækja um fjárstyrk og verða nöfn þeirra birt í bókinni.

Boð um þátttöku í kínverskum viðburðum
Í lok nóvember barst félaginu boð um að senda barnakór til þátttöku í barnalistahátíð sem haldin er í borginni Xining í Qinghai-fylki í ágústmánuði á þriggja ára fresti. Leitað var til ýmissa kóra í Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjavík, Mosfellsbæ, Húsavík og víðar. Ekki tókst að tryggja fjárstuðning við verkefnið og féll því þátttaka Íslendinga niður að þessu sinni. Vonir standa til að hægt verði að þiggja slíkt boð síðar, en forsendur þess eru rýmri tími til skipulagningar.

Þá bárust í vor boð frá samtökum kínverskra ljósmyndara um að einn Íslendingur tæki þátt í landsþingi þeirra í lok maí. Haft var samband við Félag samtímaljósmyndara og valdir úr 5 einstaklingar af þeim 9 sem höfðu áhuga. Dregið var um hver hlyti hnossið og kom upp nafn Einars Fals Ingólfssonar, ljósmyndara.

Mánudaginn 17. Október var haldinn kynningarfundur um borgina Changsha í Honan-fylki, en þar eru m.a. stærstu rafbílaverksmiðjur heims. Borgin er nú að efla samstarf við erlend ríki og er ráðgert að bílafloti Grayline-fyrirtækisins hér á landi verði rafvæddur í náinni framtíð. Þá er í bígerð að Ísland verði eins konar stökkpallur fyrir rafbíla á Evrópumarkaði, en landið þykir henta einkar vel vegna vistvænnar raforku.

Að kynningarfundinum loknum skrifuðu ýmsir aðilar undir samstarfssamninga við Changsha. Þar á meðal var samstarfssamningur á sviði menningar og lista, sem varaformaður KÍM, Kristján Jónsson, skrifaði undir fyrir okkar hönd. Einnig var skrifað undir samstarfssamning milli changsha og sveitarfélagsins Ölfuss.

Ýmis mál
Talsvert hefur verið leitað til félagsins á starfsárinu. Fyrirtæki, sem starfar í Finnlandi og er með útibú í Shanghai, sérhæfir sig í að skipuleggja kynnisferðir til Norðurlanda. Það hefur nokkrum sinnum leitað til félagsins um aðstoð við að útvega túlka.

Þá er talsvert hringt í farsíma formanns, en hann er einnig skráður á nafn félagsins. Má þar nefna beiðni um ráðleggingar um hin ýmsu mál, þar á meðal hjónabandsmál og sitthvað sem tengist ferðalögum. Hafa fyrirspurnirnar aldrei verið fleiri en í ár enda fer kínverskum ferðamönnum hingað til lands stöðugt fjölgandi og samskipti þjóðanna færast í aukana á ýmsum sviðum.

Veiting hvítu magnolíunnar
Á útmánuðum barst formanni félagsins tölvupóstur frá starfsmanni Vináttusamtaka Shanghai-borgar þar sem tilkynnt var að þau hygðust tilnefna hann til Hvítu magnolíuviðurkenningarinnar, en hún er veitt einstaklingum sem hafa þótt skara fram úr í samstarfi við Shanghai-borg. Var hann beðinn að senda ýmis gögn og skýrt tekið fram að ekki væri vitað hvort veitingin yrði samþykkt.

Hinn 6. ágúst síðastliðinn bárust hingað til lands skilaboð um að formaður væri á listanum og yrðu verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn 7. september.

Formaður ákvað að halda til Shanghai og veita þessari viðurkenningu móttöku. Komið var til borgarinnar mánudaginn 4. september  og haldið heimleiðis þann 7. Ýmis samtök í Shanghai, svo sem samtök verslunar, iðnaðar, háskóla auk Vináttusamtakanna tilnefna einstaklinga til viðurkenningarinnar. Að þessu sinni höfðu Vináttusamtökin tilnefnt formenn Vináttufélags Svartfjallalands og formann Kím. Reyndist þetta vera orða úr silfri sem formennirnir voru sæmdir auk tæplega 50 einstaklinga sem höfðu lagt talsvert að mörkum í samstarfi við Shanghai.

Ég veitti þessum verðlaunum viðtöku með auðmjúkum huga og innilegu þakklæti. Mér er efst í huga að þetta er ekki síst heiður og viðurkenning fyrir það starf sem unnið er innan Kínversk-íslenska menningarfélagsins. Eiga félagsmenn heiður og þakklæti skilið fyrir óeigingjarnt starf í þágu samskipta þjóðanna.

Félagið hefur átt margvísleg samskipti við Shanghai allt frá stofnun þess og hafa fáar borgir sent jafnmargar sendinefndir hingað til lands til þess að kynna sér ýmsa þætti þjóðmála. Þessum nefndum hefur verið sameiginlegt að leggja sig fram um að afla sem mestra upplýsinga.

Vináttusamtökin útveguðu mér ágæta fylgdarkonu, Song Zhemin, sem er í stjórn samtakanna. Notaði ég tækifærið og heimsótti m.a. blindraskóla sem ég hafði komið í ásamt félögum mínum árið 1975. Var unaðslegt að verða vitni að því mikla starfi og framförum sem þar hafa orðið. Þá heimsóttum við einnig áður nefnt fyrirtæki sem starfar á sviði ferðamála auk borgarbókasafnsins í Shanghai, en þar var skilið eftir eintak dagbóka Jóhannesar úr Kötlum frá ferð sendinefndarinnar sem sótti Kína heim árið 1952.

Eins og fram kemur í þessari skýrslu hefur KÍM mörg járn í eldinum. Eru því félagsmenn hvattir til að hafa samband við félagið og gefa kost á sér til starfa í þágu þeirra málefna sem félagið hefur helgað sér. Getur þá hver og einn greint frá áhugamálum sínum og stuðlað þannig að enn fjölbreyttara starfi.

Skýrsla þessi er samin upp úr fundargerðum og tölvuskeytum ásamt efni frá starfsnefnd félagsins.

Seltjarnarnesi, 26. Október,

Arnþór Helgason (sign)

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *