Bingdao

Lífið á Bingdao

Lífið á Bingdao
Hu Yuanming (Ming)

Fimmtudaginn 16.maí var síðasti viðburður fyrirlestraraðarinnar Snarl og spjall haldinn í Veröld, húsi Vigdísar, en gert er ráð fyrir að halda mánaðarlegum viðburðunum áfram í haust.

Hu Yuanming, oft kallaður Ming, kom og sagði frá menningarmun Íslands og Kína út frá sinni reynslu, en hann hefur verið búsettur á Íslandi í 10 ár. Hann hefur lokið háskólagráðum í kennslufræðum bæði í Kína og við Háskóla Íslands og hefur mikinn áhuga á menningu landanna. Á Íslandi hefur hann meðal annars starfað við kínverskukennslu og leiðsögn kínverskra ferðamanna.

Áður en erindið hófst var að venju boðið upp á kökur, kaffi og ávexti.

Ming
Hu Yuanming ásamt Þorgerði Önnu Björnsdóttur sem hefur séð um Snarl og spjall um Kína ásamt Kristjáni H. Kristjánssyni.

Ming kynnti sig á íslensku en skipti svo yfir í ensku fyrir erindi sitt sem var á léttum nótum og skemmtilegt. Ming sagði t.d. frá því hvernig hann sem ungur Kínverji hefði ekki haft neina innsýn í kaffimenningu og þegar hann fékk starf sem á veitingastað í Reykjavík varð hann hissa á hve margar tegundir væru af kaffibollum og þekkti ekki muninn á bollum fyrir espressó, cappuchino, latte og Irish coffee – hann hefði haldið að kaffi væri bara drukkið úr einum bolla.

Hann talaði um hve ólíkir staðirnir væru, heimaslóðir hans í Suður-Kína þar sem yxi mikið af ávöxtum og nú væri mangó- og litchi-tímabilið, og Ísland sem væri hrjóstrugt í samanburði. Hann sýndi mynd af fossi á hans heimaslóðum sem hann kallaði sinn Gullfoss en heitir Detian-foss og stendur á landamærum Suður-Kína og Víetnam, og benti á að hann væri í tveim þrepum, rétt eins og Gullfoss.

Hann deildi líka með áheyrendum skondnum vangaveltum kínverskra ferðamanna sem hefðu til dæmis spurt hann hve marga þræla hefði þurft til að höggva út stuðlabergið við Reynisfjöru, en þau hefðu ekki áttað sig á því að hið sérstæða stuðlaberg myndast náttúrulega og haldið að konungur Íslands hefði skipað fyrir um verkið fyrr á öldum. Önnur vangavelta kínverskra ferðamanna var af hverju íslenska væri svona flókin, sennilega hefði fólk haft lítið að fást við og gert tungumálið svona erfitt til að stytta sér stundir.

Síðan talaði hann aðeins um tungumál og hvernig tónlist geti hjálpað til við tungumálanám og dregið úr fjarlægð á milli fólks. Hann hefur til að mynda sjálfur notað rapp við kínverskukennslu. Hann fjallaði stuttlega um muninn á ritmáli Kínverja, sem er myndletur, og íslenska stafrófinu sem mörgum Kínverjum þætti erfitt að nota og muna stafsetningu orða. Að lokum söng hann, mjög vel og án blaðs, lagið Ég er kominn heim eftir Óðinn Valdimarsson, og tóku áhorfendur undir með honum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *