Byggjum Bjartari Framtíð í Samskiptum Kína Og íslands

Byggjum bjartari framtíð í samskiptum Kína og Íslands
Jin Zhijian sendiherra Kínverska alþýðulýðveldisins

Sendiherra

Í dag, 1. október, eru liðin 69 ár frá stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. Eftir stofnun nýja Kína, sérstaklega á síðustu 40 árum umbóta og opnunar, hafa átt sér stað gríðarmiklar breytingar í Kína. Kína er nú annað stærsta efnahagsveldi heimsins og stærsta heimsviðskiptaríkið og tekur af ábyrgð aukinn þátt í alþjóðasamfélaginu sem stórveldi.

Samskipti Kína og Íslands hafa aldrei verið eins góð og um þessar mundir. Mikið hefur verið um samskipti á æðstu stigum stjórnsýslu landanna og aukið traust á milli stjórnvalda. Í ár hafa m.a. varaforseti ráðgjafaþings Kína, Zhang Qingli, ásamt leiðtogum frá miðstjórnarstigi til sveitastjórnarstigs heimsótt Ísland. Forseti Alþingis Íslendinga, Steingrímur J. Sigfússon og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra Íslands hafa báðir sótt Kína heim á árinu. Allar hafa þessar heimsóknir verið til að efla samskipti ríkjanna.

Samstarf Kína og Íslands hefur borið margvíslegan ávöxt. Frá því að skrifað var undir fríverslunarsamning fyrir 5 árum síðan hafa viðskipti landanna vaxið hröðum skrefum. Samkvæmt íslenskum tölum námu viðskipti landanna 403 milljónum Bandaríkjadala árið 2014 en voru komin upp í 590 milljónir árið 2017, aukning sem nemur 13,8%. Kína heldur stöðu sinni sem helsta viðskiptaland Íslands í Asíu. Fyrir stuttu síðan var skrifað undir samkomulag sem tryggir aðgang íslensks lambakjöts á kínverskan markað. Auk þess eru samstarfsverkefni á sviðum jarðvarma og rafrænna viðskipta sem færa viðskipti landanna á nýjar brautir. Nýting Íslendinga á jarðvarma, sem og tækni og reynsla á því sviði eru vel metin af Kínverjum. Samstarf landanna á þessu sviði á sér bjarta framtíð. Þess utan er náið samband á milli landanna í alþjóðastarfi leitt af Sameinuðu Þjóðunum sem og varðandi málefna Heimskautsins, umhverfisvernd, loftslagsbreytinga o.fl. þar sem löndin hafa sameiginlegra hagsmuna að gæta.  

Margvísleg samskipti eiga sér stað á milli íbúa landanna. Ferðamönnum frá Kína hefur fjölgað ört á síðustu árum. Árið 2017 komu um 86.000 kínverskir ferðamenn til Íslands og eru þar með orðnir sjöunda fjölmennasta þjóðerni sem sækir Ísland heim. Fjölbreytt menningarsamskipti eru á milli landanna. Fjölmörg kínversk ungmenni kjósa að láta draum sinn rætast um að koma til Íslands til náms. Undankeppni og þátttaka íslenska karlalandsliðsins á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu vakti aðdáun og eftirtekt hjá Kínverjum. Fleiri og fleiri Kínverjar þekkja til Íslands og líkar við Ísland. Á sama hátt fjölgar þeim Íslendingum sem hafa áhuga á Kína. Ófáir Íslendingar eru farnir að læra kínversku, laðast að kínverskri menningu og hafa farið til Kína til að ferðast, hefja nám eða stunda viðskipti.  

Þrátt fyrir að landfræðilega sé mikil fjarlægð á milli landanna tveggja og samfélagsaðstæður ólíkar virða þjóðirnar hvor aðra á jafnréttisgrundvelli og geta með því að nýta það besta frá báðum þróast í sameiningu. Ég er fullur bjartsýni á samskipti landanna til framtíðar litið. Mín skoðun er sú að löndin þurfi að grípa „fernskonar tækifæri“ sem í boði eru:

Í fyrsta lagi, sögulegt tækifæri vegna þróunar Kína. Kína er á hraðleið í átt til nútímavæðingar og dyr landsins munu einungis opnast meira í framtíðinni. Á næstu 5 árum er gert ráð fyrir að Kína muni flytja inn varning að andvirði 8.000 milljarða Bandaríkjadollara. Draga að erlenda fjárfestingu að virði 600 milljarða Bandaríkjadollara og fjárfesta erlendis fyrir um 750 milljarða Bandaríkjadollara. Kínverskir ferðamenn erlendis munu verða 700 milljónir. Þetta felur í sér margvísleg tækifæri á samvinnu Kína og Íslands. Við þurfum að nýta okkur sem best fríverslunarsamninginn og á grundvelli öflugrar samvinnu í jarðvarma og sjávarútvegi, auka við á nýjum stöðum. Stefna á að auka samvinnu á sviðum fjarskipta, netviðskipta, nýsköpunar, endurnýjanlegri orku o.fl sviðum og þannig breikka viðskiptagrunn landanna.  

Í annan stað, að grípa tækifæri sem felast í samvinnu í tengslum við „Beltis og brautar“ frumkvæðið. „Belti og braut“ er mikilvægur vettvangur sem Kína býður upp á til að auka alþjóðlega samvinnu. Frá því að þetta frumkvæði var sett fram fyrir 5 árum síðan hafa yfir 100 lönd og alþjóðastofnanir gert samninga við Kína um samvinnu á þessum vettvangi. Ófá verkefni eru komin af stað til hagsbótar fyrir fjölmarga aðila. Þekking á þessu frumkvæði er að aukast hröðum skrefum í íslensku samfélagi. Íslensk stjórnvöld eru jákvæð gagnvart framtakinu og íslensk fyrirtæki sýna mikinn áhuga á að taka þátt í „Belti og braut“. Bæði löndin ættu að huga gaumgæfilega að því hvar tækifæri liggja í samvinnu landanna innan ramma „Beltis og brautar“. Hefja sem fyrst beint flug á milli landanna og gera hagkvæmiathugun á að hrinda í framkvæmd „íssilkileiðinni“ á heimskautasvæðinu. Finna möguleika í samvinnu á sviðum innviðauppbyggingar og stafræns hagkerfis. Efla samstarf við þróunaráætlanir og nýta kosti hvers annars til að opna í sameiningu markaði þriðja aðila og setja þannig nýjan kraft í samstarf Kína og Íslands.

Í þriðja lagi, að nýta tækifæri sem felast í auknum og dýpri samskiptum á milli íbúa landanna. Góður grunnur hefur verið lagður í dag að samskiptum fólks þar sem hvor aðili getur nýtt sína styrkleika til að fullnægja kröfum almennings landanna á sviðum menningar, menntamála og ferðaþjónustu. Skipuleggja fjölbreytt menningarleg samskipti og efla ferðaþjónustu til aukins skilnings og vináttu á milli íbúa landanna og leggja þannig traustan grunn að samskiptum landanna.

Í fjórða lagi að grípa tækifæri sem felast í samstarfi þjóðanna á alþjóðavettvangi. Löndin hafa svipaða skoðun á því hvernig beri að efla alþjóðavæðingu í viðskiptum og viðskiptafrelsi. Jafnframt eru þjóðirnar sammála þegar kemur að málefnum Heimsskautsins, umhverfisvernd, loftslagsbreytingum, sjálfbærri þróun og kynjajafnrétti. Kína er fastafulltrúi í Öryggisráði SÞ. Ísland gegnir veigamiklu hlutverki í mörgum alþjóðlegum stofnunum. Löndin hafa átt farsælt samstarf á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna. Framvegis ættu þjóðirnar að auka samráð á alþjóðavettvangi og byggja í sameiningu alþjóðasamfélag fyrir allt mannkyn og leggja þannig sitt af mörkum til heimsfriðarins.

Kínverjar óska þess að taka saman höndum með Íslendingum við að efla samskipti landanna og auka með því lífsgæði almennings í báðum löndum og byggja í sameiningu bjartari framtíð.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *