Unnur

Nýársgleði Unnar Guðjónsdóttur

Það ku vera fallegt í Kína
Nýársgleði Unnar Guðjónsdóttur

Unnur Guðjónsdóttir rekur Kínaklúbb Unnar og hefur í yfir þrjátíu ár farið með Íslendinga í ferðir til Kína þar sem hún kynnir menningu landsins til sveita og borga. Auk Kínaklúbbsins rekur hún Kínasafn að Njálsgötu 33B og má þar líta ótrúlegt úrval fallegra og merkra muni frá Kínaveldi.
Unnur

Fimmtudaginn 22. febrúar bauð Unnur til nýársgleði á Njálsgötu í samstarfi við KÍM og var þetta fyrsti viðburðurinn í viðburðaröðinni Það ku vera fallegt í Kína – snarl og spjall um Kína, þar sem áhugasömum er boðið til léttra veitinga, spjalls og fróðleiks um ýmislegt tengt Kína. Nánari upplýsingar um þetta má finna hér: https://kim.is/2018/02/17/thad-ku-vera-fallegt-kina/

Nýársgleðskapurinn var haldinn á 8. degi kínversku nýárshátíðarinnar þar sem ári hundsins var fagnað og vildi svo skemmtilega til að einmitt þrjú ár eru síðan Kínasafnið opnaði. Unnur bauð því gestum upp á bæði kínverskan líkjör og léttvín af tilefninu. Einnig fengu gestir að bragða á kínverskum ávexti sem ræktaður er í Suður-Kína og kallast á íslensku litkaber eða litkaaldin (e. Lychee, kínv. 荔枝). Því næst bauð Unnur upp á uxahalasúpu með brauðteningum og ræddust gestir við á meðan gestgjafinn gætti þess að allir fengju nóg af öllu.
Unnur

Eftir tesopa að málsverði loknum bauð Unnur gestum til stofunnar þar sem hún hélt slides myndasýningu og sagði ýmsar skemmtilegar sögur af ferðum sínum í Kína. Hún hefur lent í ýmsum ævintýrum og fengið að kynnast kínverskri menningu vel í ferðalögum sínum, enda ber heimili hennar þess merki að þar búi Kínafrömuður, þar sem sjá má kínverska muni hvert sem litið er. Að lokum fengu gestir að draga heilræði sér til lukku á nýja árinu.
Unnur

KÍM þakkar Unni fyrir höfðinglegar mótttökur og hlökkum við til næsta viðburðar fimmtudaginn þann 22.mars og minnum áhugasama á að nauðsynlegt er að tilkynna þátttöku í síðasta lagi daginn áður á netfangið: kinaklubbur@simnet.is eða með því að hringja í síma 551 2596.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *