Fundargerð aðalfundar KÍM 3.11. nóvember 2021
Aðalfundurinn var haldinn á veitingahúsinu Tian við Grensásveg.
Á fundinn mættu 11 félagsmenn – stjórnarmenn þar með taldir – og tveir gestir frá kínverska sendiráðinu.
Kristján H. Kristjánsson var kosinn fundarstjóri og Edda Kristjánsdóttir fundarritari.
Fyrst á dagskrá var skýrsla formanns KÍM, Þorkels Ólafs Árnasonar
Í skýrslunni var drepið á því helsta sem gerðist á árinu 2020 og það sem af er árinu 2021. Aðalfundi félagsins var frestað á árinu 2020 vegna kórónaveirufaldursins og hefur starfsemi félagsins að mestu leyti legið niðri síðan í febrúar 2020.
Í janúar 2020 voru haldin tvö majiang kvöld á vegum félagsins.
Í janúar 2020 flutti Hrafnhildur Ming Þórunnardóttir erindið – Ættleidd frá Kína – á vegum Snarls og spjalls og Huimin Qi hélt fyrirlesturinn – Chinese Folk Culture – þ. 13. febrúar sömuleiðis á vegum Snarls og spjalls.
23. janúar 2020 var haldinn áramótafagnaður KÍM og ÍKV. Í ár var send stafræn nýárskveðja í stað viðburðs með ÍKV.
Í byrjun febrúar 2020 sendi félagið samúðarkveðjur til CPAFFC vegna COVID.
Síðan hafa ýmsir viðburðir verið áætlaðir en öllum frestað vegna faraldursins.
Jin Zhijian sendiherra kvaddi í lok september 2021. Hann var gerður að heiðursfélaga KÍM við kveðjuathöfnina og fékk að gjöf bréfahníf frá félaginu.
Ársreikningar 2019 og 2020 lagðir fram
Edda Kristjánsdóttir gjaldkeri gerði grein fyrir ársuppgjöri fyrir bæði árin. Engar athugasemdir voru gerðar við reikningana.
Árgjald félagsins
Ákveðið var að hafa árgjaldið óbreytt; þ.e. 3.500 kr. fyrir einstakling. Ef tveir eða fleiri á heimili greiða árgjald þá er greitt fullt árgjald fyrir einn en aðrir borga helming árgjalds. Námsmenn greiða 2.500 kr.
Kjör formanns; Þorkell Ólafur Árnason var endurkjörinn formaður og Kristján Jónsson varaformaður.
Meðstjórnendur; Edda Kristjánsdóttir, Guðrún Edda Pálsdóttir og Gísli Jökull Gíslason voru endurkjörin.
Varastjórn; Kristján H. Kristjánsson, Hrafn Gunnlaugsson og Þorgerður Anna Björnsdóttir endurkjörin.
Starfsstjórn; Brynhildur Magnúsdóttir endurkjörin.
Skoðunarmenn reikninga; Vésteinn Ólason og Magnús Björnsson voru endurkjörnir og Hans Benjamínsson til vara.
Önnur mál.
Komið hefur beiðni frá Unni Guðjónsdóttur um að vera afskráð úr félaginu. Hún var gerð að heiðursfélaga fyrir nokkrum árum og því þarf að taka hana af heiðursfélagalista til að geta afskráð hana. Samþykkt var að gera það samkvæmt beiðni hennar.
Rætt um flugelda og því velt upp hvort félagið gæti beitt sér fyrir því að hingað kæmu listamenn í flugeldagerð.
Fundi slitið
Kynning á kínverskri ljóðlist.
Hjörleifur Sveinbjörnsson flutti stutta kynningu á kínverskri ljóðlist frá Tangtímabilinu sem varði frá c.a. 600 til 900 e.kr.
Gestir frá kínverska sendiráðinu.
Yang Wen, Chargé d´affaires, ásamt öðrum gesti komu frá kínverska sendiráðinu og hélt hún stutta tölu.
Minntist hún m.a. á að í ár eru 50 ár síðan stofnað var til stjórnmálasambands milli Íslands og Kína.
Einnig kom fram í máli hennar að kínversk þýðing á bók Einars Más Guðmundssonar – Hundadagar – hefði hlotið verðlaun sem besta þýdda erlenda bókin í Kína árið 2017. Hún færði síðan félaginu eðalrauðvín að gjöf frá sendiráðinu.